sunnudagur, 14. desember 2014

Tvær reynslusögur úr bændaskógrækt - skogarbondi.is

I. Þannig kviknaði þessi stóri áhugi á skógrækt
Bútar úr viðtali Önnu Guðmundsdóttur við Eddu Björnsdóttur, skógareiganda á Miðhúsum við Egilsstaði og fyrrv. formann Landssamtaka skógareigenda. Viðtalið birtist í ritinu “Við skógareigendur” 2. tbl. 8. árg. desember 2014.
[...]
Áhugi Eddu á stórfelldri skógrækt vaknaði ekki fyrr en í kjölfar þrenginganna sem urðu á Héraði í kjölfar niðurskurðar sauðfjár vegna riðu í kringum 1980. Þá höfðu þau verið með um 300 kindur sem þurfti að farga. Á þessum tíma segist Edda hafa verið komin á kaf í alls konar félagsmál og þá kviknaði þessi hugmynd með skógrækt meðan menn þyrftu að bíða af sér riðuna. Fljótsdalsáætlun hafði farið af stað nokkrum árum áður og það hafði sýnt sig góður árangur þar svo það var enn frekari hvatning. Svo að nokkrir aðilar fóru að tala sig saman og undirbúa að fara af stað með almenna bændaskógrækt. Hún lýsir ástandinu meðal bænda sem ömurlegu, því það var skorið niður á svo stóru svæði og engin atvinna sem hægt var að fara í, engin síldveiði eða slíkt. „Við fengum þingmennina í lið með okkur. Það kostaði margar og skemmtilegar uppákomur að sannfæra þá en það hafðist allt. Þannig kviknaði þessi stóri áhugi á skógrækt.“ Áður var búið að rækta alls konar skjólbelti á jörðinni en eftir þetta varð skógræktin á stærri skala.  
Eigin skógrækt 
Í Miðhúsum eru þau með um 60 ha undir skógrækt á nokkuð samfelldu svæði. Mest hefur verið plantað af lerki en dálítið af furu en svosegist Edda alltaf hafa verið voðalega hrifin af hengibjörk og plantaðtalsverðu af henni. Hún vex vel og hún segist stöðugt verða hrifnariaf henni. Svo er verið að læða einu og einu lauftré inn á milli. Markmið skógræktarinnar segir Edda fyrst og fremst hafa verið að rækta skjólskóg, því á þessu svæði var norðaustanáttin alltaf erfið og köld og mikill snjór, svo að hún sá að skógarskjólið myndi verða svo gott fyrir rollurnar en einnig til að bæta aðstöðu til útivistar. Hún hafði líka séð að þegar féð fór í birkiskóginn sem fyrir var, þá snerti það skóginnaldrei að neinu marki, þannig að skógurinn hafði sótt verulega fram þó að þau hefðu beitt hann að einhverju marki. Hún telur að kindur éti skóginn lítið nema annar beitargróður sé svo lélegur að hann nægi þeim ekki, það sé helst að lömb að vori fari eitthvað í laufið. Þegar skógurinn er kominn vel af stað geti bændur vel nýtt skóginn til beitar fyrir búpening og jafnvel til bóta að beita smávegis til að halda niðri mesta grasvextinum. Nú hefur skógur verið grisjaður þannig að hann er opnari og auðveldara að fara um hann og einnig hafa þau aðeins lagt stíga eða slóða. Grisjunarviðinn nýttu þau að langmestu leyti til uppkveikju því að verkstæðið þeirra er kynt með viði en stærstu tré gátu þau nýtt til smíða en það var ekki að neinu marki. 
[...]
Eddu finnst árangur skógræktarinnar vera ótrúlega góður,þrátt fyrir að alltaf sé verið að tala um afföll en henni finnst að ekki eigi að meta nýskógrækt fyrr en eftir 3 ár. Edda nefnir að hún fljúgi talsvert og henni finnst ótrúlegt að koma niður inn við Múla og fljúga út eftir Héraðinu og sjá alla skógana. Til dæmis í Fellunum þar sem skógrækt fer alveg upp á brún í Fellaheiðinni, allt upp í 700 m hæð. Erfitt er að gera sér grein fyrir hversu mikið þetta sé nema úr lofti eða með því að fara í gegnum skóginn en þá finnst henni að mætti líkja því við að vera komin til í Alaska eða á álíka slóðir og býður viðmælanda að fara í sýningarferð næst þegar hún kemur austur á Hérað. Edda nefnir að hún hafi plantað svolitlu af eðallauftrjám í skógarskjólið, m.a. eik sem hafi vaxið mun betur en hún átti von á. Eftir sumarið eru allt upp í 40cm árssprotar á eikartrjám og hæsta eikinorðin vel á 5. metra há. 
[...] 
Framtíð skógræktar hjá skógarbændum– áskoranir og tækifæri 
Edda telur að yngri kynslóðin sjái tækifærin í skógræktinni jafnvel betur en þeir eldri og hvað hún skiptir miklu máli í sambandi við búskap. Hún segist oft skipta skógrækt í tvennt; annars vegar „lýðveldisskógrækt“ þar sem menn draga upp flaggið á 17. júni og rjúka út og planta skógi og svo hins vegar þegar menn eru að gera þetta til hagsbóta fyrir sín býli og sínar skepnur. Því sá skógur skiptir svo miklu máli fyrir allan búskap. Svo nefnir hún stór svæði á Suðurlandi þar sem enginn maður býr eins og t.d. á Skeiðarársandi þar sem er að vaxa upp stærsti sjálfsáni skógur landssins og gífurleg tækifæri til ræktunar að skapast, ræktun í skjóli skógar. Það er sama hvort það eru hestar, kýr eða kindur eða kornið, það þarf á þessu skjóli að halda og til að koma í veg fyrir að veður skemmi uppskeruna. Menn setja skóginn ekki í besta ræktunarlandið en „þú nýtir alla skækla af skinninu og það er einmitt þannig sem á að stunda skógrækt. Nota það land sem þú sérð að verður aldrei frjósamt ræktarland til að auka þitt beitarland, þó að það verði ekki fyrr en eftir kannski 20 ár og gera það þá aðgengilegt fyrir skepnurnar með því að grisja hæfilega svo þær komist inn í skjólið til að bíta skógarbotninn.“
Edda vonar að hægt verði að hefja nýja sókn í skógrækt eftir mikinn niðurskurð, og skorar á stjórnvöld að íhuga sinn gang í loftslagsbreytingum því þetta sé besta tækifærið til að hafa áhrif og vinna gegn þeim. 
II. Skógarsaga úr Skagafirði 
Álfur Ketilsson og Margrét Stefánsdóttir, skógarbændur í Brennigerði í Skagafirði. Bútar úr grein sem unnin var upp úr lokaverkefni þeirra Álfs og Margrétar í Grænni skógum I á Norðurlandi vorið 2010. Greinin birtist í ritinu “Við skógareigendur” 2. tbl. 8. árg. desember 2014.
[...] 
Heimaskógrækt hófst [...] árið 1971. Girtur var tæpur ha út og niður af Bæjarhólnum, syðst í Holtinu. Þessi blettur var mjög erfiður viðureignar vegna vaðandi holklaka er velti öllum gróðri um koll eða mikillar grassprettu, sem kæfði trjágróður. Einkum varð snarrótin okkur þung í skauti. Við fylltum blettinn af birki, sem hvarf meðan við vorum í heyönnum og kom ekki upp úr sinunni fyrr en árum seinna og þá hálfum metra neðar í brekkunni. Þessar plöntur uxu fram undir fermingaraldur en dóu þá flestar drottni sínum, þar sem þær snérust sundur í öðrum hvorum vinklinum eða börkurinn losnaði og fúnaði. Þarna lærðum við þá lexíu aðgróðursetja alls ekki birki í graslendi nema mjög vel væri fylgst með því, svo ekki færi allt á kaf. Furan stóð sig í löku meðallagi, vildi bogna undir sinufarginu eða brenna í útmánaðaþurrki en lifði samt. Rauðgrenið fór líka nokkuð á kaf, en grenið, sem væntanlegavar einkum sitkabastarður, stóð sig best og er komið yfir 8 m hæð. Smám saman tókum við fleiri óræktarbletti undir heimaskógrækt og nú eru komnir um 5 ha undir skógrækt og ca. 12000 plöntur af ýmsum stærðum og gerðum, þar af er þriðjungur plantna heimaræktað birki og sitkabastarður. 
Fyrstu 2 áratugina slógum við heldur slöku við skógræktina enda í mörg horn að líta en árið 1994 byggðum við okkur 32 m2 gróðurhús úr járnrörum og gróðurhúsadúk. Hefur þetta skýli staðið sig frábærlega og er ennþá með sama dúkinn – eftir 16 ár. Virðast einkum 3 atriði hafa reynst happadrýgst: traust grind, upphitun á dúknum og mjög mikið tog á honum. Nú var hægt að rækta eigin plöntur. Birkifræ framan úr Fögruhlíð í Skagafirði og grenifræ úr heimareitvar notað og gafst vel. Sérstaklega komu greniplönturnar vel út enda ræktaðar sem garðplöntur og komust þannig fljótar upp úr grasi. Árið 1996 gerði Skógrækt ríkisins samanburðartilraun með mismunandi tegundir og kvæmi af greni í tæpan ha í túnskika í Brennigerði. Var plægt og gróðursett í plógfarið og hefur árangur orðið þokkalegur að okkar mati. Þau mistök voru þó gerð að plægt var eftir halla túnsinsog vildi því renna úr plógförum meðan þau voru að gróa. Var nokkru bjargað með því að bera moð og heyrusl í plógförin og eins var slegið gras frá plöntum, sem vildu fara í kaf, þar eins og annars staðar. Nú eru tæplega 1100 greniplöntur að vaxa þarna upp, 1 til 3 m á hæð. 
Skjólbelti 
Árið 1987 hófumst við handa að koma upp skjólbeltum um hús og tún. Samþykkt voru lög frá Alþingi um styrk til skjólbeltagerðar og ýttu þau undir framkvæmdaáhuga, en duttu fljótt út af fjárlögum. Nútímatækni, eins og lagning plastdúka, voru ekki fyrir hendi og því notast við það sem í boði var. Skárum þökur ofan af sumum túnum og tættum undir skjólbeltin. Einnig breyttum við einskeraplóg þannig að V-laga botnrás myndaðist og húsdýraáburður settur í rásina og síðan plöntuhnausinn. 
Við forræktuðum plönturnar í skjólbeltin og notuðum aðallega viðju og alaskavíði, grænan og brúnan. Sá græni hefur reynst okkur hlutfallslega betur vegna þess að hann vex ekki eins mikið og sá brúni,sem hefur tilhneigingu til þess að vaxa yfir sig og leggjast flatur. Reynt var að halda grasi og öðru illgresi í skefjum með eitrun og orfslætti og öðrum hefðbundnum aðferðum. Vorum nokkuð duglegað klippa utan og innanúr skjólbeltum fyrstu árin en hefðum máttvera duglegri að klippa ofanaf. 
Við mjökuðum skjólbeltaræktinni áfram næstu 10 árin eða til1997 en þá voru skjólbeltin orðin tæpir 3000 lengdarmetrar með 6 til 7 þús. plöntum, nær eingöngu heimaræktuðum. Haustið 2009 grisjuðum við skógarstíga um skjólbelti og skógarbletti og lögðum kurl í slóðirnar fyrir gesti og gangandi.  
Bændaskógrækt 
Gerður var „samningur um nytjaskógrækt“ á jörðinni Brennigerði, Skagafirði, við Norðurlandsskóga, dagsettur 14.12.2001. Sá samningur var endurnýjaður lítið breyttur 28.02.2008. Voru þar teknir tilskógræktar rúmlega 98 ha eða fjallshlíðin öll, frá túnum og upp á brún. Fyrir voru merkja- og vörslugirðingar, sem voru látnar ráða stærð skógargirðingar. Um sumarið var lakasta girðingin endurnýjuð og aðrar endurbættar. Jafnframt var mótað fyrir slóðum um allt fjallið og þær ýturuddar. Urðu þær alls 6,2 km og færar flestum torfærutækjum, svo sem jeppum, dráttarvélum og sexhjóli, sem við keyptum árið 2005 og hefur mest verið notað síðan til allra aðdrátta og flutninga. Eftir er að malbera stígana, sem væri mjög til bóta, þars em þeir vilja missíga. Einnig þurfti að grafa fyrir a.m.k. 10 ræsum þar sem brúa þurfti bleytur og læki. Þessar framkvæmdir voru unnar 2002 og 2003 og tókst slóðagerðin sérlega vel vegna misgengislaga í fjallinu, þar sem hægt var að þræða melrinda og hjalla. Eins hefur lítið borið á úrrennsli, sem menn þó óttuðust nokkuð. Útivistarfólk hefur fengið að rölta eða skokka eftir þessum slóðum og hafa ýmsir notfært sér það, enda einkar þægilegir til þeirra hluta.  
Á 8 árum, eða frá hausti 2001 voru gróðursettar alls um 114 þúsund plöntur. Á árunum 2003 til 2006 þegar Johan Holst var svæðisstjóri NLS á Norðurlandi vestra, kom hann á haustin með hóp vaskra kanadískra járnkarla og gróðursettu þau um 75 þúsund plöntur. Munaði um minna og kunnum við öllu því fólki ómældar þakkir fyrir góð handtök og hjálp alla. Sá galli var þó á gjöf Njarðar að Kanadafólkið forðaðist allar beinar línur eins og heitan eldinn við gróðursetninguna og lentum við því í stökustu vandræðum að finna plönturnar að vori þegar átti að gefa þeim áburðarskammtinn sinn.  
Hvað vex best? er einhver algengasta spurningin, sem beint er að okkur skógarbændum og er þá átt við hvaða plöntutegund dafnar best í skógræktinni. Það er ekki alltaf auðvelt að svara þeirri spurningu, gæti verið hvað sem er af þessum algengustu trjátegundum. Síðustu þrjú árin hefur lerkinu miðað vel áfram, en kól árin á undan og skilaði litlu nema tvítoppum. Elsta lerkið farið að nálgast 2 m og er ótrúlega duglegt í melunum en hætt við rótarsliti, gæti menn sín ekki gagnvart holklaka í flagmóum. Lifun er misjöfn en þó framar vonum. Búið er að gróðursetja tæplega 67 þús. lerki eða 66% samkvæmt áætlun. 
Öspin er að skjótast upp fyrir 2 m og hefur dafnað nokkuð vel. Er þó þurftarfrek og skilaði vafalítið meiri vexti, væri henni boðin betri jörð. Höfum sett hana niður við brekkurætur í grennd við mýrina. Hefðum viljað fá meira af henni en í boði hefur verið en förum þó gætilega, vitandi af asparryðinu, sem hefur þó ekki ennþá ekki orðið vart við. Búið er að gróðursetja tæplega 2 þús. aspir eða 67% af áætlun. Stafafuran hefur reynst nokkuð áhugaverð. Þær spretthörðustu teygja sig upp undir hné á meðalmanni og margar farnar að líta í kringum sig, tilbúnar í kapphlaup.  
Stafafuran hefur fyrst og fremst veriðgróðursett í mólendi og hefur orðið að berjast fyrir lífi sínu við fjalldrapann og lynggróður. Hún hefur viljað brúnkast á útmánuðum en kemur þó græn undan vetri nú í vor 2010. Höfum reynt nokkuð við lindifuru en hún vill bögglast undan krapahríðinni og blautasnjónum. Búið er að gróðursetja tæplega 12 þús. furur ýmissa tegunda eða 52% af áætlun. 
Grenið hefur reynst okkur svolítið brokkgengt en þó misjafnt eftir tegundum. Blágrenið fer hægt af stað en er þokkalega farsælt. Sitkabastarður kröfuharðari með áburð og aðrar grenitegundir lakari. Erum þó búin að gróðursetja rúmlega 1000 plöntur af sitkabastarði úr heimaræktun í garðplöntustærð, sem eru álitlegar. Grenið er yfirleitt nokkuð duglegt í grasbeðjunni en miklu lélegra í lynginu og hrópar þar á áburðargjöf. Búið er að gróðursetja rúmlega 9 þús. greni ýmissa tegunda eða 63% af áætlun. 
Mynd úr greininni.
Birkið hefur valdið okkur vonbrigðum, enn sem komið er. Vex hægt og hættir við að missa toppinn, sérstaklega af völdum skaraveðra, sem hér geta orðið býsna hörð. Höfum líka sett birkið í skógarjaðra og afmarkaða lundi. Er þó komið á annan metra á hæð og tekið nokkuð við sér góðviðrisárin 2007 til 2009. Höfum reynt hengibirki en væntanlega ekki gefið því nóga frjósama jörð til þess að sýndi dugnað sinn. Búið er að gróðursetja tæp 21 þús. birkiplöntur eða 80% af áætlun. Fleiri tegundir hafa verið reyndar en með misjöfnum árangri. Rúmlega 1000 reyniplöntur hafa verið vistaðar í skógarjöðrum til skreytingar á útivistarskóginum. Þrífast misjafnlega og virðast bíða eftir skógarskjólinu. Elri verið notað í eyður og sem landnemar á ýmsa staði upp um fjallið.  
Lokaorð 
Þegar við hjónin lítum til baka eftir nær 40 ára búskap, blasa við okkur miklar breytingar, sem dagur hversdagsins hefur hulið sýn. Gróður hefur stóraukist og breyst með tilkomu skógarins og friðunar landsins. Berjaspretta fer sívaxandi og einkum breiðir aðalberjalyngið úr sér. Nýir landnemar skjóta upp kollinum eins og hrútaberjalyng og einir. Fuglaflóran breytist líka. Stelkar, hrossagaukar og jaðrakan hreiðra um sig í sinunni. Auðnutittlingar og músarindlar leita í skóginn og rjúpan í skjólbeltin. Á eftir henni kemur tófan, sem því miður gerir sig alltof heimakomna. Og branduglan hefur stundum vetrarsetu í skóginum og verpir í túnfætinum. [...]

miðvikudagur, 3. desember 2014

Stofnar falla - óveðrið 30. nóvember 2014

Vonskuveðrið sem reið yfir 30. nóvember 2014 hafði mun minni trjáskaða í för með sér en búast mátti við miðað við veðurspár. Hér eru þó dæmi um slíkt úr þremur fréttum.

"Rúmlega  60 ára gömul ösp rifnaði upp með rótum í Dalvíkurbyggð um klukkan hálfeitt í nótt. Öspin stóð milli tveggja húsa á Goðabraut." Svo sagði á fréttavefnum mbl.is síðdegis 1. des. 2014 og birtist myndin hér að neðan með fréttinni.

 Hér er svo skjáskot úr frétt RÚV um þakplötur og tré sem fóru á hliðina.
Smellið til að stækka.
Öllu meiri skaði varð í nokkrum skógum á vegum Skógræktar ríkisins sem nýlega höfðu verið grisjaðir. Eftirfarandi er brot úr frétt stofnunarinnar sem birtist 3. desember 2014:
Við [grisjun] opnast skógarnir, trén sem eftir standa fá aukið vaxtarrými, botngróðurinn eflist og aðgengi til útivistar batnar, sem er allt af hinu góða. Á móti kemur að trén eru berskjaldaðri fyrir vindi fyrst um sinn, eða þar til þau hafa fengið tækifæri til að gildna svolítið, sem tekur nokkur ár.
Mestur getur skaðinn orðið í miklu hvassviðri strax í kjölfar grisjunar og er hann einkum tvenns konar:
  • Há og tiltölulega mjóstofna tré sveiflast í vindinum, rifna upp með rótum og leggjast á hliðina
  • Krónumikil tré brotna, oftast þar sem einhver veikleiki er í stofninum.
Veðrið sem gerði sunnudagskvöldið 30. nóvember olli nokkrum skógarskaða. Óheppilegt var að nánast hvergi var frost í jörð, auk þess sem jarðvegur var víða mjög blautur. Við þær aðstæður þarf ekki endilega mikinn vind til að tré rifni upp, sérstaklega ekki í nýgrisjuðum skógum. 



Upprunalegur myndatexti: Í þessum nýgrisjaða reit í Vaglaskógi
hafa stafafurutré bæði rifnað upp með rótum og brotnað.

Upprunalegur myndatexti:
Hér hefur óveðrið fellt mörg á hliðina í Norðtunguskógi.


Ágæt skýrsla er í frétt S.r. um skaða í Norðtunguskógi í Borgarfirði, Stálpastaðaskógi í Skorradal og í Vaglaskógi í Fnjóskadal. Texti með fréttinni eftir Þröst Eysteinsson og myndir eftir Valdimar Reynisson og Rúnar Ísleifsson.

Til samanburðar eru hér nokkrar myndir af óveðrinu sem heimsótti landið í nóvember 2012.