fimmtudagur, 31. október 2013

Ísaldarminjar í Heiðmörk

Útdráttur úr grein Jóns Jónssonar jarðfræðings í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1975, Heiðmörk, jarðfræðilegt yfirlit:

Ein af þeim ísaldarminjum í Heiðmörk, sem maður hvað fyrst veitir athygli eru fágaðar grágrýtisklappir, hvalbök. Að norðan eða öllu heldur norðvestan eru klappirnar oft í bröttum stöllum og víða má sjá björg og stundum heilas tuðla, sem ísinn hefur rifið úr klöppunum en ekki megnað að færa nema fáa metra og stundum hefur hann aðeins náðað losa lítillega um stuðlana en ekki fært þá úr stað. Í gagnstæða átt er halli klappanna aflíðandi. Sýnir þetta straumstefnu jökulsins en oft má marka hana enn betur af rispum eða rákum á bergfletinum. Þessar rákir eru eftir steina, sem voru í botni jökulsins og ristu þessar rúnir í bergið um leið og ísinn skreið fram. Í Heiðmörk er stefna rákanna norðvestlæg og sýnir það straumstefnu jökulsins á lokastigi ísaldar. Einstaka sinnum sér maður á klöppunum steina þá sem gert hafa rákirnar, endar þá rákin undir steininum. Þetta má sjá á a.m.k. tveim stöðum í ofanverðri Heiðmörk en ekki skal það nánar til tekið hér. Stórir steinar liggja víða á þessum íssorfnu klöppum og eru slík björg nefnd grettistök. Þau eru allvíða í Heiðmörk. Stundum finnur maður hálfmána-formaðar grópir, sem liggja nær hornrétt í stefnu ísrákanna. Þær eru nefndar jökulgrópir (Einarsson 1968). Þær eru til í Heiðmörk en ekki mjög venjulegar.

Þegar jökullinn bráðnar verður eftir það efni sem í ísnum var bæði í botni jökulsins, inni í ísnum og á yfirborði hans. Þetta myndar það, sem venjulega er nefnt jökulurðir en ekki er það ævinlega réttnefni og væri jökulset oft nær sanni og svo er víða og jafnvel víðast í Heiðmörk utan þess, sem þegar hefur verið nefnt. Jökulurðin er yfirleitt ólagskipt og samanstendur af möl, sandi og leir ásamt steinum í öllum stærðum. Oft eru steinarnir rákaðir og mjög oft rúllaðir og bera þess merki að hafa rúllast í vatni en mikill vatnagangur hefur að sjálfsögðu verið í jöklinum og við hann á lokastigi tilveru hans, er því eðlilegt að allt sé í hrærigraut á slíkum stöðum bæði jökulurðir og vatnaset. Myndanir af þessu tagi eru undirstaða gróðurs í Heiðmörk. Víða er þar jökulurðin ber og með sérkennilegum gráum lit. Á vorin þegarefsta lag hennar hefur náð að þiðna er illfært um hana sökumaurbleytu. Jökulurðir eru um alla Heiðmörk en einna mestáberandi á svæðinu báðum megin vegarins vestur umTungur sunnan Hjalla en á því svæði hefur uppblástur eytt jarðvegi svo á köflum er örfoka land. Víðast hvar annarsstaðar í Heiðmörk er jökulurðin hulin mold og gróðri en stærstu steinar standa upp úr. [-]
Ísaldarmenjar á Keldudalsheiði (á Fellsmörk í Mýrdal), ljósmyndari: eirasinn.

mánudagur, 14. október 2013

Vakalág

Útdráttur úr grein Sigurðar H. Magnússonar og Borgþórs Magnússonar, Áhrif víðis á landnám birkis á skóglausu svæði, Náttúrufræðingurinn 1992, 61. árg. 1991, 2. tbl., bls. 96.


STAÐHÆTTIR OG AÐFERÐIR
Tilraunasvæðið er á hálfgrónum mel, um 6 km suðsuðvestur af Gunnarsholti,í svokallaðri Vakalág (1. mynd). Melurinn er fremur fínkorna og liggur í um 45 m hæð yfir sjó. Jarðvegur er dálítið moldarblandinn en allþéttur og eru stærstu steinar á yfirborði 3-4 cm í þvermál. Yfirborð er slétt og hallar örlítið til vesturs. Heildargróðurþekja var um 20% við upphaf tilraunar. Ríkjandi tegundir á melnum, taldar upp eftir minnkandi vægi í þekju, voru: melagambri (Racomitrium ericoides) (íslenskt heiti mosans samkvæmt tillögum Bergþórs Jóhannssonar, munnlegar upplýsingar), túnvingull (Festuca richardssonii), skriðlíngresi (Agrostis stolonifera) og axhæra (Luzula spicata). Aðrar áberandi tegundir voru krækilyng (Empetrum nigrum), geldingahnappur (Armeria maritima) og melablóm (Cardaminopsis petraea). Einnig voru á melnum allmargar stakar víðiplöntur, einkum af grávíði (Salix callicarpaea) og grasvíði (Salix herbacea). Birki var hvergi að finna á melnum eða í nágrenni hans og nær fullvíst er að allar þær birkiplöntur sem fundust eftir að tilraunin hófst hafi komið upp af því fræi sem sáð var. Svæðið hefur að mestu verið friðað fyrir beit frá því um 1950 og alfriðað frá 1980 (Sveinn Runólfsson, munnlegar upplýsingar).

Tilraunin var skipulögð sem blokkatilraun með þremur endurtekningum. Í hverri blokk voru 4 mismunandi meðferðir, sem voru: a) haustsáning, b) haustsáning og áborið á næsta vori, c) vorsáning, d) vorsáning, húðað fræ. Reitastærð var 1,2 x 10,0 m og var bil milli reita 1,2 m. Notað var hreinsað fræ sem safnað hafði verið á Kvískerjum í Öræfum dagana 15.-25. október 1987. Sáð var í reitina 11. október 1988 (haustsáning) og 24. maí 1989 (vorsáning). Af óhúðuðu fræi var sáðmagn 0,5 g/m2 (=1027 fræ/m2) en af húðuðu fræi 2,5 g/m2 («1115 fræ/m2). Til að auðvelda sáningu var fræinu blandað saman við dautt hundasúrufræ og því síðan handsáð yfir reitina. Áburði var handdreift 24. maí 1989 og var áburðargjöf 50 kg/ha af N, P, og K miðað við hrein efni.
[...]


Tilvitnanir í fyrirlestur Sigurðar H. á ráðstefnu um birkiskóga (frásögn úr Tímanum, 80. tbl., 27. apríl 1996, bls. 18):
  • Í ljós kom að haustsáning skilar betri árangri en vorsáning.
  • Fræið spíraði að langmestu leyti snemma á næsta vori.
  • Húðun birkifræs hafði í flestum tilfellum lítil áhrif á spírun. Og áburðargjöf seinkaði spírun verulega.
  • Jarðvegsyfirborð reyndist hafa úrslitaáhrif. Birkifræ spírar langbest sé því sáð á ógróna tiltölulega raka jörð. Spírun getur líka verið veruleg á grónu landi ef það er rakt (mýrar). 
  • Á algrónum tiltölulega þurrum svæðum, þar sem svörður er meira en 1 cm, reyndist spírun hins vegar lítil sem engin, nema þá ef landið var nauðbitið, og heldur ekki þegar sáð var í laust og þurrt yfirborð, t.d. sendinn jarðveg. 
  • Á grónu landi er auðvelt að auka spírun ef svörður er fjarlægður fyrir sáningu.
  • Afföll voru misjöfn eftir svæðum og meðal annars háð stærð plantnanna. Lífslíkur þeirra voru þeim mun meiri sem þær voru stærri á fyrsta hausti.
  • Áburðargjöf dró verulega úr afföllum á lítt grónu og rýru landi en hafði lítil áhrif á algrónu rýru landi. 
  • Í gróðurlausum setum voru mikil afföll að vetri til einkum vegna frostlyftingar.

Hvar er Vakalág? Morgunblaðið, 139. tbl. 23. maí 2006, bls. 38:
Land til leigu til skógræktar og bindingar kolefnis 
Landgræðsla ríkisins auglýsir til leigu tvær landspildur. Spildurnar eru einungis leigðar til skógræktar og bindingar kolefnis, og að hámarki til 50 ára. Annars vegar er um að ræða 190 ha landspildu á Geitasandi, norðan þjóðvegar 1 og vestan Rangárvallavegar (nr. 264). Hins vegar er um að ræða 70 ha landspildu við svonefnda Vakalág, ofan Gilsbakka og vestur að merkjum milli Grafar og Helluvaðs. [...]

mánudagur, 7. október 2013

Langbrok og fleira tengt ("bómullargrasi")

Fífur – Eriophorum

Skrifað um October 7, 2013

Ættkvíslin fífur (Eriophorum L.) telst til hálfgrasaættar (Cyperaceae). [...]
[...]
Ættkvíslarnafnið Eriophorum er komið úr grísku, erion, ull og foros, sá sem ber eða hefur.
Hér á landi vaxa tvær tegundir, hrafnafífa eða einhneppa og klófífa eða marghneppa. Í gömlum plöntulistum eru taldar þrjár tegundir aðrar, sem eiga að hafa fundizt hér: E. gracile, E. latifolium og E. vaginatum. Tveimur fyrr nefndu er oft ruglað saman við klófífu (E. angustifolium) og hinni síðast nefndu saman við hrafnafífu.
[...]
Klófífan er áberandi planta, bæði blöð og aldin. Nöfnin eru því mörg. Af blöðum hefur plantan hlotið nöfnin brok, fjallabrok og hringabrok en vegna litar nöfnin rauðbroti og rauðbreyskingur. Nafnið fífa þekkja flestir, en einnig eru kunn nöfnin mýrafífa, krossfífa, klófífa og marghneppa, dregið af því, að fífuhnoðrar eru venjulega nokkrir saman (3-6).
[...]
Brokflói var víða sleginn. Bærinn Brok í Út-Landeyjum var alltaf kallaður Brók og því var nafni hans breytt í Hvítanes. - Ljóst er, að Hallgerður langbrok (hin síðhærða) hefur verið rauðhærð; að öðrum kosti hefði hún aldrei verið kennd við brok. Hún var því af keltneskum ættum.

Sjá greinina í heild: http://ahb.is/fifur-eriophorum/

Myndin er ekki úr tilvísaðri grein heldur
af Wikipedia (Wikimedia commons), úr þýskri grein um Schlanke Wollgras (Eriophorum gracile)