mánudagur, 13. ágúst 2012

Fræ af birki

Það er skemmtilega auðvelt að safna fræi af íslensku birki (Betula pubescens) eins og segir í grein eftir Ásu L. Aradóttur og Þröst Eysteinsson í Mbl. 16. okt. 1994:
Best er að safna birkifræi seint í september eða í október, t.d. skömmu eftir lauffall þegar gott er að sjá fræreklana. Ekkert er því þó til fyrirstöðu að safna fræi frameftir vetri, en líkur á að stormar feyki því af trjánum aukast eftir því sem á líður.

Ef smellt er á myndina sést að fræhlífarnar (frælaufin) eru mun
fyrirferðameiri hluti fræbelgjanna (-reklanna) en sjálft birkifræið. 
Spurningar og svör.
Spurning:
Hvenær er besti tíminn til að týna reklana af birkinu? Hvernig veit ég að fræin/reklarnir eru orðnir nógu þroskaðir? 
Svar:
Þegar þú tekur utanum reklana og fræið rennur laust í greip þér um leið og þú dregur að þér höndina. 
https://www.facebook.com/groups/61097954674/permalink/10151129574394675/

Spurning:
Eru einhver góð ráð varðandi sáningu fræjanna?
Svar:
Fræplönturnar þrífast best í hálfgrónum jarðvegi, þar sem ekki er frostlyfting eða annað jarðvegsrof. Best er að setja fræið í jaðra gróðurbletta eða þar sem er svolítil mosaþekja eða önnur lágplöntuþekja. Einnig er sennilega hægt að sparka smásár í gróðurinn eða nota verkfæri til þess arna. Síðan má setja smávegis af fræi á hvern blett og þrýsta því niður með fætinum. Oftast er þó látið duga að dreifsá fræinu í hálfgróið land.
...
Í öllum tilvikum er gott að undirbúa sáningarblettina með vægri áburðargjöf til að draga úr frostlyftingu eða bera á eftir á. Það bætir líka vöxt plantnanna. Ef sáð er í bletti duga fáein áburðarkorn í hvern lófastórann blett.
https://www.facebook.com/groups/152041324951766/permalink/237825123040052/

Best spírun og lifun næst þar sem land er hálfgróið eða gróðurlagi mjög þunnt (<1 cm). Lítill árangur er af sáningu í gróið land og þar sem land er óstöðugt. Smellið á mynd til að gera hana læsilega. Sjá nánar um áhrif víðis í grein í Náttúrufræðingnum, 2. tbl. 1992, Áhrif víðis á landnám birkis á skóglausu svæði.

Birkifræ í kílóum og lítrum og spírunarhlutfall.
Milli 200 og 1000 spírandi fræ eiga að vera í hverju grammi af þurru, hreinsuðu birkifræi, en talan getur farið allt upp í 1400. Það geta því verið milljón fræ í einu kílói. Einn lítri af þurru fræi er 90 -100 g. Sá sem safnar þremur lítrum (sem er tekur kannski 20-40 mínútur) hefur því safnað 270 g sem gera frá 54.000 til 270.000 spírandi fræ. Frægæði nýtast að sjálfsögðu ekki til fulls nema í stjórnuðum aðstæðum.

Við sáningu beint í jörðu er spírun misjöfn og lifun fræplantna oft mjög takmörkuð. Hjá Hekluskógum hafa menn sáð kílói í hvern hektara. Þeir hjá Highland Birchwoods í Skotlandi mæla með 2 g/m2. Í Búfræðingnum 1. tbl. 1951 gefur Sigurður Jónasson þessar leiðbeiningar í grein sinni Nokkur orð um skógrækt:
Fræmagnið í hvern ferm. fer eftir spírunarhæfni fræsins. Sé furu- eða grenifræ með spíruprósent 70 fer 8—10 gr. af því á ferm. Aftur á móti er birkifræi venjulega sáð svo þétt, að það hylji að mestu moldina.
Í innisáningu mun spírunarprósenta hins vegar vera frá 20% og upp í 80% en 30-50% ku vera algengast. Í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1949 gefa Hákon Bjarnason og Einar G. Sæmundsen þessa skýringu á lélegri spírun og lifun í greinini Fræsöfnun, sáning og gróðursetning:
[...] margir kvarta oft undan lélegri spírun birkifræs, þótt sýnt hafi verið með spírunartilraunum, að fræið hafi verið sæmilegt eða jafnvel mjög gott. Skýringin á þessu er ofur einföld. Menn hafa þá ekki gætt þess, að birkifræið má aldrei þorna, meðan á spírun stendur, og verður að hafa vakandi auga með því í þurrkatíð, og meira að segja þótt ekki komi nema einn þurrkdagur, ef fræið er ekki vel byrgt. Örskömm þornun á spírandi birkifræi getur riðið því alveg að fullu. 
Meira um birkifræ.
1) Sáning í bakka, texti og myndir: http://sumarogsol.blogspot.com/2013/01/saning-kristinn-h-orsteinsson-i-mbl-1999.html

2) Sáning í jörðu, texti og myndband: http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1188613/

3) Söfnun og sáning í jörðu, texti og myndir: http://www.hekluskogar.is/birkifrae.htm

4) Sáning, texti: http://www.gardurinn.is/default.asp?sid_id=30200&tId=1

Kynbætta birkið Embla, myndin er tekin í Breiðholti.
Hér að ofan er myndbandið Stækkum birkiskóga á Íslandi. frá 1999 sem framleitt var fyrir Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins. Af vef LandgræðslunnarFramleiðandi: Valdimar Leifsson, lengd 4 mínútur. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli