mánudagur, 18. febrúar 2013

Gróður og garðar - vorhirða pottaplantna

Vorhirða pottaplantna
Vorið er sá tími sem gott er að fara að huga að hirðingu pottaplantnanna. Þá ber einna helst að huga að umpottun þar sem skipt er um mold á blómunum þannig að þau fái nýja næringu.

Umpottun
Besti tíminn til umpottunar er í febrúarlok. Til að sjá hvort plantan hefur þörf fyrir umpottun er best að taka hana úr pottinum og skoða rótarkerfið, sé það komið út um alla moldina er tímabært að skipta yfir í stærri pott. Sé potturinn þegar orðinn mjög stór nægir oft að skafa efsta lagið ofan af og bæta nýrri moldarblöndu á. Æskilegast er að nota blómamold, sem fæst í flestum blómabúðum, blandaða með örlitlu af t.d. mó, vikri eða perlusteini. Það er gert til að fá betra loftrými fyrir rætur plantnanna. Mikilvægt er að pottarnir séu vel hreinir fyrir notkun og ef hugmyndin er að nota leirpotta verður að leggja þá í bleyti fyrir notkun. Þegar búið er að taka plöntuna úr pottinum er best að fjarlægja með varúð alla lausa mold og dauðar rætur. Því næst er vikri eða perusteini komið fyrir í botni nýja pottsins ásamt smámoldarblöndu ofan á. Plöntunni er tyllt ofan á steininn og henni haldið með annarri hendinni meðan moldin er sett ofan á með hinni. Gott er að hrista pottinn síðan lauslega til að moldin falli vel í allar glufur. Varast ber að þjappa moldina of mikið. Plantan er svo vökvuð vandlega og sett á skuggsælan stað til að byrja með.

Klipping
Mörgum plöntum hættir til að verða mjög gisnum, sé þess óskað að þær séu þéttari er ekkert annað að gera en klippa þær til. Þetta á einna helst við um greinóttar plöntur. Sé hugmyndin sú að klippa plöntu niður er best að það sé gert snemma að vori áður en hún hefur vöxt eftir vetrardvala og einnig er mikilvægt að það sé gert með beittum áhöldum. Greinarnar á að skáskera beint fyrir ofan hliðarsprota eða blað og þess ber að gæta að ekki sé skilinn eftir langur stubbur þar fyrir ofan. Það fer að sjálfsögðu eftir tegund hvaða aðferð er beitt við klippingu. Sumar plöntur nægir að snyrta og eru þá dauð blóm, blöð og sprotar fjarlægðir til að auka vöxt plantnanna.

Gróður og garðar, DV 13. maí 1992


Engin ummæli:

Skrifa ummæli