Hér skal gripið niður í síðasta kafla pistilsins sem birtist 11. sept. 2014, Skógarber til nytja – fyrri hluti. Kaflinn fjallar um bersarunna.
Sú berjarunnategund frá N-Ameríku sem mest hefur komið á óvart er bersarunninn (Viburnum edule). Á heimamálinu kallast ber hans „highland cranberry“, „squashberry“ eða „mooseberry“, svo kannski sannast það hér að kært barn ber mörg nöfn! Bersarunninn vex um skóga N-Ameríku, frá Alaska í vestri til Nýfundnalands í austri. Hingað til lands kom hann fyrir um þrjátíu árum. Fyrst og fremst var litið á hann sem einkar harðgeran og skrautlegan garðrunna með viðfelldið vaxtarlag, fallega laufgerð, snotra klasa með hvítum blómum. En síðast en ekki síst fyrir líflegan haustlit og þessi stóru og skínandi rauðu ber.
Á síðustu árum hefur þar færst í vöxt að planta honum innan um annan trjágróður í sumarbústaðalöndum. Þar hefur hann svo sannarlega sannað harðgervi sitt og aðlögunarhæfileika. Þótt hann dafni kannski ekki vel á hörðum mel á bersvæði, þá fellur hann vel að birkikjarri og víðistóðum ef asparlundir og greniskógar standa honum ekki til boða. Hann virðist aldrei láta vorhret eða rysjótt sumur hafa áhrif á sig. Heldur sínu striki með blómgun og berjaframleiðslu hvað sem á dynur. Og svo sannarlega er hann góður kostur sem undirgróður í skógum og skjólbeltum.
Bersarunnanum má fjölga hvort sem er með græðlingum eða fræsáningu. Ekki eru gallsúr berin neitt lostæti til að tína upp í sig, þótt þau séu afar lokkandi í sínum gisnu klösum á greinunum. Þau þarf að matreiða í marmelaði eða hlaup. En meðan á þeirri framkvæmd stendur finnst mörgum að anganin sem upp gýs sé ekki mjög hugljúf. Sumir nefna táfýlusokka í því samhengi. En ef maður setur ekki slíka smámuni fyrir sig er afurðin ómótstæðileg. Bersaberjahlaup er afar gott með allri villibráð, desertostum og rauðvíni. Jafnvel ósætum byggvöfflum með þeyttum rjóma.
Bersarunni í haustlitum. Myndin fylgdi ekki pistlinum úr Bædablaðinu. |
Bersarunni í haustlitum (2). Myndin fylgdi ekki pistlinum úr Bædablaðinu. |