21. janúar 2013 - Norðurlandsskógar - Mynd viku
Fjallaþinur í Fossselsskógi (21.01.2013).Fjallaþinur er ekki algengur í íslenskum skógum, þó víða leynist fallegir einstaklingar. Þessi glæsilegi fjallaþinur er í Fossselsskógi í S-Þingeyjarsýslu. Hann er gróðursettur upp úr 1960 og er líklega af kvæminu Sapinero.
View Entire Page (page2rss.com)
---
Upplýsingar um fjallaþin úr ýmsum áttum
Fjallaþinur (l. abies lasiocarpa, n. fjelledelgran, e. subalpine fir) er háfjallatré sem á uppruna sinn í Klettafjöllum N-Ameríku, í 1200-2600 m hæð yfir sjó samkvæmt vef Lystigarðs Akureyrar en allt að 3600 m skv. Skógræktarfélagi Rvk.
Fjallaþini er lýst sem meðalharðgerðum og skuggþolnum, með dökkgrænt og mjúkt barr á vefnum 'Trjágróður við sjávarsíðuna' (upprunalega úr grein Auðar I. Ottesen um 'flokkun trjágróðurs við sjávarsíðuna eftir harðgerði' í tímaritinu 'Við ræktum').
Samkvæmt vef Grísarár er fjallaþinur frekar harðgerður, verður venjulega 6-18 m á hæð, með stuttar greinar, nærri súlulaga og allt tréð ilmar. Á ingibjorg.is er honum lýst sem sígrænu stóru tré sem þrífist ágætlega og sé skuggþolið.
Storð.is lýsir fjallaþin sem 6-20 m keilulaga ilmandi tré með dökkblágrænum nálum, ljósari á neðra borði. Tréð þarf skv. vef gróðrastöðvarinnar skjól og rakan jarðveg og er mjög skuggþolið.
Vaxtahraði fjallaþins er hægur, sérstaklega framan af ævi skv. Lystigarði Akureyrar og kjörlendi hans “sól, hálfskuggi, skuggi, skjól.” Þar segir að tréð þoli illa umhleypinga og komi “aðeins til greina á köldum svæðum”, það er því spurning hvort höfuðborgarveðrið henti því illa. Helgi Þórsson segir að fjallaþinur sé “kalsækinn og dyntóttur” í Bændablaðinu 18. tbl. 2008.
Vefur Skógræktarfélags Reykjavíkur segir börk ungra trjáa gráan með harpixblöðrum, vöxturinn sé keiluulaga og góður ilmur sé af trénu öllu. Tréð þoli vel að vaxa í skugga.
Lúsin virðist angra fjallaþin skv. findmeacure.com:
Prefers growing on a north-facing slope. Occasionally planted for timber in N. Europe but this species does not thrive in Britain. It is a very cold-hardy tree but the milder winters of this country make it susceptible to damage by aphis and late frosts.
Fjallaþinur við Melgerði 1 í Rvk var tré febrúarmánaðar 2010 hjá SR, þá 9 metra hátt og rúmlega 40 ára gamalt. Hæsti fjallaþinur Íslands árið 2003 mun hafa veirð í Múlakoti, Fljótshlíð, um 10 m.
Eftirfarandi er útdráttur úr viðtali við Sigurð Blöndal í Sunnudagsblaði Mbl. 15. ágúst 1993.
Þinur er fallegt nafn. Það er trjáheiti sem Hákon Bjarnason og Steindór Steindórsson frá Hlöðum fundu í nafnaþulu Snorra-Eddu. Þetta er gamalt trjáheiti sem finnst reyndar ekki nema í einni útgáfunni af Eddunni. Fjallaþinurinn virðist vera eina þintegundin sem auðvelt er að rækta á Íslandi. Sérstaklega í innsveitum norðan og austanlands vegna veðurfars. Hann er amerísk háfjallategund sem hefur í aðalatriðum sama útbreiðslusvæði og blágrenið. Ofurmjó króna eða spjótsoddur einkennir hann.
Fjallaþinslundurinn í Trjásafninu [Hallormsstað] er vaxinn upp af trjám komin frá gróðrarstöðinni í Alastarhaugi á Hálogalandi í Noregi. Og eins og skuggþolnum trjám sæmir vex hann hægt, einn til tvo metra fyrstu 20 árin.
Verð á fjallaþin árið 2011: Mörk: 60-70 cm á 3700 kr., Nátthagi 40 cm á 2900.
Hreinsun á þinfræi (af fésbókarsíðu Nátthaga 30. nóv. 2011):
Hreinsa eðalþinsfræið úr könglunum. Þeir detta í sundur og svo tínir maður fræin úr. Svo er að mylja vængina af og blása hratið burt og eftir er hreint fræið. Set það í raka mómold í plastpoka í kuldameðhöndlun inn í ísskáp með 2 stiga hita.
Úr erindi Sigvalda Ásgeirssonar og Árna Þórólfssonar,
Nýjustu íslensku trjátegundirnar, á fagráðstefnu skógræktar 2012:
Fjallaþinur. Abies lasiocarpa hentar í jólatré, en er vangæfur í ræktun, nema undir skerm fyrstu árin og telst skuggaþolinn. Verður aðeins runni á miklum berangri. Gefur ekki jólatré, nema trén fái fulla dagsbirtu, er frá líður. Vex á svipuðu útbreiðslusvæði og þallirnar. Getur náð 20-30 m hæð, þar sem best lætur og vex sums staðar hérlendis nær jafnhratt og sitkagreni. Myndar þroskað fræ á tiltölulega ungum aldri og getur fjölgað sér með sveiggræðslu nærri skógarmörkum.