Stutt samantekt um starf Hekluskóga árið 2012 (24.12.2012)
Starf Hekluskóga gekk vel eins og undanfarin fimm ár sem verkefnið hefur starfað formlega. Fjárveiting ársins var 20,2 milljónir og hefur framlag til verkefnisins lækkað ár frá ári í krónutölu frá árinu 2008 þegar 50 milljónum var veitt til verkefnisins. Árið 2013 verður hins vegar jákvæð breyting á þessari þróun með 10 milljón kr. tímabundnu viðbótarframlagi.
Gróðursettar voru tæplega 262 þúsund plöntur þetta árið, 255.637 birki og 6.330 reyniviðir og var þeirri gróðursetningu dreift um starfssvæði Hekluskóga sem nær frá Gunnarsholti í suðri og norður í Hrauneyjar. Rúmlega 180 landeigendur voru með samning við Hekluskóga um gróðursetningu í eigin lönd, sjálfboðaliðahópar bæði innlendir og erlendir komu að verkefninu, sem og Landsvirkjun, Skógrækt ríkisins og Landgræðsla ríkisins og ýmsir hópar verktaka t.d. íþróttafélög komu að gróðursetningu. Um 350 tonnum af kjötmjöli var dreift til uppgræðslu í Þjórsárdal, bæði á lítt gróna vikra sem og í jaðra Búrfellsskógar. Er ljóst að uppgræðsla með kjötmjöli skilar mjög góðum árangri til lengri tíma og hefur á síðustu árum breytt hundruðum ha úr fjúkandi vikrum í gróið land. Standa vonir til að heimild fáist til að dreifa kjötmjöli víðar um starfssvæði Hekluskóga.
Tveir starfsmenn störfuðu við verkefnið, Hreinn Óskarsson verkefnisstjóri á launum í þrjá mánuði og sumarstarfsmaður Ívar Örn Þrastarson skógfræðinemi í tvo mánuði.
Styrkir sem verkefninu bárust á þessu ári voru 130 þús. kr frá True North og 500 þús kr frá sumarvinnuátaki Vinnumálastofnunar. Nýr styrktaraðili Endurvinnslan hf. ákvað að bæta Hekluskógum við sem einu af fjórum samfélagslegum verkefnum sem þau styrkja og geta þeir sem skila einnota umbúðum íafgreiðslustöðvum Endurvinnslunnar í Knarrarvogi 4 og Dalvegi 28 hafa möguleika á að styrkja Hekluskóga með skilagjaldi sem fæst fyrir flöskur og annað, verður samstarfið kynnt betur á vordögum.
Birkifræsöfnun Hekluskóga tókst ágætlega þetta haustið og barst fræ víða að bæði frá móttökustöð Endurvinnslunnar hf. og frá ýmsum aðilum, skólum og leikskólum sem sendu fræ beint til skrifstofu Hekluskóga. Á meðfylgjandi mynd sést einn hópurinn frá leikskólanum Álfheimum á Selfossi. Þakka Hekluskógar sérstaklega þennan góða hug.