mánudagur, 24. mars 2014

Moltumars - gropinn jarðvegur

Moltumars 2014

Sigurbjörn Einarsson jarðvegslíffræðingur: Nokkur orð um ræktunarmold. Skógræktarritið 1986.
Inngangur 
Það hefur vakið forundran margra sem standa utan innsta hrings ræktunarmanna hér á landi hvers vegna sækja þurfi mold langan veg um Atlantsála breiða til Skandinavíu til að rækta í ýmsar af nytjaplöntum okkar, svo sem trjáplöntur. Er ekki þar verið að sækja vatnið yfir lækinn, hugsar margur með sér. Í þessu greinarkorni er fjallað um mikilsverðustu eiginleika mýrarmoldarinnar og hugleiddir möguleikar á nýtingu íslensks hráefnis til moldarframleiðslu. [...] 
Vatnsdrægni - mikilvægur eiginleiki  
Þó að á seinni árum hafi komið til sögunnar tilreidd efni, svo sem steinull, til að rækta í nytjaplöntur, þá er mýrarmoldin mest notuð víðast hvar og ætla má að svo verði um nánustu framtíð. Mikilvægustu eiginleikar hennar er hve vatnsdræg og létt í meðförum hún er. Mun eftirfarandi umfjöllun miðast við mold af slíkum uppruna. Til einföldunar skal það undirstrikað að meginefnisþættir moldarinnar eru fast efni, loft og vatn. Gerð fasta hlutans ákvarðast af plöntuleifunum sem mynda mýrina sem moldin er tekin úr. Einkennistegundir mýra hér á landi eru starir og ýmsar mosategundir, fífur og heilgrös í minna mæli. Vatnsdrægni moldar, sem mynduð er úr framangreindum plöntutegundum, er nokkuð mismunandi eins og eftirfarandi þýskar niðurstöður gefa til kynna (Penningsfeld og Kurzmann 1966): 
Tafla 1. Vatnsdrægni 100 g af lítið ummyndaðri mold af mismunandi uppruna
Barnamosamold* 1000 - 1500 g vatns
Starmýrarmold 700 - 800 g vatns
Fífumýrarmold 500 - 600 g vatns
Grasmýrarmold 400 - 500 g vatns
* Sphagnum (Bergþór Jóhannsson 1985) 
Vatnsdrægnin ákvarðast af stærð holrúmanna, eftirleiðis nefnd gropur, sem eru hið innra með moldinni. Þótt heildar-gropuhluti moldarinnar ráði miklu um eiginleika hennar, þá er stærðardreifing þeirra ekki síður mikilvæg, en hún er breytileg eftir rotnunarstigi plöntuleifanna. Í lítið ummyndaðri mold eru flestar gropurnar stórar, en með aukinni rotnun eykst hlutur þeirra smáu. Þegar moldin er vökvuð ræður hlutfall stórra og smárra gropa um að hve miklum hluta þær fyllast vatni. Ef gropurnar eru margar og smáar fyllist stærstur hluti þeirra vatni fyrir tilverknað hár-pípukraftsins og hlutur lofts fer minnkandi. Þessu má líkja við það þegar lopapeysa þófnar. Þeir sem gengið hafa í þæfðri ullarpeysu í rigningarúða hafa orðið þess varir að hún ver einkar vel gegn regnvatninu, en þyngd hennar getur orðið ótrúlega mikil. Við það að peysan þófnar þéttist hún og gropurnar í lopanum minnka. Þegar regnvatnið fellur á hana, binst vatnið í gropunum, en hripar ekki í gegn. Sé lopapeysan ekki þæfð, hripar vatnið fremur í gegnum hana vegna þess hve hún er gisin. Sama máli gegnir um lítið ummyndaða mýrarmold. Í henni er hluti gropanna það stór að vatnið staðnæmist þar ekki, heldur hripar í gegnum þær. 
Stærð gropanna hefur ekki aðeins áhrif á hve mikið vatn er í moldinni, heldur einnig hve fast það er bundið, vegna þess að því smærri sem þær eru, því fastar binda þær vatnið. Þeir sem hafa þvegið þvott í nútímalegri þvottavél, þar sem þvotturinn er undinn í þeytivindu, hafa orðið þess varir að sum plöggin eru mun þyngri en önnur þó stærð þeirra sé áþekk. Því veldur að þau eru misþétt ofin og gropurnar í þeim því misstórar. Við fáum þannig hugmynd um stærð gropanna og hve miklum raka þau halda í sér eftir að sama krafti hefur verið beitt til að vinda hann úr. [..] 
Súrefnisskortur veldur rótardauða trjáplantna uppeldi ungplantna  
Í skógrækt fer nú að mestu fram í s.k. fjölpottabrettum. Í þeirri ræktun er notuð innflutt barnamosamold. algengast er að plönturnar séu hafðar eitt ár í húsi og eitt ár úti áður en þeim er plantað út. Til þess að plöntunum farnist vel á þeim tíma í svo litlu rótarými sem er í bökkunum er nauðsynlegt að eiginleikar moldarinnar varðveitist að því er varðar hlutfall loftfylltra og vatnsfylltra gropa. Eitt af því nauðsynlegasta fyrir þrif plantnanna er að rótunum berist nægilegt súrefni vegna öndunar þeirra, ella geta þær drepist. Skertur lífsþróttur þeirra af þessum völdum tærir viðnámsþróttinn gagnvart sýkingum og getur það magnað og hraðað rótadauða, sé hans tekið að gæta á annað borð. Þol gagnvart súrefnisskorti getur verið tegundabundið. Ef um þollitlar tegundir er að ræða, getur verið skammt á milli viðunandi niðurstöðu og stóráfalls.
Greinina má finna óstytta á slóðinni http://skog.is/skjol/skogrit1986/ bls. 61 (síða 65 í skjalinu).


þriðjudagur, 11. mars 2014

Hvaða trjátegundir eru "innlendar"?

Úr greininni Hjartardýr í Vopnfirskum skógarlundum. Sunnudagsblað Mbl. 15. október 2000:
[...], það er erfitt að sjá fyrir sér Ísland í dag annars vegar með sínum gróðursnauðu holtum, rjúpum og heimskautarefum og hins vegar Ísland í árdaga vafið barr- og laufskógum með beyki í öndvegi meðal lauftrjáa og vínviður óx í Arnarfirði, en smá hjartadýr tipluðu í lautum og stígum. En þannig var Ísland í árdaga. 15 milljón ár er eru stuttur tími í jarðsögunni, næstum eins og lítil flís í planka. 
Elsta berg á Íslandi er austast og vestast og stafar það af landrekinu, bergið verður yngra þegar nær miðjunni dregur. Gróðurleifar finnast bæði austanlands og vestan, en þær fallegustu eru í surtarbrandi á Vestfjörðum, en þar hafa á nokkrum stöðum varðveist laufblöð, eða för eftir þau. Þau elstu eru sem fyrr segir 15 milljón ára gömul frá míósenskeiði tertiertímabilsins. Laufblöð af beyki, vínvið, furu, risafuru, álmi, lind og valhnotu hafa fundist, að ógleymdum kínarauðviði sem talið var að væri útdauður, uns hann fannst fyrir tilviljun í afskekktum dal í miðju Kínaveldi árið 1941, að sögn Leifs Símonarsonar, [...]

Úr greininni Íslandsskógar. Lesbók Mbl. 11. desember 1999:
[...]
Íslandsskógar fyrir milljónum áraÁ seinni hluta tertíertímabilsins í jarðsögunni, fyrir 10-15 milljónum ára, ríkti heittemprað loftslag á þeim eyjum í Norður-Atlantshafi sem mynduðu landgrunn Íslands. Hér óx skógur í líkingu við þann sem nú er í suðausturhluta Bandaríkjanna. Fundist hafa steingervingar af um 50 ættkvíslum plantna frá þessum tíma, einkum trjáa. Af lauftrjám hafa hér verið magnolíutré, túlípantré, lárviður, valhnota, álmur, eik, hlynur, beyki, hesli, ölur og birki. Einnig hafa barrtré eins og stórviður, fenjatré, lerki, þinur, greni og fura vaxið hér á míósentímabilinu, sem lauk fyrir rúmum fimm milljónum ára. 
Síðari hluti tertíertímabilsins er nefndur plíósen og á því tímabili fór loftslag kólnandi. Veðurfar hér hefur á þeim tíma verið temprað og flóran lík því sem nú er um vestanverða Mið-Evrópu. Kaldasti mánuður ársins hefur haft meðalhita um eða yfir 0 C. Á því tímabili höfðu barrskógar yfirhöndina. 
Skógar á ísöldFyrir um þremur milljónum ára varð gagnger breyting á loftslagi og sjávarhita á norðurhveli jarðar. Ísöld tók við með sín jökulskeið og hlýskeið. Þá mynduðust í fyrsta sinn víðáttumiklir jöklar á Íslandi. Fæst tré þoldu loftslag jökulskeiðanna og skógarnir náðu ekki að rétta sig af á hlýskeiðum á einangraðri eyju eins og þeir gerðu á meginlöndunum. Steingervingar benda þó til þess að frá upphafi ísaldar og þar til fyrir rúmri einni milljón ára hafi fura, ölur, birki og víðir vaxið hér. En þá dó furan út og ölurinn fór sömu leið fyrir um 500.000 árum, á síðasta og kaldasta jökulskeiði ísaldarinnar.
Á síðustu tveimur hlýskeiðum ísaldar hefur gróður hér verið orðinn svipaður og nú er, með birki og víði sem eina trjágróðurinn. Þó er líklegt að bæði einir og reynir hafi lifað af ísöldina. 
[...] 

Jarðvegsskán

Úr BS verkefni Ágústu Helgadóttur, Krækilyng (Empetrum nigrum) í frumframvindu (2010):
Lífræn jarðvegsskán myndar örugg set fyrir margar tegundir plantna (t.d. Elmarsdóttir o.fl. 2003; Ása L. Aradóttir o.fl. 2006) en hún samanstendur af nánu sambýli jarðvegsagna, cyanobaktería, þörunga, fléttna, sveppa og mosa í yfirborði jarðvegs (Belnap o.fl. 2001). Lífræn jarðvegsskán gerir yfirborðið stöðugra, minnkar líkur á frostlyftingu og kemur í veg fyrir að yfirborðsagnir fari af stað með vindi eða vatnsrofi (Gold og Bliss 1995; Evans og Johansen 1999). 
Lífræn jarðvegsskán eykur frjósemi og skapar öruggara fræset (raka og skjól fyrir fræin).
Myndin er af sjálfsáðum stafafuruplöntum á útivistarsvði í Reykjavík.

Fyrirlestrar af fræðaþingi landbúnaðarins aðgengilegir - skógrækt á rofnu landi

Á vef SR má nálgast fyrirlestra sem fluttir voru á fræðaþingi landbúnaðarins 7. mars 2014, hljóð og glærur. Fyrirlestrar á málstofunni um skógrækt á rofnu landi eru margir fróðlegir, sumir örlítið langdregnir.

Hér að neðan eru tvær glærur af málstofunni, hún er aðgengileg í heild sinni (3 klst. og 46 mín.) í hátt í 700 MB skrá.
Fræðileg skógarmörk á Íslandi.
Úr fyrirlestri Björns Traustasonar, landfræðings hjá Rannsóknastöðinni á Mógilsá, um umfang lítt og hálfgróinna svæða neðan skógarmarka.
Samspil lúpínu við birki og víði á Hólasandi. Lúpínu var plantað á svipuðum tíma og birkinu og víðinum en hefur hopað (ein planta sést vinstra megin á myndinni).
Úr fyrirlestri Daða L. Friðrikssonar hjá héraðssetri Landgræðslunnar á Húsavík um landgræðsluskógrækt í Þingeyjarsýslum

þriðjudagur, 4. mars 2014

Þörf grein, af vef Landgræðslu ríkisins.


Ástand úthagavistkerfa og sumarbeit sauðfjár


Grein úr Bændablaðinu (20/02/14) eftir Þórunni Pétursdóttur Lr.

Sauðfjárbúskapur byggir afkomu sína að miklu leyti á sumarbeit. Mest allt sauðfé landsins gengur frjálst á afréttum og upprekstrarheimalöndum frá því síðla júní fram í september ár hvert. Það væri gott og blessað ef úthagavistkerfin væru allsstaðar heil og í fullri virkni. Því miður skortir sumsstaðar talsvert upp á að svo sé. Sauðfjárbeit úthagavistkerfa er dæmi um samsett kerfi manns og náttúru. Beitarnýting kerfanna þarf að vera markviss og rýra ekki náttúrugæði þeirra. Stýring á nýtingu auðlindarinnar þarf því að vera heildstæð; í ákvarðanatöku jafnt sem í framkvæmdum og mati á árangri.

Röskuð úthagavistkerfi

Talsverður hluti íslenskra úthagavistkerfa er raskaður og virkni þeirra því undir vistfræðilegri getu. Vistferlar raskaðra kerfa eru rofnir og þau gjarnan föst í ósjálfbæru ástandi. Landgræðsla sem miðar að vistheimt er því oft nauðsynleg til að auka vistfræðilega virkni og efla þanþol kerfanna gegn nýtingu og eða umhverfislegum áföllum. Landgræðsla er samheiti yfir aðgerðir sem fela í sér lágmarks inngrip til viðgerða á náttúrulegum ferla skaddaðra vistkerfa og stuðla helst að vistheimt þeirra. Ferlið miðar að því að ýta röskuðum kerfum yfir lífræna eða ólífræna þröskulda sem halda virkni þeirra niðri og örva framvindu staðargróðurs.

Landgræðsla sem miðar að vistheimt er ferli sem tekur jafnan marga áratugi. Gróður tekur oftast fljótt við sér þegar aðstæður batna, s.s. við áburðargjöf eða önnur inngrip. Það tekur engu að síður langan tíma að byggja upp jarðvegsgæðin sem þarf til að miðla næringarefnum og vatni til viðhalds á öflugri gróðurþekju.

Vistheimt og samfélag

Síðustu áratugina hefur aukin þekking á eðli rofferla og starfsemi vistkerfa haft mikil áhrif á landgræðsluaðferðir. Nú er lögð áhersla á að örva útbreiðslu staðargróðurs í stað áburðarfrekra grassáninga eins og tíðkuðust á árum áður. Landbúnaðartengdar aðferðir hafa því vikið fyrir vistfræðilegum nálgunum við uppgræðslu lands. Stjórnsýslulegar nálganir hafa sömuleiðis breyst umtalsvert á síðustu áratugum. Áður fyrr var lítil bein tenging við hagsmunaaðila og landgræðsluverkefnum sinnt nær eingöngu af stjórnvöldum. Í dag er lögð mikil áhersla á samstarf og sameiginlega ábyrgð ríkis og landnotenda á endurheimt vistkerfa og bættri landnýtingu.

Þessar áherslubreytingar má sjá í margvíslegum samstarfsverkefnum stjórnvalda og bænda. Þar má nefna samfélagsverkefni eins og Bændur Græða Landið (BGL), starf landgræðslufélaga og styrkveitingar Landbótasjóðs. Landnýtingarþáttur gæðastýringar í sauðfjárrækt, sem er hluti af samningi sauðfjárbænda og ríkisvaldsins, hefur einnig haft mikil áhrif. Eins má nefna verkefnið Betra Bú sem ætlað var að auka læsi landeigandans á auðlind sína – landið sjálft.

Sauðfjárbeit úthagavistkerfa

Líklega eru fáir eins meðvitaðir um gildi landgræðslu/vistheimtar eins og sauðfjárbændur og natni þeirra og elja við uppgræðslustörf einstök. Það er engu að síður umhugsunarvert að sú þekking virðist ekki hafa veigamikil áhrif hvernig þeir beita fé sínu að sumri. Þrátt fyrir góða viðleitni til markvissari beitarstýringar í gegnum landnýtingarþátt gæðastýringar í sauðfjárrækt þá hefur ekki tekist sem skyldi. Enn skortir heildstæða áætlun fyrir skipulag sauðfjárbeitar að sumarlagi. Flestir sauðfjárbændur beita enn afrétti og upprekstarheimalönd samkvæmt gömlum hefðum. Í einhverjum tilfellum er sauðfé eingöngu beitt á afgirt heimaland viðkomandi bújarðar, en þau dæmi eru fá.

Þó talsvert af sumarbeitilandi sauðfjár sé vistfræðilega í ágætu ásigkomulagi þá er í of mörgum tilfellum enn verið að beita fé á illa farið land og auðnir. Í öðrum tilfellum er beitarálag á afmörkuðum svæðum of mikið og hætta á landhnignun. Ágangur á eignarland annarra er þáttur sem þarf líka að taka á. Heildstætt beitarskipulag myndi gera okkur kleyft að vinna staðbundið að úrlausnum og aðlaga þær að hverju tilfelli fyrir sig.

Þörfin eftir heildstæðu nýtingarskipulagi úthagavistkerfa tengist ekki eingöngu beitarstýringu. Hún kemur líka til vegna búháttabreytinga til sveita sem og stóraukins fjölda ferðamanna. Það eru margir hagsmunahópar sem vilja nýta úthagavistkerfi í almannaeign til annars en sauðfjárbeitar og þeirra rétt þarf líka að virða.

Sauðfjárbændur og heildstætt beitarskipulag

Misgott ástand úthagavistkerfa er eitt af stærstu umhverfismálum Íslands – eitthvað sem við getum ekki látið reka á reiðanum lengur. Það er löngu tímabært að taka á nýtingu þeirra af mun meiri festu en hingað til hefur tíðkast. Endurheimt raskaðra vistkerfa, bætt beitarskipulag og markviss vöktun á vistfræðilegu ástandi úthagavistkerfa eru forgangsatriði til að efla og viðhalda þessari auðlind sem er undirstaða sauðfjárbúskapar eins og hann er stundaður í dag. Þar þarf þó að hafa í huga að mikill breytileiki er á ástandi og gerð lands eftir landssvæðum. Beitarskipulag þarf því að vinna svæðisbundið útfrá vistfræðilegum og landfræðilegum forsendum hverju sinni. Það þarf sömuleiðis að vinna í nánu samstarfi allra hlutaðeigandi aðila og í sem mestri sátt.

Þó vistfræðilegt ástand úthagavistkerfa sé sameiginlegt hagsmunamál þjóðarinnar eru fáir hagsmunahópar betur fallnir til að leiða gerð heildstæðs nýtingar- og beitarskipulags en sauðfjárbændur sjálfir. Ég hvet þá því til að taka þetta mál upp á sína arma hið fyrsta og kalla eftir aðstoð stjórnvalda til að koma á svæðisbundnum þverfaglegum vinnuhópum til að móta öflugt beitarstýringar- og vistfræðilegt vöktunarkerfi í hverjum landsfjórðungi fyrir sig. Það yrði okkar allra hagur.

---