föstudagur, 13. desember 2013

Goðaland (Góðaland) sunnan Krossár og Þórsmörk norðan Krossár

Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, ritaði grein um friðun birkiskóga og starf Skógræktar ríkisins í Þórsmörk og á Goðalandi, sem birtist í Dagskránni á Selfossi 12. desember 2013. Hér að neðan eru nokkrir bútar, greinin í heild sinni er birt á vef Skógræktarinnar.
Eftir Kötlugosið 1918 þakti vikur Merkursvæðið og taldist það óhæft til vetrarbeitar. Í kjölfar þess tókst fyrir tilstilli Árna í Múlakoti að fá samþykki allra bænda í Fljótshlíð fyrir því að beit yrði aflétt og að Skógræktinni yrði falið að sjá um friðun svæðisins.
[...]
Svæðið var girt af á 3. áratug 20. aldar, af miklu harðfylgi, enda þurfti að flytja staura og gaddavír á hestum yfir Markarfljót. Sáu heimamenn, sér í lagi af innstu bæjum í Fljótshlíð, um vinnuna.
[...] 
Útbreiðsla skóga 
Í upphafi 20. aldar voru um 300-400 ha birkiskóga og kjarrs á Þórsmörk, Goðalandi og Almenningum. Voru þessi skóglendi umlukt rofabörðum og moldum og var jarðvegseyðing yfirvofandi. Fyrstu árin eftir friðunina var töluverðu af rofabörðum lokað með því að bera greinar og hrís í sárin og tókst það nokkuð vel. Við friðunina spratt upp mikið af þéttum nýgræðingi, bæði í og við gróðurtorfur, og var skipulega unnið að því að grisja þessa skóga á fyrstu áratugunum. Var hrísið og viðurinn notaður af bændum en einnig til varnargarðagerðar í Markarfljóti. 
Þéttust skógar og breiddust nokkuð út fyrstu áratugina, á hlýindakaflanum frá 1930-1960, en þá hægði heldur á útbreiðslunni. Í kjölfar þess að hið friðaða land var stækkað árið 1990 hætti fé að leita inn í skógræktargirðingarnar af Almenningum. Það, ásamt hlýnun veðurfars, skilaði mikilli fræmyndun og stuðlaði að útbreiðslu birkinýgræðings víða um svæðið. Í dag þekja skógar 1.250 ha og á 400 ha til viðbótar vex gisinn birkinýgræðingur sem mun þéttast á næstu árum og mynda samfellda skógarþekju. Ljóst er að friðun birkiskóga hefur gerbreytt gróðurfari á Þórsmerkursvæðinu til batnaðar og er hætt við að í dag væri þar örfoka land ef framsýnir bændur og embættismenn hefðu ekki gripið í taumana.
[...]
Í grein frá ágúst 2012 sagði Hreinn m.a. frá beitarfriðun Almenninga árið 1990 og fylgdu nokkrar myndir með henni.
[...]
Friðun afrétta árið 1990 
Fleiri hundruð fjár var smalað af Þórsmörk flest ár fram undir 1990 og sem dæmi má nefna að í kring um 1980 þegar hvað flest fé var rekið á Almenninga komu 300 fjár af Almenningum í haustsmölun og 1700 af Þórsmörk og Goðalandi. Það var ekki fyrr en með samningum Landgræðslu ríkisins við upprekstrarhafa á Almenninga, Merkurtungur, Steinsholt og Stakkholt árið 1990 og með girðingu sem girt var úr Gígjökli út í Markarfljót að fjárbeit hætti á öllu Þórsmerkursvæðinu. Í kjölfar samninganna reif Skógræktin upp gömlu girðingarnar sem voru að mestu leyti handónýtar og þótti það sóun á fjármunum almennings að reyna að halda þeirri girðingu við meðan á friðun stæði. Örfáar girðingarrúllur urðu eftir í giljum í Hamraskógi og er það handvömm sem bætt verður úr.
[...]


þriðjudagur, 3. desember 2013

Af hverju ertu svona gult grenið mitt?

Ýmis atriði um ræktun sitkagrenis. Úr grein Hákons Bjarnasonar um sitkagreni, í Skógræktarritinu 1970.
Sá eiginleiki fylgir sitkagreni, að ef það veit vel við sól og birtu, myndar það nýjar en litlar greinar inn á milli þeirra, sem fyrir eru. Af þeim ástæðum verður krónan mjög þétt, og því er það allra grenitrjáa best í skjólbelti. [-] 
Þá skal þess og getið, að eftir köld og stutt sumur hefur stundum borið á vaxtartregðu á sitkagreni, sem áður hafði vaxið vel. Ýmsar ástæður geta auðvitað legið til slíks afturkipps, en í þessu tilviki virtist samt auðsætt að hér sé um skort á köfnunarefni að ræða. Komið hefur í ljós, að með því að gefa trjánum nokkurn skammt af kjarna, hreinu ammóníumnítrati[*], taka trén vaxtarkipp á ný. Allar líkur eru fyrir því, að rotnunin í jarðveginum sé svo hæg í köldum sumrum, að hún leysi ekki nægilega mikið köfnunarefni úr læðingi handa trjánum. Þessa verður líka vart hjá rauðgreni og jafnvel svo mjög, að trén eru með gulleitum blæ langt fram á sumar. Hinsvegar ber ekki eins á þessu hjá furutegundunum eða lerki. [-]
Að endingu skal þess getið, að sitkagreni hefur iðulega borið þroskað fræ á ýmsum stöðum hér á landi allt frá því að trén hafa verið um tuttugu ára. Með því er það að öðlast borgararétt í hinu íslenska gróðurríki, og er fagnaðarefni því að sitkagrenið þolir storma og saltahafvinda öllum gróðri betur, og þar sem jarðvegur er við þess hæfi með frískum jarðraka má búast við góðum árangri af ræktun þess.
 * Salt úr ammóníaki og saltpéturssýru, með efnaformúluna NH4NO3, uppistaðan í köfnunarefnisáburðinum Kjarna sem einnig innihélt kalíum og fosfat. Kjarni var framleiddur af Áburðarverksmiðjunni (nú Fóðurblöndunni). Í dag er hægt að kaupa köfnunarefnisáburð með kalki sem vegur á móti sýrandi áhrifum köfnunarefnisins.
Sitkagreni til sölu, mynd af vef gróðrarstövðarinnar Kjarrs í Ölfusi, kjarr.is.

þriðjudagur, 26. nóvember 2013

Hugtakið hálfdeigja

Hálfdeigja er það sem á ensku kallast semi-wetland.
"Hálfdeigja    Í þennan flokk falla gróðurlendin hálfdeigja, jaðar og framræst votlendi sem ekki er farið að bera augljós merki gróðurbreytinga yfir í þurrlendi (valllendi eða mólendi).
    Hálfdeigja einkennist af tegundum sem ýmist eru komnar úr votlendi eða af þurrlendi. Einkennistegundir eru starir, s.s. hrossanál, mýrarstör og slíðrastör, elftingar, t.d mýrarelfting og klóelfting. Aðrar algengar tegundir eru hálíngresi, snarrótarpunktur, túnvingull, vallhæra og smárunnar. Í hálfdeigju vex einnig oft víðir og stundum birkikjarr.
    Við fyrstu sýn er auðvelt að þekkja hálfdeigju á fífunni sem er mjög áberandi í hálfdeigju um mitt sumar. Fífan er þó einnig algeng í votlendi og því þarf að ganga úr skugga um það hvort þessir fífuflákar tilheyri votlendi fremur en hálfdeigju.
    Jarðvegur hálfdeigju er ætíð rakur en þó stendur vatn sja
ldnast upp undir grasrót. [...]"
- Nytjaland.is - yfirlit yfir tíu gróðurflokka (gróðursamfélög)
"Þar sem landið er hálfdeigt eða milli mýrar og valllendis [...]"
- Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands 65. árg. 1968, bls. 62.
"Hér skal aðeins vakin athygli á því að votlendi/hálfdeigla [hálfdeigja] er skilgreint sem 7-10% aflandi í sveitarfélaginu og þar með eru talin framræst svæði sem ekki eru farin að beraaugljós merki gróðurbreytinga. [...] Hálfdeigja einkennist af tegundum sem ýmist eru komnar úr votlendi eða af þurrlendi."
- Aðalskipulag Eyja- og Miklaholtshrepps 2008 – 2020
"Hálfdeigja, sem er jaðar milli votlendis og þurrlendis [...]"
- Svar umhverfisráðherra við fyrirspurn á Alþingi, þskj. 746 -349. mál, 125. löggjafarþing 1999-2000.
"Lítilsháttar hefur verið sáð af birkifræi í mólendi og hálfdeigt land á nokkrum stöðum, sums staðar með góðri raun."
- Hákon Bjarnason: Skógrækt á Íslandi 75 ára. Skógræktarritið 1974, bls. 16. 
Af vef umhverfisráðuneytisins.

mánudagur, 25. nóvember 2013

Hörfar lúpína?

Lúpína hörfar, lúpína hopar, lúpína víkur fyrir öðrum tegundum þegar hún hefur skapað skilyrði sem eru öðrum tegundum að skapi. Lúpína er landnemaplanta, eða frumherjaplanta eins og algengara er að lýsa plöntum sem geta vaxið þar sem gróðurskilyrði eru óboðleg flestum öðrum plöntum. Lúpínan vinnur þannig á móti þeim manngerðu gróðurbreytingum sem orðið hafa á Íslandi frá landnámi.

Lúpínan er í sumum skilningi framandi, þ.e. hún barst hingað af mannavöldum, líkt og sauðkindin og fleiri tegundir. Hún telst ekki vera ágeng, enda hafa framandi ágengar plöntur og dýr "í för með sér verulegan kostnað fyrir þá atvinnuvegi sem reiða sig á hráefni og þjónustu sem háð eru heilbrigðum vistkerfum" líkt og segir á vefnum ni.is (6. nóv. 2013). Engum dylst að lúpína sparar mikla fjármuni og tíma sem ella færu í uppgræðslu á illa förnum gróðursamfélögum, þar sem gróðurþekja er lítil og jarðvegur rýr. Hún flýtir þannig fyrir endurheimtum fyrra gróðurfars landsins og gerir hvers konar hagkvæma landnýtingu mögulega. Ágengar tegundir koma í veg fyrir landnám annarra plantna, en lúpínan gerir slíkt landnám mögulegt með því að skapa forsendur fyrir heilbrigðum vistkerfum.

Af vef Hekluskóga.
Af vef Skógræktarfélags Íslands (ágúst 2010):
Lúpína er í eðli sínu frumherjaplanta. Hún nær helst á strik þar sem hefur orðið mikil röskun eða eyðing á gróðurþekju. Hér á landi má glöggt sjá þetta t.d. á Haukadalsheiði, einnig má benda á rofin holt og vegfláa austan Reykjavíkur. Í Heiðmörk hefur lúpínan verið hvað lengst og þar heldur hún sig innan rofsvæða og er farin að hörfa. Í rofflákum eins og á Haukadalsheiði og í Heiðmörk var gróður mjög takmarkaður nema á mótum gróins og rofins lands. Það er helst á melum sem strjáll holtagróður verður a.m.k. tímabundið undir í samkeppni við lúpínu.
[...]
Dæmi eru um að lúpína sé að hopa undan graslendi og blómlendi, þannig að þetta er ekki bara spurning um hæð, heldur líka þéttleika gróðurs (sbr. grasið), úrkomu, plágur (til eru yglur og fetar sem hafa bestu lyst á lúpínum), snefilefnaástand jarðvegs, beit o.m.fl. [...] 
Lúpína getur vissulega skyggt á smáplöntur víðis og birkis, sem getur tafið vöxt, en á endanum ná þær sér oftast upp úr. Hér í kringum höfuðborgarsvæðið m.a. má víða sjá sjálfsánar birki- og víðiplöntur stinga sér upp úr lúpínubreiðum.
Þá er rétt að benda á að land sem er friðað fyrir beit er í stöðugri framþróun og þegar næringarforði fer að hlaðast upp með tíð og tíma herðir á slíkri gróðurframvindu. Hluti mela og móa með sínum smágróðri mun með tíma breytast yfir í kjarr-, skóg-, gras- eða blómlendi, þótt lúpína komi þar hvergi nærri.
Af vefnum ni.is, færsla sem virðist vera frá apríl 2012.
Myndin að ofan er úr umfjöllun um rannsókn Borgþórs Magnússonar á gróðurframvindu í lúpínubreiðum frá 2011. Myndatexti:
Lúpína hörfar af landi á vikrunum í Þjórsárdal þar sem henni var dreift fyrst um 1970. 
Fyrirlestur um rannsókn Borgþórs má finna á YoutTube.
Af vefnum bjorgum.is, færsla 9. sept. 2013. 
Myndin að ofan er af vef bæjarins Bjarga í Húsavík, tekin í Bæjarfjalli (717 m). Björg (Bjargir) er ysti (og nyrsti) bærinn í Útkinn, Köldukinn. Myndatexti:
Greinilega má sjá að lúpínan er farin að hopa á vissum svæðum í bæjarfjallinu.
Í stað kröftugrar lúpínu, sem sums staðar nær í mittishæð, vex nú gras og annar gróður.
Þetta gefur von um að í stað gróðurlítilla mela, sem voru á þessu svæði áður en lúpínu var sáð, verði innan tíðar gróðurþekja með fjölbreyttum gróðri.
Af kortavef ja.is.
Á Íslandi er lítill hópur fólks sem telur lyng og fjalldrapa, berangur og uppblásið land, vera náttúrulegt ástand. Einhæft og einfalt. Jafnvel eru sumir sem vilja standa vörð um þessa hnignun. Fleiri horfa til þess hvað sé unnt að gera til þess að náttúran fái að þróast áfram og endurheimtur verði á skógum og annarri fjölbreyttari gróðurþekju. Í því skyni er skynsamlegast að horfa til þess hvernig tegundir hegða sér, kosti þeirra og galla, frekar en hvort þær bárust hingað hingað af sjálfsdáðum eða fengu til þess hjálp. Sakir fjarlægðar landsins er flóra þess fremur fátækleg, sérstaklega hefur það glatað mörgum þeirra trjátegunda sem hér uxu fyrir síðustu ísöld.

Í skýrslu nefndar um endurskoðun laga um landgræðslu frá júlí 2012 segir svo frá:
Líklegt er að um helmingur þeirrar gróðurhulu sem hér var um landnám hafi glatast. Mikil umskipti hafa einnig orðið í gróðurfari og hefur þekja birkiskóga minnkað úr a.m.k. 25% af flatarmáli landsins í um 1%. Samsetning þess gróðurs sem eftir stendur einkennist mjög af landhnignun, með mikilli útbreiðslu tegunda sem verjast vel búfjárbeit eða einkenna röskuð svæði. 
[-] 
Með hnignun jarðvegs og gróðurs hafa orðið miklar breytingar á lífríki og virkni vistkerfa. Frjó vistkerfi hafa víða orðið eyðingu að bráð og áhrif á tegundasamsetningu gróðurs, smádýra, örvera og fugla eru mikil. Ekki síst hefur orðið mikil skerðing á jarðvegslífi, en rannsóknir þar að lútandi eru litlar.
Eftirfarandi er brot úr grein Ásu L. Aradóttur, Ólafs Arnalds og Steve Archer: Hnignun gróðurs og jarðvegs (Árbók Landgræðslunnar 1992):
Við langvarandi eða þunga beit geta beitarfælnu tegundirnar smám saman orðið ríkjandi og er líklegt að algeng gróðurlendi hér á landi, svo sem lyngmóar og þursaskeggsmóar, séu afleiðing búsetu og beitar. Við þessa gróðurfarsbreytingu rýrnar beitargildi landsins og veldur það auknu álagi á góðar beitarplöntur sem eftir standa nema dregið sé úr beitinni.
Misjafnt hafast mennirnir að.
Náttúrufræðistofnun í faðmi náttúrunnar.
Mynd: Einar Gunnarsson 2012.

mánudagur, 11. nóvember 2013

Rök gegn skógrækt á Íslandi

Það eru í reynd engin haldbær rök gegn skógrækt á Íslandi almennt, þótt færa megi rök gegn skógrækt á einstaka stöðum. Grípum niður í einn kafla í grein Jónasar Jónssonar, Hugleiðingar um skógrækt, í Skógræktarritinu 1972-3:
AFSTAÐA TIL SKÓGRÆKTAR
Það er staðreynd, að í afstöðu sinni til skógræktar skiptast menn all mjög í flokka hér á landi. Sumir eru henni mjög fylgjandi og fullir af áhuga fyrir henni og af vissu fyrir því, að hún eigi hér ekki aðeins rétt á sér, heldur hafi einnig miklu hlutverki að gegna. Aðrir, sem minna til þekkja, eru áhuga- og trúlitlir. Enn aðrir eru henni beinlínis andsnúnir, þeir eru þó langfæstir og gera skógrækt síst meira mein en ýmsir þeir áhugalitlu, sem játa gildi skógræktar með vörunum. 
Þessi mismunandi afstaða stafar að verulegu leyti af því, hvað fólk þekkir raunverulega lítið til skógræktar hér á landi. Allt of fáir þekkja af eigin raun árangur skógræktarstarfanna, hvaða möguleika við höfum til að klæða landið skógi, og hvert gildi það hefði fyrir landið og þjóðfélagið.
Jónas er m.a. fv. formaður Skógræktarfélags Íslands 1972—1981 og Búnaðarmálastjóri 1980—1995.

Í Brekkuskógi.



fimmtudagur, 7. nóvember 2013

Laufmold - real men sow

Alþjóðleg vika jarvegs er víst nýafstaðin. Hér er brot af pistli af vefnum Real Men Sow, um laufmold. (Ég er samt hrifnastur af moltumars.)
[...] here are 10 reasons that I love leaf mould.
[...]
3. Leaf mould is easy to make
Bag up the leaves, tie the neck loosely and make a few splits in the bag. Leave for a year or so, and hey presto, leaf mould! 
4. Leaf mould improves moisture retention
Adding leaf mould to soil keeps the water in. This is useful for both containers and beds, and after all, using less water can only be a good thing. 
5. You can use leaf mould instead of peat
Peat is primarily used to retain moisture in soil when it is dry, but leaf mould offers an excellent alternative. Mix with topsoil and garden compost for a good potting mix. 
6. Leaf mould makes good mulch
I’ve been using leaf mould to mulch all my plants during the summer and they’ve responded well. Mulching helps to trap moisture and suppress competing weeds. 
7. Leaf mould smells like a woodland!
I absolutely love the smell of woodland. I ride my bike in woods regularly, and there is something gorgeous about that moist, fresh smell that gets me every time. And the other day, I went to a bag of leaf mould, and that same rich scent engulfed me when I opened it. Bliss. 
8. Leaf mould is a good soil conditioner
Although not recognised as nutritionally rich, leaf mould is a good soil conditioner. It can be added to improve poor soils, but also used to maintain already excellent soil.
[...]

mánudagur, 4. nóvember 2013

Birkisáning á lítt grónum melum og munurinn á haust- og vorsáningu

Eftirfarandi er útdráttur úr grein Eggerts Konráðssonar, bónda að Haukagili í Vatnsdal, í Búfræðingnum 1936Birkisáðreitir í Vatnsdal. Greinin var endurbirt í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1989.
Af tilraunum þessum hefir fengist sú reynsla, að birkifræ getur fest rætur og upp af því vaxið plöntur, þótt jarðvegur hafi ekki frjósama mold, aðeins ef landið er ekki of þurrt.
Um tilraunirnar í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu, sem sáð var til 1927, skrifaði einnig þáv. skógræktarstjóri, Agnar F. Kofoed-Hansen, greinina Um stofnun skóglendis og trjágarða í Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1933-1934:
Á Hofi í Vatnsdal er svæðið á skrælþurru landi og moldarlagið þunnt. Vöxtur var 3 fyrstu árin sama sem enginn, en síðan fór hann batnandi samkvæmt því, sem áður var tekið fram um kröfur trjáplantna til ljóss og jarðvegshita, og nú eru margar plöntur um 30 sm. 
Þessar mælingar samræmast ágætlega niðurstöðum Bryndísar Marteinsdóttur og Sigurðar H. Magnússonar, sem birtust árið 2010 í Náttúrufræðingnum, í greininni Árangur birkisáninga á uppgræddu landi í Gára. Í rannsókn þeirra voru birkiplöntur sem sáð var til í Gára, austnorðaustan Gunnarsholts, 1992 og 1994 mældar árið 2007 og reyndist meðalvöxtur ungplantnanna undir 4 cm á ári. Meðalvaxtarhraði birkis á Íslandi mun vera 4,8-7,3 cm á ári, samkvæmt rannsókn Þorbergs Hjalta Jónssonar 2004. Fræið í Gárasáningunni mun einkum hafa verið úr görðum í Kópavogi og í greininni er Gára lýst sem örfoka landi, ekki ólíku Vakalág í næsta nágrenni.

Hér að neðan er svo kafli úr grein Ágústar Árnasonar: Sáning birkis á víðavangi, sem birtist í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1989.
Út og vestur af túninu í Hvammi í Skorradal voru illa grónir melar, sem hægt hefur gengið að græða upp þó landið hafi verið friðað fyrir beit frá árinu 1960. 
Svo vildi til fyrir um 12 til 15 árum að hér var til dálítið af grasfræi og birkifræi. Það mun hafa verið í seinni hluta maímánaðar að ég fékk nágranna minn með áburðardreifara og blandaði þessum fræafgöngum saman við tilbúinn áburð og fékk hann til að dreifa þessu á hluta af melnum hér fyrir utan tún. 
Grasfræið spíraði vel og brautirnar eftir dreifarann urðu grænar og skáru sig úr á melnum. Lítið bar á birkiplöntunum fyrst í stað en greinilegt var að þær lifðu í skjóli grassins. 
Á næstu árum var ekkert borið á þetta og sáð-grasið fór að fölna og deyja en smáplöntur af birki fóru að koma í ljós. Síðan hefur tvívegis verið dreift á þetta litlu magni af blönduðum tilbúnum áburði eftir að sáðgrasið var að mestu dautt. Birkiplönturnar hafa tekið mjög vel við sér af þessum áburðarskömmtum og eru nú þær stærstu komnar í um hnéhæð.
[...] Áberandi er að birkið er þéttast þar sem grasfræið spíraði best. Tekið skal fram að þetta var algjör handahófs tilraun. Ekkert efni mælt né vegið og ekkert skráð frá upphafi en árangurinn er skráður í dálítilli gróðursögu á melnum fyrir vestan tún í Hvammi. 

Loks er hér langur kafli úr grein Sigurðar H. Magnússonar og Borgþórs Magnússonar: Birkisáningar til landgræðslu og skógræktar í Skógræktarritinu 1990.
Tilraunirnar eru gerðar við skógarjaðra á fimm stöðum á Rangárvöllum við mismunandi gróður- og jarðvegsskilyrði. Þær eru á mel og hrauni sem eru hálfgróin, og í þursaskeggsmóa, grámosaþembu og mýrarjaðri sem eru algróin. Í tilraununum eru reyndar sex meðferðir með fimm endurtekningum. [...] Sáð var í reitina í lok september 1987 og um miðjan maí 1988.  
Sumarið 1988 var fylgst með spírun í tilraunareitunum á þriggja vikna fresti, frá miðjum júní og fram í september. Kímplöntur voru merktar með lituðum hringjum og var notaður einn litur fyrir hvern athugunartíma svo hægt væri að fylgjast með afföllum plantna sem spírað höfðu á mismunandi tímum. Þar sem svörður hafði ekki verið fjarlægður, var set (nærvist) hverrar kímplöntu flokkað og svarðarþykkt mæld. Haustið 1988 var stærð kímplantna mæld og talinn fjöldi blaða á hverri plöntu. Sumarið 1989 var vitjað um reitina aftur um miðjan júní og afföll könnuð og nýspírun skráð. Athuganir fóru einnig fram í júlí og í lok ágúst og voru þær með svipuðu sniði og árið áður, nema hvað nýjar kímplöntur voru ekki merktar. Rannsóknunum er ekki nærri lokið. Ætlunin er að halda þeim áfram í nokkur ár. Helstu niðurstöður sem fengist hafa eru í stuttu máli þessar:
  1. Haustsáning gaf yfirleitt meiri heildarspírun á næsta sumri en vorsáning (2. mynd). 
  2. Þau fræ sem sáð var að hausti spíruðu að langmestu leyti snemma sumars og haustspírun var nánast engin. Fræ sem sáð var að vori spíruðu mest um mitt sumar og spírun hélst lengur fram á sumarið en ef sáð var að hausti [...]. 
  3. Svörður hafði úrslitaáhrif á spírun. á algrónum, þurrum svæðum spíraði nánast ekkert, ef sáð var í svörð, sem var þykkari en einn cm. Þar sem rakt var, þ.e. í mýrarjaðrinum, var spírun aftur á móti allgóð í óhreyfðum sverði (2. mynd), en þar spíruðu fræin í mosalagi. 
  4. Í reyttum reitum (án svarðar) var spírun yfirleitt góð, en þó var allmikill munur milli staða. minnst spíraði á melnum en mest í mýrinni. 
  5. Stærð plantnanna var mjög misjöfn eftir svæðum. Minnstar voru plönturnar í grámosaþembunni en stærstar í mýrinni. 
  6. Sterkt samband var á milli aldurs (spírunartíma) og stærðar plantna fyrsta haustið. Því fyrr sem fræin spíruðu þeim mun stærri voru plönturnar að hausti [...]. 
  7. Á flestum stöðum voru afföll talsverð fyrsta veturinn, sem að miklum hluta stöfuðu af frosthreyfingum í yfirborði jarðvegs. Í mýrinni stóð vatn hátt að vori og lágu reitir undir vatni um tíma, sem var aðalorsök mikilla affalla þar. 
  8. Afföll voru misjöfn eftir svæðum og voru þau m.a. háð stærð plantnanna. því stærri sem þær voru fyrsta haustið þeim mun meiri voru lífslíkur þeirra (6. mynd). 
  9. Mikill munur var á afföllum að vetri eftir því í hvers konar seti plönturnar uxu. Á melnum voru þau t.d. mun meiri þar sem gróðurlaust var, en þar sem fræin höfðu spírað í þunnu gróðurlagi.
Myndum og tilvísunum til þeirra er sleppt í útdrættinum að ofan, að frátöldum myndum 2 og 6 sem birtar eru hér á eftir. Síðar í greininni segir svo frá um eftirlit með sáningunni og viðhald hennar:
Ef grannt er skoðað má greina árangur af sáningu birkifræs á fyrsta ári, en til þess verða menn að leggjast á fjóra fætur og rýna í sáðblettina. Birkiplönturnar verða ekki mjög áberandi fyrr en þremur til fjórum árum eftir sáningu. Ef land er mjög rýrt og sá gróður lítill er veitir birkinu samkeppni, getur það verið til bóta að dreifa örlitlu af tilbúnum áburði á sáðblettina þar sem birkið er að komast á legg.
2. mynd. Myndin er fengin að láni úr annarri grein Sigurðar um sömu
tilraun, frá 1989, sem birt er á landbunadur.is. Sú mynd sem finna má í skannaða
eintakinu í Skógræktarritinu er of óskýr til að nokkuð megi lesa út úr henni.
6. mynd. Átt hefur verið við myndina til til að gera hana læsilegri.
Til að fylgja eftir niðurstöðum Sigurðar og Borgþórs sem birtar voru 1990, um að spírun og lifun sé best í mýri (mýrarjaðri) er ágætt að grípa aftur niður í grein Agnars F. Kofoed-Hansen frá 1934 (Agnar gegndi starfi skógræktarstjóra á árunum 1908 til 1935):
Um þessar sáningar er það að segja, að þær hafa leitt í ljós, að með þessari aðferð er hægt að stofna nýjan skóg með hóflegum kostnaði, þar sem landið er grasi vaxið, hvort sem það er votlendi eða þurrlendi. Á votlendi tekst sáningin bezt, en þegar fram líða stundir, verður að ræsa landið fram, því að kröfur plantnanna breytast með aldrinum. Á fyrstu 3-4 árum þurfa þær skugga og raka, en síðar fullt dagsljós og hlýjan jarðveg til þess að vaxa sem bezt.
Raki er í það minnsta forsenda góðrar spírunnar. Þannig segir á vef Highland Birchwoods í Skotlandi:
Sowing should be timed, particularly in spring, with a damp spell of weather in order to promote early germination and root establishment. 
Á sama stað er lýst aðferð sem nefnd er forspírun (pre-chitting), en við köllum yfirleitt kaldörvun, til að stuðla að skjótari, öruggari og jafnari spírun:
Pre-chitting removes the uncertainty of germination and introduces material to the site which can very quickly establish itself and get beyond the vulnerable early growth stages before the onset of summer. It is imperative that pre-chitted seed is sown when the ground is damp. Pre-chitting is achieved by removing the seed from cold store and soaking in cold water for 48 hours. The seed is then put back in the fridge wet for a further fortnight [14 dagar], after which time the swollen seed will be showing signs of germinating. Care is required when sowing to avoid clumping of the wet material. 

sunnudagur, 3. nóvember 2013

Gróðrarsaga hraunanna – gróðrarstigin þrjú.

Helgi Jónsson grasafræðingur (1867-1967): Gróðrarsaga hraunanna á Íslandi, Skírnir, apríl 1906.
--- 
Gróður er styttra og hagfeldara í máli en gróðrarlag eða gróðrarfar, og er það orð haft hér í sömu merkingu og vegetatio á útlendu máli. Sú þýðing þess er og alvanaleg í mæltu máli. Er því með öllu óþarft að skýra frekar, hvað falið er í orðinu gróður.

Gróðurinn á sína sögu, og gróðursaga hinna ýmsu landa og hafa er með ýmsum hætti, og mjög svo komin undir lífsskilyrðum þeim, sem fyrir hendi eru. Gróðrarsagan segir frá »landnámi« plantnanna og skýrir oss frá, hverjar tegundir ber fyrst að hinum beru landflákum, hvernig þær þróast og greiða götu þeirra tegunda, er síðar koma. Hún er í fáum orðum: þróunarsaga hinna fjölbreyttu plöntufélaga, er byggja jörðina nú á dögum.

Sem stendur er ekki mögulegt að rita gróðrarsögu Íslands, því að gróður landsins er ekki ennþá rannsakaður til hlítar. Ennþá er oss með öllu ókunnugt um, hverjar leifar af hinum fyrsta gróðri eftir síðustu ísöld kunna að finnast í leirlögum og jökulurðum.[*] Fyrst um sinn verðum vér því að láta oss nægja, að drepa á ýmis atriði, er snerta gróðrarsögu landsins. Eitt af þessum atriðum er gróðrarsaga hraunanna, er nú má kalla nægilega kunna í öllum aðalatriðum.

I. Gróðrarþróun í hraunum.
Hraunin verða til á þann hátt, að glóandi hraunstraumur rennur úr gígnum og yfir landið umhverfis. Þá kólnar hraunið og storknar, og er lögunin á yfirborði hraunsins mest undir því komin, hvernig og hve fljótt það storknar. Eftir lögun yfirborðsins greina menn á Íslandi milli tvenns konar hrauna, er nefnd eru apalhraun og helluhraun. Apalhraunin líta út sem óskipulegar urðaröldur, en helluhraunin eru miklu sléttari og í þeim eru víða á allstórum spildum sléttar klappir eins og nafnið bendir á, en á milli óskipulegar dældir og geilar. Eru helluhraunin miklu gróðursælli en apalhraunin, meðfram af þeirri ástæðu, að vatnið á örðugra með að síga gegn um þau.

Nýrunnið hraun er með öllu eyðimörk og enginn gróður byrjar fyrr en yfirborðið er storknað og kalt. Er hraunið þá mjög svo óvistlegur bústaður fyrir plöntur, því að þar er alls enginn jarðvegur. Háplöntum er því með öllu ómögulegt að nema þar land að svo stöddu. En bót er það í máli, þótt hraunið sé jarðvegslaust, að yfirborð steinanna er hrufótt. Er það alsett skörpum broddum, en á milli þeirra eru smáholur og skorur. Stormarnir á Íslandi þyrla venjulega upp ryki, staðnæmist það miklu fremur í hinu hrufótta yfirborði hraunklettanna en á sléttum blágrýtisklettum. Um síðir kemur og jarðvegur í hraunin; verður það með ýmsu móti, en tíðast er, að plöntugróðurinn sjálfur gerir jarðveginn og lágplönturnar greiða götu háplantnanna. Skal nú farið um það nokkrum orðum.

Fyrstu landnemar hraunanna verða að vera þannig gerðir, að þeir geti lifað á beru berginu, af því að enginn jarðvegur er þar fyrir. Ýmsar lágplöntur eru þannig gerðar, svo sem þörungar (algæ), fléttur eða skófir (lichenes) og sumar mosategundir. Þörungar eru þó fremur sjaldgæfir í hraunum og látum vér því nægja að nefna þá. Fléttur og mosar eru alstaðar í klettum, en venjulegast eru flétturnar þó frumbyggjar þar.

Ýmsar fléttutegundir eru alkunnar alþýðu á Íslandi, svo sem litunarmosi, geitaskóf, fjallagrös, hreindýramosi, tröllagrös o.s.frv. Fjallagrösin og hreindýramosinn vaxa þó ekki á klettum, en eru algeng í mosaþembum, einkum til fjalla. Litunarmosinn og geitaskófir eru algengar á steinum, en teljast þó ekki til frumbyggja hraunanna. Fléttur þær, er fyrstar nema land í hraunum, eru að nokkru leyti svipaðar litunarmosa og er því líkast sem hvítar, gráar, gular, svartar eða grænleitar skorpur séu á klettunum á víð og dreif.

Flétturnar (skófirnar) teljast til sveppanna, en eru þeim þó frábrugðnar að því leyti, að þær geta sjálfar unnið fæðu sína úr kolsýru loftsins. Þó er fléttusveppurinn að því leyti líkur öðrum sveppum, að hann er ekki grænn, og getur því ekki, fremur en þeir, af sjálfsdáðum fætt sig af kolsýru loftsins. Til þess þarf hann hjálpar við og hana fær hann hjá örsmáum grænleitum þörungum, er hann þéttar sig utan um og innilykur þannig í sínum eigin líkama. Svo má að orði kveða, að fléttusveppurinn hafi þörungana í æfilöngu haldi eða þrælkun og hann lifir af þeirri fæðu er þær vinna úr kolsýru loftsins. Sjálfur þörungslíkaminn fær enga meinsemd af þrælkuninni, en þó geta þörungarnir ekki æxlast meðan þeir eru í haldinu. Þess konar viðbúð, sem hér ræðir um, köllum vér því þrælkun. Líkami fléttnanna er því samsettur af tveim tegundum, sem meira að segja teljast til mjög svo ólíkra plöntuflokka, það er að segja svepp og þörungi. Ef fléttusvepparnir hefðu ekki hina grænu þræla til að vinna fyrir sér, mundu klettar þeir, er þaktir eru hinum marglita fléttugróðri, vera svo að segja gróðurlausir, því að svepparnir gætu ekki búið þar hjálparlaust. Líkami flétta þeirra, er algengastar eru á steinum, er, eins og drepið hefir verið á, líkastur þunnri skorpu eða skóf á klettinum. Er sú líkamslögun hin hagkvæmasta fyrir plöntur á skjóllausum klettum.

Fyrir því er auðsætt, að fléttur eru mæta-vel til þess fallnar, að nema land í hraunum. En hvernig flytjast þær inn í hraunið? Um bert og nýstorknað hraun er auðvitað engin umferð, og svo mætti að orði kveða, að þar kæmi aðeins fuglinn fljúgandi; þó er mjög svo ólíklegt, að fuglar flytji frumbyggjana inn í hraunið, en það er eflaust vindurinn. Stormarnir þyrla upp jarðryki, sópa fræi og grói af plöntum, er vaxa umhverfis hraunið, og þeyta öllu saman yfir hraunflákana. Sérstaklega ber þess að gæta, að gró lágplantnanna eru svo lítil og létt, að ekki þarf hvassan vind til að feykja þeim í hraunið. Gró þeirra plantna, er geta búið á bergi, dafna og verða að fullorðnum plöntum, en gró eða fræ þeirra plantna, er þurfa jarðveg, deyja auðvitað á klettinum. Af þeim plöntum, sem vindurinn flytur í nýstorknað hraun, dafna því aðeins fléttur, mosar og ölgur, en allar háplöntur deyja, því að hraunið er jarðvegslaust. Þá höfum vér að nokkru lýst fléttunum, hversu þær eru fallnar til landnáms, og getið um, hvernig þær flytjast í hraunið; og skal nú drepið á gróðrarsöguna.

1. gróðrarstig. Fléttur og mosar á við og dreif.
Á fyrsta gróðrarstiginu er hraunið tilsýndar eins og það væri alveg nakið, en þegar komið er í sjálft hraunið, verðum vér þess fljótt varir, að marglitar smáskorpur eru á stangli hingað og þangað um nibburnar. Skorpur þessar eru fyrstu landnemarnir og teljast allar til fléttnanna. Auk þeirra vaxa þar og órfáar mosategundir, en þær finnast að eins í örsmáum holum á fleti hraunsteinanna. Meðal hinna fyrstu mosategunda er grámosinn, er síðar nær mjög mikilli útbreiðslu í hraununum; en á þessu stigi er að eins að sjá einstaka smátór milli hraunbáranna. Niðri í hraungjótunum finnast og nokkrar mosategundir, og teljast til skuggamosa, það er að segja mosategunda, sem ekki þrífast í skarpri birtu. Krakatindshraun í Hekluöræfum er ljósasta dæmi þessa gróðrarstigs af hraunum þeim, er eg hefi séð. Það hraun brann 1878. Er hraunið var 23 ára gamalt eða 1901 rannsakaði eg nokkurn hluta þess og fann að öllu samtöldu 16 tegundir, 12 mosategundir, 3 fléttutegundir og einn þörung. Eflaust mætti búast við að talsvert meiri gróður væri að finna í 23 ára gömlu hrauni á láglendinu. Þessi gróður heldur sér í gömlum hraunum, en sést þar að eins á efstu hraunnibbum eða í gjótum.

Krakatindshraun, mynd frá 2008, ljósmyndari: Geir Sig.
2. gróðrarstig. Mosaþembur.
Eftir því sem árin líða verða flétturnar tíðari og tíðari og þekja hraunnibburnar að meira eða minna leyti, og mosatórnar, er voru örlitlar í upphafi, og að eins milli hraunbáranna, breiðast út meir og meir og verða smáþúfur víðs vegar á klettunum; víða renna þær saman og þekja þá allstórar spildur. Að grámosanum kveður langmest allra mosa í hraunum og er hans fyr getið. Er hann einn meðal hinna allra algengustu mosa á íslandi og vex því nær alstaðar á steinum, í móum og jafnvel þýfðum mýrum. Mjög fljótt kemur það í ljós í hraununum, að grámosinn breiðist út miklu fljótara en aðrar mosategundir. Fyrst koma upp örsmáar tór milli hraunbáranna, eins og getið var, en því næst vaxa tórnar og verða að mosaþúfum, er breiðast út í allar áttir. Að síðustu renna þúfurnar saman, og verður þá samloðandi mosaþak yfir stór svæði. Það köllum vér mosaþembur.

Það er auðvitað fólgið í skapnaðarlagi grámosans, hve vel hann þrífst á þurrum klettum. Allflestir munu hafa tekið eftir því, að mosaþemburnar eru grænleitar í rigningatíð, en gráleitar þegar þurrviðri ganga. Orsökin til litbrigðanna er sú, að loft kemst inn í plöntuna, er vatnið gufar upp. Hið innilukta loft hylur grænkornin og veldur þannig gráa litnum, en um leið er það einnig vörn fyrir mosann gegn of miklum þurrki. En er votviðri ganga, sýgur mosinn í sig svo mikið vatn, að loftið hverfur, og er hann því grænleitur á að sjá. Þar við bætist og, að grámosanum (og mörgum öðrum mosategundum) er þannig háttað, að hann getur unnið fæðu sína úr kolsýru loftsins við lægra hitastig en háplönturnar. Fyrir því er auðsætt, að grámosinn er allra plantna bezt fallinn til að gera jarðveg í hraunum. Við aldurinn verður sú breyting á mosaþembunni, að neðsta mosalagið deyr smámsaman og fer að rotna, það er að segja: að breytast í jarðveg. Í þessum mosajarðvegi er ávalt nokkur raki, jafnvel þó langvinnir þurrkar hafi gengið, því að efsta mosalagið, eða hin lifandi mosaþemba, ver hann gegn þurrki. Þannig er mosaþemban farin að breytast í jarðveg. Mosinn á erfiðara uppdráttar eftir því sem jarðvegurinn eykst, og stenzt að lokunum ekki samkeppnina við háplönturnar, er koma hópunum saman til að taka sér bústað í hinum nýja jarðvegi. Svo mætti að orði komast, að grámosinn gerir jarðveg í hraununum og útrýmir sjálfum sér um leið. Stór svæði í hinum gömlu hraunum hafa ennþá ekki náð lengra en á þetta stig.

3. gróðrarstig. Lyngheiði.
Þegar er neðsta mosalagið fer að rotna og jarðvegur sezt í hraunið, fer það að verða byggilegt fyrir háplönturnar, enda fara þær þá að flytjast þangað. En áður en farið er frekara út í það efni, skal örlítið drepið á, hvernig háplönturnar komast í hraunið. Vér gátum þess áður, að það væri eflaust vindurinn, sem flytti lágplöntur í hraunið, og hiklaust má fullyrða, að vindurinn vinni einna mest að flutningi háplantnanna; en þó munu margar þeirra berast í hraunið með dýrum, og þar eru fuglarnir eflaust fremstir í flokki. Þess ber nefnilega að gæta, að þegar er mosaþemban er komin, er hraunið fært yfirferðar ýmsum dýrum, er á margan hátt geta flutt fræ háplantnanna með sér. Þess ber og að gæta, að hraunið gengur miklu meira í augu fuglanna eftir að mosagróðurinn er kominn, því þá hyggja þeir að þar sé björg að finna. Fuglar bera ýmis fræ með sér og það einkum í maganum, en mörg fræ hafa fræskurn svo sterka, að ekki sakar að fara, um meltingarfæri dýranna. Sum fræ spíra jafnvel fljótar eftir slíkt ferðalag en ef þau hefðu setið kyrr heima. Til dæmis má nefna að hrafnarnir éta krækiberin og flytja þannig fræin oft langar leiðir.

Þótt hinn nýi jarðvegur sé rakur, er ekki svo að skilja, að þar sé lífvænt öðrum háplöntum en þeim, er eigi eru sérlega sólgnar i vatn, eða þeim, er hafa slíkan skapnað blaða, að þær geta temprað uppgufan vatnsins úr plöntulíkamanum. Meðal hinna fyrstu plantna, er koma í hinn nýja mosajarðveg hraunsins, eru því t. a. m. krækiberjalyng, móasef, axhæra, blásveifgras, sauðvingull, lógresi, bugðupuntur, geldingalauf, heiðastör o.fl. o.fl. Í fyrstu eru innflytjendur þessir fáir og dreifðir víðs vegar um mosaþembuna, einn og einn á stangli; en með tímanum fjölga einstaklingarnir og fleiri plöntutegundir setjast að. Brátt skipa plönturnar sér og í félög eftir þeim kröfum, sem þær gera til lífsins, og félög þessi taka þau svæði í hrauninu, er þeim henta bezt. Þannig eru t a. m. allstórar spildur þaktar venjulegum lynggróðri, er samsettur er af krækilyngi, bláberja- og aðalbláberjalyngi, sortulyngi, beitilyngi, fjallhrapa, grávíði o. þ. h., en á öðrum stöðum finnum vér grasgróður og vaxa þar hinar algengustu grastegundir, er jarðvegurinn þar og nokkru rakari en í lyngheiðinni. Þessi grastegundafélög eru vísir til grasgróðurs þess, er síðar skal getið. Sumstaðar má og sjá vísi til jurtastóðs.

4. gróðrarstig.
A. Kjarr, skógur.
Smám saman fara að koma í ljós birkiplöntur hingað og þangað í lyngheiðinni, og eftir því sem árin líða og jarðvegurinn eykst, dafnar birkið betur og betur og verður að lokum kjarrskógur. Sé birkið ekki skemmt með fjárbeit eða skógarhöggi, má óhætt fullyrða, að víða kemur fram reglulegur skógur samsettur af trjám með beinum, óklofnum stofni. Innan um birkið vex reynir, grávíðir og gulvíðir, og eru þá tegundir þessar venjulega svipaðar birkinu að þroska. Hafa hraun þessi eflaust verið skógi vaxin í landnámstíð, þó þess sé ekki beinlínis getið í sögunum, að því er mér er kunnugt.

Skóginn ber að skoða sem endatakmark að því er snertir gróðrarþróun á stórum svæðum í hraununum, því að öðrum plöntufélögum veitir mjög svo örðugt samkeppni við skóginn. Rætur trjáa og runna liggja svo djúpt í jörðu, að aðrar plöntur geta öldungis ekki kept við skóginn að því er næringarefni jarðvegsins snertir, og eigi skaðar það skóginn hið minsta, þótt skógarjarðvegurinn sé alvaxinn lyngi eða grasi, því að þessar plöntur taka næringarefni úr hinum efstu lögum jarðvegarins. Annað mál er það, að þéttur undirgróður í skógi getur verið skaðlegur fyrir kímplöntur bjarkarinnar og fyrir ungt birki yfirleitt. Þá gnæfir skógurinn og hátt yfir önnur plöntufélög og er því miklu betur settur að því er sólarbirtu snertir, en án sólarljóssins geta grænar plöntur ekki lifað. Það er því augljóst að skógurinn er einvaldur um langan aldur þar, sem hann einu sinni er kominn, ef loftslag breytist ekki honum til skaða og ef engin óhöpp vilja til. En óhöpp teljum vér, skoðað frá sjónarmiði skógarins, skógarhögg, beit og yfirleitt allar árásir, er skógurinn verður fyrir af óðrum eða öðru en keppinautunum.
Gróðursamfélag á leið af 3. og yfir á 4. gróðrarstig með aðstoð lúpínu.
B. Jurtastóð, graslendi.
Þar sem nægilegt vatn er og hagkvæmt skjól kemur sérstakur gróður, er vér köllum jurtastóð; í því plöntufélagi eru blómjurtir (þ. e. jurtir með stórum litfögrum blómum) og burknar yfirgnæfandi, en auk þeirra vaxa þar ýmsar grastegundir. Á endanum mun oftast svo fara, að blómjurtunum fækkar meir og meir, en grastegundum fjölgar að því skapi, og að lokunum breytist jurtastóðið í graslendi. Meðan jurtastóðið er upp á sitt hið bezta, eru blómjurtirnar venjulega mjög þroskamiklar, en eftir því sem grösin ná meiri og meiri yfirráðum, verða þær þroskaminni. Baráttan milli grastegundanna og blómjurtanna getur verið langvinn, en óefað má fullyrða, að grastegundirnar sigra að lokum, enda standa grastegundir betur að vígi en margar aðrar jurtir, sökum hinnar kynlausu æxlunar.

Graslendið er fremur sjaldgæft í hraunum, og það er oss einkum kunnugt frá helluhraununum t. a. m. Búðahrauni, Kapelluhrauni og Afstapahrauni. Til þess að grasgróður geti þrifist er nauðsynlegt að regnvatnið hripi ekki niður úr hrauninu, og er því ofur eðlilegt, að helluhraun hafi helzt graslendi. Í Búðahrauni var grasgróðurinn yfirleitt samsettur af þessum fjórum tegundum: snarrótarpunti, túnvingli, hálíngresi og bugðupunti, en auk þeirra voru ýmsar aðrar tegundir strjálar hingað og þangað í graslendinu.

Auðvitað hittum vér og graslendi í apalhraunum, en þó ekki fyr en þau eru alþakin jarðvegi.
___________

Þetta voru aðalatriðin í gróðrarsögu hraunanna, en þó á ekki hvert hraun þessa gróðrarsögu, því að hraun til fjalla komast ekki lengra en á annað gróðrarstigið, það er með öðrum orðum: mosaþemban heldur áfram að ríkja yfir fjallhraunum, meðan loftslag ekki breytist. Það sem vér höfum sagt um gróðrarþróun hraunanna á því sérstaklega við hraunin á láglendinu, en þó skal þess getið, að hraun á yztu annesjum komast ekki lengra en á þriðja gróðrarstigið, það er að segja, þau verða ekki skógi vaxin. Til dæmis má taka, að Neshraun vestan við Snæfellsjökul er með öllu skóglaust, og ekki er getið um skóg i hraununum utan til á Reykjanesskaganum.

Þá verður og fyrir oss sú spurning: hve langan tíma þarf hraunið til að verða skógi vaxið? Þeirri spurningu getum vér ekki svarað að svo komnu, en þó er það kunnugt, að hraun á láglendi verða fyr þakin gróðri en hraun til fjalla, og orsakast það mest af því, að heitara er á láglendi en í fjöllum. Ch. Grönlund hefir lýst gróðri í 150 ára gömlu hrauni við Mývatn, og, eftir því sem hann segir, var sá gróður líkastur þeim, er vér kölluðum 1. gróðrarstig. Árið 1901 rannsakaði eg gróður í hraunum, sem brunnu 1783 (Eldhrauni og Brunasandshrauni), og voru því 118 ára gömul. Þessi hraun eru á Suðurlandi, á láglendi, enda var gróður þeirra á milli annars og þriðja stigs. Það er því augljóst, að það er ekki komið undir aldri hraunsins, hve fljótt það grær upp, heldur undir þeim lífsskilyrðum, sem fyrir hendi eru. Það eitt getum vér þó sagt, að hraunin þurfa margar, margar aldir til að gróa upp.
___________

Vér gátum þess þegar í byrjun, að jarðvegurinn kæmi með ýmsu móti í hraunin, en tíðast væri að plöntugróðurinn hefði mest að segja í því efni. Nú höfum vér skýrt frá, hvernig plönturnar gera jarðveginn og vér gátum þess og, að þær þyrftu margar aldir til þess starfa, en stundum getur jarðvegur komið í hraunin á tiltölulega stuttum tíma; á það sér einkum stað þar sem sandfok er eða öskufok. Vindurinn feykir sandi, jarðryki og ösku í hraunið, smám saman fara glufur, gjótur og hraunbollar að fyllast og að lokunum hverfa jafnvel hæstu hraunstrýturnar í sandinn. Þá fara plöntur smámsaman að taka sér bústað í sandinum, og víða grær hann upp að lokum. Á þann hátt geta meðal annars komið upp rýrar graslendur eða lynggróður. Sandfylltu hraunin eiga í aðalatriðunum sömu gróðrarsögu og venjuleg sandjörð og skal því ekki farið frekara út í hana hér. Sandfyllt hraun má finna á Reykjanesskaganum og sand- eða öskufylt hraun eru á stórum svæðum fyrir vestan Heklu og norðan. Þannig eru stór svæði kringum Skarðsfjall á Landi gömul hraun fyllt af sandi og ösku og t. a. m. bærinn Fellsmúli stendur á þess háttar hrauni. Af hraununum norðan við Heklu má geta Sölvahrauns.

II. Búðahraun.
[Seinni hluti greinarinnar ekki endurbirtur hér]

----
Greinin birtist í Skírni í apríl 1906, bls. 150-163. Hún var endurbirt að stórum hluta á vefnum ferlir.is í september 2013, fallega myndskreytt. Því miður er hluta upprunalega textans sleppt á ferlir.is, án þess að um það sé getið. Jafnvel eru setningar styttar og heilum setningum sleppt innan úr efnisgreinum. Þessi afbökun textans skrifast eflaust á fljótfærni hjá síðuhöldurum.

[*] Í dag er vitað að amerískur skógur þreifst á Íslandi þegar ísöld gekk í garð. Af stærri trjám og runnum sem fundist hafa leifar um má nefna: elri, hlyn, birki, risafuru beyki, hesli, magnólía, ösp og rósir.

fimmtudagur, 31. október 2013

Ísaldarminjar í Heiðmörk

Útdráttur úr grein Jóns Jónssonar jarðfræðings í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1975, Heiðmörk, jarðfræðilegt yfirlit:

Ein af þeim ísaldarminjum í Heiðmörk, sem maður hvað fyrst veitir athygli eru fágaðar grágrýtisklappir, hvalbök. Að norðan eða öllu heldur norðvestan eru klappirnar oft í bröttum stöllum og víða má sjá björg og stundum heilas tuðla, sem ísinn hefur rifið úr klöppunum en ekki megnað að færa nema fáa metra og stundum hefur hann aðeins náðað losa lítillega um stuðlana en ekki fært þá úr stað. Í gagnstæða átt er halli klappanna aflíðandi. Sýnir þetta straumstefnu jökulsins en oft má marka hana enn betur af rispum eða rákum á bergfletinum. Þessar rákir eru eftir steina, sem voru í botni jökulsins og ristu þessar rúnir í bergið um leið og ísinn skreið fram. Í Heiðmörk er stefna rákanna norðvestlæg og sýnir það straumstefnu jökulsins á lokastigi ísaldar. Einstaka sinnum sér maður á klöppunum steina þá sem gert hafa rákirnar, endar þá rákin undir steininum. Þetta má sjá á a.m.k. tveim stöðum í ofanverðri Heiðmörk en ekki skal það nánar til tekið hér. Stórir steinar liggja víða á þessum íssorfnu klöppum og eru slík björg nefnd grettistök. Þau eru allvíða í Heiðmörk. Stundum finnur maður hálfmána-formaðar grópir, sem liggja nær hornrétt í stefnu ísrákanna. Þær eru nefndar jökulgrópir (Einarsson 1968). Þær eru til í Heiðmörk en ekki mjög venjulegar.

Þegar jökullinn bráðnar verður eftir það efni sem í ísnum var bæði í botni jökulsins, inni í ísnum og á yfirborði hans. Þetta myndar það, sem venjulega er nefnt jökulurðir en ekki er það ævinlega réttnefni og væri jökulset oft nær sanni og svo er víða og jafnvel víðast í Heiðmörk utan þess, sem þegar hefur verið nefnt. Jökulurðin er yfirleitt ólagskipt og samanstendur af möl, sandi og leir ásamt steinum í öllum stærðum. Oft eru steinarnir rákaðir og mjög oft rúllaðir og bera þess merki að hafa rúllast í vatni en mikill vatnagangur hefur að sjálfsögðu verið í jöklinum og við hann á lokastigi tilveru hans, er því eðlilegt að allt sé í hrærigraut á slíkum stöðum bæði jökulurðir og vatnaset. Myndanir af þessu tagi eru undirstaða gróðurs í Heiðmörk. Víða er þar jökulurðin ber og með sérkennilegum gráum lit. Á vorin þegarefsta lag hennar hefur náð að þiðna er illfært um hana sökumaurbleytu. Jökulurðir eru um alla Heiðmörk en einna mestáberandi á svæðinu báðum megin vegarins vestur umTungur sunnan Hjalla en á því svæði hefur uppblástur eytt jarðvegi svo á köflum er örfoka land. Víðast hvar annarsstaðar í Heiðmörk er jökulurðin hulin mold og gróðri en stærstu steinar standa upp úr. [-]
Ísaldarmenjar á Keldudalsheiði (á Fellsmörk í Mýrdal), ljósmyndari: eirasinn.

mánudagur, 14. október 2013

Vakalág

Útdráttur úr grein Sigurðar H. Magnússonar og Borgþórs Magnússonar, Áhrif víðis á landnám birkis á skóglausu svæði, Náttúrufræðingurinn 1992, 61. árg. 1991, 2. tbl., bls. 96.


STAÐHÆTTIR OG AÐFERÐIR
Tilraunasvæðið er á hálfgrónum mel, um 6 km suðsuðvestur af Gunnarsholti,í svokallaðri Vakalág (1. mynd). Melurinn er fremur fínkorna og liggur í um 45 m hæð yfir sjó. Jarðvegur er dálítið moldarblandinn en allþéttur og eru stærstu steinar á yfirborði 3-4 cm í þvermál. Yfirborð er slétt og hallar örlítið til vesturs. Heildargróðurþekja var um 20% við upphaf tilraunar. Ríkjandi tegundir á melnum, taldar upp eftir minnkandi vægi í þekju, voru: melagambri (Racomitrium ericoides) (íslenskt heiti mosans samkvæmt tillögum Bergþórs Jóhannssonar, munnlegar upplýsingar), túnvingull (Festuca richardssonii), skriðlíngresi (Agrostis stolonifera) og axhæra (Luzula spicata). Aðrar áberandi tegundir voru krækilyng (Empetrum nigrum), geldingahnappur (Armeria maritima) og melablóm (Cardaminopsis petraea). Einnig voru á melnum allmargar stakar víðiplöntur, einkum af grávíði (Salix callicarpaea) og grasvíði (Salix herbacea). Birki var hvergi að finna á melnum eða í nágrenni hans og nær fullvíst er að allar þær birkiplöntur sem fundust eftir að tilraunin hófst hafi komið upp af því fræi sem sáð var. Svæðið hefur að mestu verið friðað fyrir beit frá því um 1950 og alfriðað frá 1980 (Sveinn Runólfsson, munnlegar upplýsingar).

Tilraunin var skipulögð sem blokkatilraun með þremur endurtekningum. Í hverri blokk voru 4 mismunandi meðferðir, sem voru: a) haustsáning, b) haustsáning og áborið á næsta vori, c) vorsáning, d) vorsáning, húðað fræ. Reitastærð var 1,2 x 10,0 m og var bil milli reita 1,2 m. Notað var hreinsað fræ sem safnað hafði verið á Kvískerjum í Öræfum dagana 15.-25. október 1987. Sáð var í reitina 11. október 1988 (haustsáning) og 24. maí 1989 (vorsáning). Af óhúðuðu fræi var sáðmagn 0,5 g/m2 (=1027 fræ/m2) en af húðuðu fræi 2,5 g/m2 («1115 fræ/m2). Til að auðvelda sáningu var fræinu blandað saman við dautt hundasúrufræ og því síðan handsáð yfir reitina. Áburði var handdreift 24. maí 1989 og var áburðargjöf 50 kg/ha af N, P, og K miðað við hrein efni.
[...]


Tilvitnanir í fyrirlestur Sigurðar H. á ráðstefnu um birkiskóga (frásögn úr Tímanum, 80. tbl., 27. apríl 1996, bls. 18):
  • Í ljós kom að haustsáning skilar betri árangri en vorsáning.
  • Fræið spíraði að langmestu leyti snemma á næsta vori.
  • Húðun birkifræs hafði í flestum tilfellum lítil áhrif á spírun. Og áburðargjöf seinkaði spírun verulega.
  • Jarðvegsyfirborð reyndist hafa úrslitaáhrif. Birkifræ spírar langbest sé því sáð á ógróna tiltölulega raka jörð. Spírun getur líka verið veruleg á grónu landi ef það er rakt (mýrar). 
  • Á algrónum tiltölulega þurrum svæðum, þar sem svörður er meira en 1 cm, reyndist spírun hins vegar lítil sem engin, nema þá ef landið var nauðbitið, og heldur ekki þegar sáð var í laust og þurrt yfirborð, t.d. sendinn jarðveg. 
  • Á grónu landi er auðvelt að auka spírun ef svörður er fjarlægður fyrir sáningu.
  • Afföll voru misjöfn eftir svæðum og meðal annars háð stærð plantnanna. Lífslíkur þeirra voru þeim mun meiri sem þær voru stærri á fyrsta hausti.
  • Áburðargjöf dró verulega úr afföllum á lítt grónu og rýru landi en hafði lítil áhrif á algrónu rýru landi. 
  • Í gróðurlausum setum voru mikil afföll að vetri til einkum vegna frostlyftingar.

Hvar er Vakalág? Morgunblaðið, 139. tbl. 23. maí 2006, bls. 38:
Land til leigu til skógræktar og bindingar kolefnis 
Landgræðsla ríkisins auglýsir til leigu tvær landspildur. Spildurnar eru einungis leigðar til skógræktar og bindingar kolefnis, og að hámarki til 50 ára. Annars vegar er um að ræða 190 ha landspildu á Geitasandi, norðan þjóðvegar 1 og vestan Rangárvallavegar (nr. 264). Hins vegar er um að ræða 70 ha landspildu við svonefnda Vakalág, ofan Gilsbakka og vestur að merkjum milli Grafar og Helluvaðs. [...]

mánudagur, 7. október 2013

Langbrok og fleira tengt ("bómullargrasi")

Fífur – Eriophorum

Skrifað um October 7, 2013

Ættkvíslin fífur (Eriophorum L.) telst til hálfgrasaættar (Cyperaceae). [...]
[...]
Ættkvíslarnafnið Eriophorum er komið úr grísku, erion, ull og foros, sá sem ber eða hefur.
Hér á landi vaxa tvær tegundir, hrafnafífa eða einhneppa og klófífa eða marghneppa. Í gömlum plöntulistum eru taldar þrjár tegundir aðrar, sem eiga að hafa fundizt hér: E. gracile, E. latifolium og E. vaginatum. Tveimur fyrr nefndu er oft ruglað saman við klófífu (E. angustifolium) og hinni síðast nefndu saman við hrafnafífu.
[...]
Klófífan er áberandi planta, bæði blöð og aldin. Nöfnin eru því mörg. Af blöðum hefur plantan hlotið nöfnin brok, fjallabrok og hringabrok en vegna litar nöfnin rauðbroti og rauðbreyskingur. Nafnið fífa þekkja flestir, en einnig eru kunn nöfnin mýrafífa, krossfífa, klófífa og marghneppa, dregið af því, að fífuhnoðrar eru venjulega nokkrir saman (3-6).
[...]
Brokflói var víða sleginn. Bærinn Brok í Út-Landeyjum var alltaf kallaður Brók og því var nafni hans breytt í Hvítanes. - Ljóst er, að Hallgerður langbrok (hin síðhærða) hefur verið rauðhærð; að öðrum kosti hefði hún aldrei verið kennd við brok. Hún var því af keltneskum ættum.

Sjá greinina í heild: http://ahb.is/fifur-eriophorum/

Myndin er ekki úr tilvísaðri grein heldur
af Wikipedia (Wikimedia commons), úr þýskri grein um Schlanke Wollgras (Eriophorum gracile)

miðvikudagur, 21. ágúst 2013

Staurabor, ruddasláttuvél o.fl. á Vesturlandi

Ársrit Skógræktar ríkisins fyrir 2012 er komið út. Hér er gripið niður í greinargerð Valdimars Reynissonar, skógarvarðar á Vesturlandi, á bls. 32 (bls. 17 í pdf skjalinu).
Árið 1990 gaf Elísabet Ólafsdóttir Skógrækt ríkisins landspilduna Laxaborg í Haukadal til minningar um mann sinn, Guðbrand Jörundsson. Tilgangur gjafarinnar var að viðhalda þeirri ræktun sem er þar og auka hana.
[...] 
Í gömlu túnin voru settar alaskaaspir (Populus tricocarpha) sem verið höfðu á beði á Vöglum í einhver ár. Það voru því miklar lengjur sem komu að norðan (allt að 4 m) og alls komu 1.350 aspir að norðan í þetta skiptið. Þeim var plantað með 3 x 3 m millibili í gömlu túnin. Mikill grasvöxtur er í gömlu túnunum og var Guðmundur Geirsson í Geirshlíð fenginn til að slá þau með ruddasláttuvél áður en hafist var handa. Hann boraði einnig fyrir plöntunum með staurabor aftan á dráttarvél og notaði haugsugu til að vökva plönturnar.
Guðbrandur, sem lést árið 1980, var oft nefndur Dala-Brandur samkvæmt grein í Mbl. 1982. Skóginn mætti því nefna Dala-Brandsskóg.

Frá gjöf Ingríðar Elísabetar Ólafsdóttur er sagt í Mbl. 1991 (fréttatilkynning frá Skógrækt ríkisins):
[...] 
Gjöfn er gefin til minningar um eiginmann hennar, Guðbrand Jörundsson frá Vatni í Haukadal, og einnig í þeim tilgangi að varðveita og auka þá ræktun, sem í Laxaborg er. 
[...]  
Guðbrandur keypti árið 1943 þann hluta Þorsteinsstaða, fremri, sem er milli þjóðvegarins og Haukadalsár. Fljótlega reistu þau hjónin sér sumarhús þarna, sem síðan hefur gengið undir nafninu Laxaborg. Þau hófu fljótlega umfangsmikla trjárækt, og nú er þar vaxinn upp myndarlegur skógarreitur. Mun drýgstur hluti tómstunda þeirra hjóna hafa verið nýttur til þess að hlúa að gróðrinum í Laxaborg. 
Lengst af hefur landareignin, sem er um 50 ha að stærð, verið friðuð. Þar hefur mikil gróðurbreyting átt sér stað, eins og athugulir vegfarendur taka eftir, og gefur hún vísbendingu um það, hvernig, gróðurfari hefur verið háttað í árdaga Íslandsbyggðar. 
Ákveðið hefur verið að hefjast handa í Laxaborg, strax á vori komanda með því að lagfæra girðingu þá, sem umlykur landareignina og gróðursetja þar skjólbelti.
Gjöf þessi er einhver sú veglegasta, sem Skógrækt ríkisins hefur verið gefin. Arður jarðeignarinnar mun geta staðið undir verulegri skógrækt, og getur því Laxaborg orðið miðstöð skógræktar í Dölum þegar fram líða stundir, og staðið sem minnisvarði um skógræktarframtak þeirra Ingríðar Elísabetar og Guðbrands um aldur og ævi.
Séð inn Haukadal, Laxaborg neðst til vintstri.
Ljósmynd: Mats Wibe Lund. 
Samtals pungaði LV út fyrir 15.000 plöntum á jörðinni samkvæmt samningi árið 2011. Á móti telur fyrirtækið kolefnisbindinguna sér til tekna í kolefnisbókhaldi sínu.

Samkvæmt ársskýrslu skógarvarðarins á Vesturlandi var auk aspanna um að ræða 7.236 stafafurur (Pinus contorta) af Skagway kvæmi og 6.700 birki (Betula pubescens) af Bolholtskvæmi. Í skýrslunni segir að árið 2013 hafi verið áætlað að planta 2.200 sitkagreniplöntu og 1.061 stafafuru og meira af ösp 2014.

Í nýtingaráætlun fyrir svæðið er gert ráð fyrir að allt í allt verði plantað hartnær 32 þús. plöntum á hektarana 15 sem eru gróðursetningarhæfir, en í heildina er jarðparturinn um 47 hektarar og allur afgirtur.

Ruddasláttuvél er til að slá á grófu yfirborði og slá sinu af túnum, fyrir þá sem ekki vita.

Í júní 2012 birti SR myndir af gróðursetningu í Laxaborg, sem liggur meðfram Haukadalsá og er sem fyrr segir í Haukadal (Dalabyggð). Í byrjun júní 2015 birtust svo fregnir á vef SR um að lokagróðursetning væri í gangi í Laxaborg og með henni teldist landið fullplantað.

Í greinargerð skógarvarðarins sem nefnd er að framan kemur einnig fram að geitur hafi komist inn í skógræktina haustið 2011 og hreinsað börkinn af um 70 ca. 4 m háum öspum og drepið þær. Svæðið væri hins vegar orðið "fjárlaust og geitafrítt" eftir að 1 km kafla af ónýtri gaddavírsgirðingu var skipt út vorið 2012.

Á sínum tíma var hreppsnefnd Haukadalshrepps mótfallin gjöfinni og vildi nýta forkaupsrétt sinn að jörðinni. Taldi nefndin að gjöfin þjónaði ekki hagsmunum sveitarfélagsins og að Skógræktin "hefði ekki skilgreint hvernig hún hygðist notfæra sér hana". Til allrar lukku var ekki fallist á þessar umleitanir.
Ljósari og stærri útgáfa af myndinni fyrir ofan,
úr Skógræktarritinu 1991.
Smellið til að stækka.
Sjá nánar: http://www.skogur.is/um-skograekt-rikisins/fasteignir/vesturland/laxaborg/

mánudagur, 19. ágúst 2013

Ertuygla leggst á skógartré, ágúst 2004

Meðfylgjandi texti er úr frétt á skogur.is frá 20. ágúst 2004. Til að nálgast myndirnar með fréttinni þarf hins vegar að notast við vefsafnið. Hér eru myndir og texti saman.

20.08.2004

Ertuygla leggst á skógartré

Ertuygla hefur etið upp stórar lúpínubreiður á Suðurlandi í sumar. Þegar lúpína er uppétin fer yglan yfir á aðrar jurtir í lúpínubreiðunum. Á Markarfljótsaurum hafa ýmsar trjátegundir verið gróðursettar í tilraunaskyni í gamlar lúpínubreiður. Yfirleitt vaxa þessar trjátegundir vel og er það þakkað niturbindingu lúpínunnar. Nú gjalda trjáplönturnar þess hins vegar að búa í nábýli við lúpínurnar eins og meðfylgjandi myndir sýna. Þrátt fyrir að bragðast frekar illa fá grenitré flest eru frekar smá (50-100 cm) ekki frið fyrir svöngum yglunum. Ekki er vitað hvort þessi ygluplága hefur varanleg áhrif á lúpínurnar eða trén sem í henni vaxa.





Myndir: "ho".

föstudagur, 28. júní 2013

Ráð gegn lúpínu

Bestu aðgerðirnar gegn lúpínu eru þær sem lýst er annars vegar af Skógræktarfélagsi Íslands í júní 2010 og hins vegar af Gauki Hjartarsyni þremur árum síðar. Loks er það meinhollt, viðtalið við Helga Gíslason, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem fór í loftið sama dag og lýsing Gauks var sett á vefinn.

I) Gaukur

Smellið til að stækka.
II) Skógrækt ríkisins
Er nauðsynlegt að eiturúð‘ana – lúpínuna?Skógrækt ríkisins og Skógræktarfélag Íslands boða til kynningar [...] á umsögn um lúpínuskýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu ríkisins. Umsögnin, Athugasemdir til umhverfisráðherra um skýrsluna „Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi: Útbreiðsla, varnir og nýting, verður formlega kynnt og fyrirspurnum fjölmiðlafólks svarað af fulltrúum Skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands. Allir eru velkomnir.

Niðurstöður sérfræðinga Skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands eru í stuttu máli:
Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu ríkisins hefur ekki verið sýnt fram á né færð rök fyrir þvílíkri skaðsemi eða ógn af lúpínu eða skógarkerfli að það réttlæti kostnaðarsamar aðgerðir hins opinbera til útrýmingar þessara plöntutegunda. Hins vegar er fyllsta ástæða til að rannsaka vistfræðilega hegðun og útbreiðslu þeirra nánar til að hægt verði að komast að því hvort slík ógn sé fyrir hendi og þá hvar og í hversu miklum mæli. Einungis ber að skoða mögulega ógn út frá forsendum sem snúa að líffræðilegri fjölbreytni, en ekki t.d. hugmyndum um ásýnd lands (sem er háð smekk og ekki hægt að ræða á hlutbundinn hátt). Þar með falla niður rök fyrir því að eyða lúpínu á öllu hálendinu, í hraunum og öðrum gosminjum yfirleitt og á a.m.k. sumum friðlýstum svæðum. Skoða ber bæði jákvæð og neikvæð áhrif lúpínu og skógarkerfils á alla þá þætti líffræðilegrar fjölbreytni sem varpa má ljósi á með vönduðum rannsóknum áður en ákvarðanir eru teknar um upprætingu. Ekki er réttlætanlegt að loka landinu fyrir nýjum tegundum sem styrkt gætu íslensk gróðurlendi, gert landið byggilegra og betur í stakk búið að standast ytri áföll, og jafnframt gert landnýtingu hér á landi sjálfbærari.

Bæði umsögnin og skýrslan eru aðgengileg á vefnum:
Lúpína við Hvaleyrarvatn.

Í fréttum Stöðvar 2 var eftirfarandi haft eftir Jóni Loftssyni skógræktarstjóra um málið:
„Með því að banna lúpínu á hálendinu, þar sem hún nær ekki að þroska fræ, hvað þá annað, er verið að koma í veg fyrir að eyðimerkurlandið Ísland breytist í eitthvert frjósamara land. Sagt er að hún vaði yfir lyng. Það má vera. En lyngið, sem er útbreiddasta gróðurtegund í dag, er síðasta stig hnignunar gróðurfars. Þar eru oft komin rotsvæði, sem lúpínan gerir frjósamari en þau voru áður."
III) Skógræktarfélag reykjavíkur
„Ég mæli með hinni náttúrulegu aðferð. Grasafræðingar hafa bent á að hún virðist hörfa eftir þrjátíu til fimmtíu ár. Það er einfaldast að fólk sættist við þessa plöntu, að hún fái að skila sinni vinnu, hneigi sig síðan og fari," segir Helgi.