Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, ritaði grein um friðun birkiskóga og starf Skógræktar ríkisins í Þórsmörk og á Goðalandi, sem birtist í Dagskránni á Selfossi 12. desember 2013. Hér að neðan eru nokkrir bútar, greinin í heild sinni er birt á vef Skógræktarinnar.
Eftir Kötlugosið 1918 þakti vikur Merkursvæðið og taldist það óhæft til vetrarbeitar. Í kjölfar þess tókst fyrir tilstilli Árna í Múlakoti að fá samþykki allra bænda í Fljótshlíð fyrir því að beit yrði aflétt og að Skógræktinni yrði falið að sjá um friðun svæðisins.
[...]
Svæðið var girt af á 3. áratug 20. aldar, af miklu harðfylgi, enda þurfti að flytja staura og gaddavír á hestum yfir Markarfljót. Sáu heimamenn, sér í lagi af innstu bæjum í Fljótshlíð, um vinnuna.
[...]
Útbreiðsla skóga
Í upphafi 20. aldar voru um 300-400 ha birkiskóga og kjarrs á Þórsmörk, Goðalandi og Almenningum. Voru þessi skóglendi umlukt rofabörðum og moldum og var jarðvegseyðing yfirvofandi. Fyrstu árin eftir friðunina var töluverðu af rofabörðum lokað með því að bera greinar og hrís í sárin og tókst það nokkuð vel. Við friðunina spratt upp mikið af þéttum nýgræðingi, bæði í og við gróðurtorfur, og var skipulega unnið að því að grisja þessa skóga á fyrstu áratugunum. Var hrísið og viðurinn notaður af bændum en einnig til varnargarðagerðar í Markarfljóti.
Þéttust skógar og breiddust nokkuð út fyrstu áratugina, á hlýindakaflanum frá 1930-1960, en þá hægði heldur á útbreiðslunni. Í kjölfar þess að hið friðaða land var stækkað árið 1990 hætti fé að leita inn í skógræktargirðingarnar af Almenningum. Það, ásamt hlýnun veðurfars, skilaði mikilli fræmyndun og stuðlaði að útbreiðslu birkinýgræðings víða um svæðið. Í dag þekja skógar 1.250 ha og á 400 ha til viðbótar vex gisinn birkinýgræðingur sem mun þéttast á næstu árum og mynda samfellda skógarþekju. Ljóst er að friðun birkiskóga hefur gerbreytt gróðurfari á Þórsmerkursvæðinu til batnaðar og er hætt við að í dag væri þar örfoka land ef framsýnir bændur og embættismenn hefðu ekki gripið í taumana.Í grein frá ágúst 2012 sagði Hreinn m.a. frá beitarfriðun Almenninga árið 1990 og fylgdu nokkrar myndir með henni.
[...]
[...]
Friðun afrétta árið 1990
Fleiri hundruð fjár var smalað af Þórsmörk flest ár fram undir 1990 og sem dæmi má nefna að í kring um 1980 þegar hvað flest fé var rekið á Almenninga komu 300 fjár af Almenningum í haustsmölun og 1700 af Þórsmörk og Goðalandi. Það var ekki fyrr en með samningum Landgræðslu ríkisins við upprekstrarhafa á Almenninga, Merkurtungur, Steinsholt og Stakkholt árið 1990 og með girðingu sem girt var úr Gígjökli út í Markarfljót að fjárbeit hætti á öllu Þórsmerkursvæðinu. Í kjölfar samninganna reif Skógræktin upp gömlu girðingarnar sem voru að mestu leyti handónýtar og þótti það sóun á fjármunum almennings að reyna að halda þeirri girðingu við meðan á friðun stæði. Örfáar girðingarrúllur urðu eftir í giljum í Hamraskógi og er það handvömm sem bætt verður úr.
[...]