Undirbúningur: Góður undirbúningur jarðvegs er nauðsynlegur til að fá góð þrif og heilbrigðan vöxt. Þar sem þarf að skipta um jarðveg er þumalfingursreglan að skipta um jarðveg fyrir stórt tré allt að 60 - 80 cm dýpi og 1,0 meter í þvermál og 50 til 60 cm dýpi fyrir runnagróður. Því meira sem við leggjum í góð jarðvegsskipti því betri árangri getum við búist við.
Plöntur sem ræktaðar eru í pottum er hægt að planta hvenær sem er hvort sem er sumar eða haust, en berróta plöntum er best að planta á vorin, snemma sumars, eða að haustinum þegar þær hafa lokið ársvexti.
Þó tré geti vaxið og þrifist við lélegar aðstæður, þá er reglan sú að lengi býr af fyrstu gerð. Húsdýraáburð ætti að blanda við jarðveginn eða einhverjum öðrum lífrænum áburði, það eykur örverulífið í jarðveginum og stuðlar þannig að auknum efnaskiptum sem kemur plöntunum til góða.
Fosfór (þrífosfat) það örvar rótarvöxtinn, setja 5-10 kg á hverja 100 fermetra. Kalk ætti að setja í jarðvegurinn ef hann er súr, setja 25 kíló á 100 fermetra, jarðvegur er oft súr á þeim svæðum þar sem mikið rignir.
Þetta er eingöngu almennar reglur, en jarðvegur getur verið mjög mismunandi og getur haft mismunandi eiginleika. Blanda skal áburðinum saman við moldina eins mikið og mögulegt er. Þó þarf að hafa í huga að þegar plantað er, að forðast að húsdýraáburður liggi í haugum að rótum trjánna, það getur brennt ræturnar og og í versta falli drepið tréð.
Hversu djúpt á að planta: Það er mismunadi hvers djúpt skal planta. Reglan er að víðirtegundir og alaskaösp ætti að planta þannig að jarðvegurinn fari allt að 10-20 cm upp á stofninn, þetta eru tegundir sem auðveldlega setja út nýjar rætur út úr stofninum og fá þannig öflugra rótarkerfi með því að planta þeim djúpt. Ágræddar rósir ætti að planta þannig að ágræðslustaðurinn sé um 10 cm undir yfirborð jarðvegsins
Flestum tegundum trjáa og runna er plantað þannig að jarðvegur rétt hylji ræturnar. Birki, hlynur, álmur, elri og gullregn eru dæmu um tegundir sem ætti að forðast að planta of djúpt. Flestir skrautrunnar þola auðveldlega þó þeim sé plantað djúpt, en reglan er að planta þeim þannig að rótin sé rétt hulin með mold. Þegar plantað er skal reyna að dreifa úr rótunum eins og hægt er, ef rætur á litlum trjám eru mjög langar þá ætti frekar að klippa á þær en að kuðla þeim mikið saman.
Ef pottaplöntur eru með þéttan rótarhnaus sem vex í hringi ætti að greiða aðeins úr rótunum, svo þær geti vaxið út en vaxi ekki í hringi.
Þegar plantað er skal passa að rætur plantanna séu alltaf rakar, þegar sól skín ætti alltaf að hafa berróta plöntur í plastpoka eða hylja ræturnar með öðrum hætti þar til þær fara í jörðu. Jafnvel fáeinar sekúndur í sól og þurrki geta nægt til að tré verði fyrir áfalli. Berróta plöntur ætti alltaf að geyma þannig að jarðvegur hylji ræturnar þar til þeim er plantað út, og gæta að því að þær séu vökvaðar.
Millibil á plöntum: Í limgerði sem á að klippa ætti millibil milli plantan að vera um 40 cm. [Annars staðar er mælt með 30-50 cm - aths. frá Sumar og sól.]
Skrautrunnar sem eiga að vaxa frjálst ættu að hafa minnst 70 cm milli plantana. Því stærri sem runninn er því meira bil ætti að vera milli plantnanna. Tré sem eiga að verða stór og vaxa frjálst ætti að planta með minnst 2 metrar millibili. Því stærri sem trén verða þegar þau eldast því meiri ætti millibilið að vera.
Oft er plantað þétt í upphafi og grisjað síðar, með því að fella tré eða flytja þau lifandi. Það virkar betur fyrir augað að sjá þétt plantað, auk þess sem trén njóta skjóls af hverju öðru í uppvextinum, og árangurinn verður þannig betri, en samt þarf að hafa í huga að grisja þegar fram líða stundir.
|