föstudagur, 13. desember 2013

Goðaland (Góðaland) sunnan Krossár og Þórsmörk norðan Krossár

Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, ritaði grein um friðun birkiskóga og starf Skógræktar ríkisins í Þórsmörk og á Goðalandi, sem birtist í Dagskránni á Selfossi 12. desember 2013. Hér að neðan eru nokkrir bútar, greinin í heild sinni er birt á vef Skógræktarinnar.
Eftir Kötlugosið 1918 þakti vikur Merkursvæðið og taldist það óhæft til vetrarbeitar. Í kjölfar þess tókst fyrir tilstilli Árna í Múlakoti að fá samþykki allra bænda í Fljótshlíð fyrir því að beit yrði aflétt og að Skógræktinni yrði falið að sjá um friðun svæðisins.
[...]
Svæðið var girt af á 3. áratug 20. aldar, af miklu harðfylgi, enda þurfti að flytja staura og gaddavír á hestum yfir Markarfljót. Sáu heimamenn, sér í lagi af innstu bæjum í Fljótshlíð, um vinnuna.
[...] 
Útbreiðsla skóga 
Í upphafi 20. aldar voru um 300-400 ha birkiskóga og kjarrs á Þórsmörk, Goðalandi og Almenningum. Voru þessi skóglendi umlukt rofabörðum og moldum og var jarðvegseyðing yfirvofandi. Fyrstu árin eftir friðunina var töluverðu af rofabörðum lokað með því að bera greinar og hrís í sárin og tókst það nokkuð vel. Við friðunina spratt upp mikið af þéttum nýgræðingi, bæði í og við gróðurtorfur, og var skipulega unnið að því að grisja þessa skóga á fyrstu áratugunum. Var hrísið og viðurinn notaður af bændum en einnig til varnargarðagerðar í Markarfljóti. 
Þéttust skógar og breiddust nokkuð út fyrstu áratugina, á hlýindakaflanum frá 1930-1960, en þá hægði heldur á útbreiðslunni. Í kjölfar þess að hið friðaða land var stækkað árið 1990 hætti fé að leita inn í skógræktargirðingarnar af Almenningum. Það, ásamt hlýnun veðurfars, skilaði mikilli fræmyndun og stuðlaði að útbreiðslu birkinýgræðings víða um svæðið. Í dag þekja skógar 1.250 ha og á 400 ha til viðbótar vex gisinn birkinýgræðingur sem mun þéttast á næstu árum og mynda samfellda skógarþekju. Ljóst er að friðun birkiskóga hefur gerbreytt gróðurfari á Þórsmerkursvæðinu til batnaðar og er hætt við að í dag væri þar örfoka land ef framsýnir bændur og embættismenn hefðu ekki gripið í taumana.
[...]
Í grein frá ágúst 2012 sagði Hreinn m.a. frá beitarfriðun Almenninga árið 1990 og fylgdu nokkrar myndir með henni.
[...]
Friðun afrétta árið 1990 
Fleiri hundruð fjár var smalað af Þórsmörk flest ár fram undir 1990 og sem dæmi má nefna að í kring um 1980 þegar hvað flest fé var rekið á Almenninga komu 300 fjár af Almenningum í haustsmölun og 1700 af Þórsmörk og Goðalandi. Það var ekki fyrr en með samningum Landgræðslu ríkisins við upprekstrarhafa á Almenninga, Merkurtungur, Steinsholt og Stakkholt árið 1990 og með girðingu sem girt var úr Gígjökli út í Markarfljót að fjárbeit hætti á öllu Þórsmerkursvæðinu. Í kjölfar samninganna reif Skógræktin upp gömlu girðingarnar sem voru að mestu leyti handónýtar og þótti það sóun á fjármunum almennings að reyna að halda þeirri girðingu við meðan á friðun stæði. Örfáar girðingarrúllur urðu eftir í giljum í Hamraskógi og er það handvömm sem bætt verður úr.
[...]


þriðjudagur, 3. desember 2013

Af hverju ertu svona gult grenið mitt?

Ýmis atriði um ræktun sitkagrenis. Úr grein Hákons Bjarnasonar um sitkagreni, í Skógræktarritinu 1970.
Sá eiginleiki fylgir sitkagreni, að ef það veit vel við sól og birtu, myndar það nýjar en litlar greinar inn á milli þeirra, sem fyrir eru. Af þeim ástæðum verður krónan mjög þétt, og því er það allra grenitrjáa best í skjólbelti. [-] 
Þá skal þess og getið, að eftir köld og stutt sumur hefur stundum borið á vaxtartregðu á sitkagreni, sem áður hafði vaxið vel. Ýmsar ástæður geta auðvitað legið til slíks afturkipps, en í þessu tilviki virtist samt auðsætt að hér sé um skort á köfnunarefni að ræða. Komið hefur í ljós, að með því að gefa trjánum nokkurn skammt af kjarna, hreinu ammóníumnítrati[*], taka trén vaxtarkipp á ný. Allar líkur eru fyrir því, að rotnunin í jarðveginum sé svo hæg í köldum sumrum, að hún leysi ekki nægilega mikið köfnunarefni úr læðingi handa trjánum. Þessa verður líka vart hjá rauðgreni og jafnvel svo mjög, að trén eru með gulleitum blæ langt fram á sumar. Hinsvegar ber ekki eins á þessu hjá furutegundunum eða lerki. [-]
Að endingu skal þess getið, að sitkagreni hefur iðulega borið þroskað fræ á ýmsum stöðum hér á landi allt frá því að trén hafa verið um tuttugu ára. Með því er það að öðlast borgararétt í hinu íslenska gróðurríki, og er fagnaðarefni því að sitkagrenið þolir storma og saltahafvinda öllum gróðri betur, og þar sem jarðvegur er við þess hæfi með frískum jarðraka má búast við góðum árangri af ræktun þess.
 * Salt úr ammóníaki og saltpéturssýru, með efnaformúluna NH4NO3, uppistaðan í köfnunarefnisáburðinum Kjarna sem einnig innihélt kalíum og fosfat. Kjarni var framleiddur af Áburðarverksmiðjunni (nú Fóðurblöndunni). Í dag er hægt að kaupa köfnunarefnisáburð með kalki sem vegur á móti sýrandi áhrifum köfnunarefnisins.
Sitkagreni til sölu, mynd af vef gróðrarstövðarinnar Kjarrs í Ölfusi, kjarr.is.