Í viðtalinu fer Jónatan
yfir það hvernig hópur manna tók sig saman 1985 með ræktunarstöðvum, stofnunum
og samtökum, til að vinna saman úr safni erfðaefnis sem Óli Valur Hansson hafði
safnað í Alaska. Í ferðinni var m.a. safnað fræi af elri og birki. Vilhjálmur Lúðvíksson (þá frkvstj. Rannís) veitti hópnum
forystu og fékk hann nafnið Gróðurbótafélagið.
Hópurinn tók sig einnig saman um
að rækta nýtt yrki af íslensku birki, sem síðan fékk nafnið Embla. Embla er beinvaxnara,
ljósara og „meira tré“ en birkið sem algengast var að sjá á Íslandi.
Tilgangurinn var einnig að tryggja einsleitnari vöxt af fræi, þ.e. að unnt væri að ganga út
frá því að birkið sem yxi upp yrði hátt og glæsilegt, en ekki runni. Um sé að ræða
mjög gott borgartré meðal annars. Móðurplöntur voru valdar m.a. í Breiðholti og Hafnarfirði.
Í dag er Jónatan að gera
tilraunir með afbrigði sem hefur rauð blöð, en það er afbrigði sem ræktað hefur
verið upp á Finnlandi og hefur honum tekist að færa rauða litinn í íslenskan
efnivið. Rauði liturinn ræðst af einum ríkjandi erfðavísi, afkomendur Emblu og
nýja afbrigðisins verða því til helminga rauðblaða og grænblaða.
Minnst er á ræktunina í frétt á skogur.is í dag:
Auk áframhaldandi þróunar Emblu-yrkisins er unnið að kynbótum þar sem norrænt birki er notað til að fá breytt og bætt vaxtarlag. Nýjasta yrkið, Kofoed, er nefnt eftir fyrsta skógræktarstjóra Íslands, Agner Fransico Kofoed-Hansen, sem var frumkvöðull í verndun og nýtingu birkisins. Það er mjög beinvaxið og fallegt auk þess sem það getur vaxið mjög hratt. Stutt er líka í að ræktendum bjóðist yrki með rauðan blaðlit og hvítan stofn sem mun henta vel sem garðtré.Til viðbótar má grípa niður í viðtal við Guðmund Vernharðasson hjá Gróðrastöðinni Mörk, um Embluverkefnið, í Mbl. 21. apríl 2006.
- "Birkið, sem valið var til kynbótaferlisins, er einvörðungu af suðvesturhorni landsins enda þrífst það best þar, þó dæmi séu um að Embla hafi haft það ágætt í öðrum landshlutum."
- "Sóst er eftir að birkið verði hraðvaxta, beinvaxið með einn ríkjandi stofn og einnig er reynt að hafa stofninn eins hvítan og hægt er."
- Þá skiptir greinavöxtur og króna trésins einnig verulegu máli, að sögn Guðmundar. "Það er verið að sækjast eftir heppilegum greinavinkli, en hann á að vera víður þannig að minni hætta sé á að tréð brotni."
Embla í Breiðholti, nálægt Mjódd. |