þriðjudagur, 4. mars 2014

Þörf grein, af vef Landgræðslu ríkisins.


Ástand úthagavistkerfa og sumarbeit sauðfjár


Grein úr Bændablaðinu (20/02/14) eftir Þórunni Pétursdóttur Lr.

Sauðfjárbúskapur byggir afkomu sína að miklu leyti á sumarbeit. Mest allt sauðfé landsins gengur frjálst á afréttum og upprekstrarheimalöndum frá því síðla júní fram í september ár hvert. Það væri gott og blessað ef úthagavistkerfin væru allsstaðar heil og í fullri virkni. Því miður skortir sumsstaðar talsvert upp á að svo sé. Sauðfjárbeit úthagavistkerfa er dæmi um samsett kerfi manns og náttúru. Beitarnýting kerfanna þarf að vera markviss og rýra ekki náttúrugæði þeirra. Stýring á nýtingu auðlindarinnar þarf því að vera heildstæð; í ákvarðanatöku jafnt sem í framkvæmdum og mati á árangri.

Röskuð úthagavistkerfi

Talsverður hluti íslenskra úthagavistkerfa er raskaður og virkni þeirra því undir vistfræðilegri getu. Vistferlar raskaðra kerfa eru rofnir og þau gjarnan föst í ósjálfbæru ástandi. Landgræðsla sem miðar að vistheimt er því oft nauðsynleg til að auka vistfræðilega virkni og efla þanþol kerfanna gegn nýtingu og eða umhverfislegum áföllum. Landgræðsla er samheiti yfir aðgerðir sem fela í sér lágmarks inngrip til viðgerða á náttúrulegum ferla skaddaðra vistkerfa og stuðla helst að vistheimt þeirra. Ferlið miðar að því að ýta röskuðum kerfum yfir lífræna eða ólífræna þröskulda sem halda virkni þeirra niðri og örva framvindu staðargróðurs.

Landgræðsla sem miðar að vistheimt er ferli sem tekur jafnan marga áratugi. Gróður tekur oftast fljótt við sér þegar aðstæður batna, s.s. við áburðargjöf eða önnur inngrip. Það tekur engu að síður langan tíma að byggja upp jarðvegsgæðin sem þarf til að miðla næringarefnum og vatni til viðhalds á öflugri gróðurþekju.

Vistheimt og samfélag

Síðustu áratugina hefur aukin þekking á eðli rofferla og starfsemi vistkerfa haft mikil áhrif á landgræðsluaðferðir. Nú er lögð áhersla á að örva útbreiðslu staðargróðurs í stað áburðarfrekra grassáninga eins og tíðkuðust á árum áður. Landbúnaðartengdar aðferðir hafa því vikið fyrir vistfræðilegum nálgunum við uppgræðslu lands. Stjórnsýslulegar nálganir hafa sömuleiðis breyst umtalsvert á síðustu áratugum. Áður fyrr var lítil bein tenging við hagsmunaaðila og landgræðsluverkefnum sinnt nær eingöngu af stjórnvöldum. Í dag er lögð mikil áhersla á samstarf og sameiginlega ábyrgð ríkis og landnotenda á endurheimt vistkerfa og bættri landnýtingu.

Þessar áherslubreytingar má sjá í margvíslegum samstarfsverkefnum stjórnvalda og bænda. Þar má nefna samfélagsverkefni eins og Bændur Græða Landið (BGL), starf landgræðslufélaga og styrkveitingar Landbótasjóðs. Landnýtingarþáttur gæðastýringar í sauðfjárrækt, sem er hluti af samningi sauðfjárbænda og ríkisvaldsins, hefur einnig haft mikil áhrif. Eins má nefna verkefnið Betra Bú sem ætlað var að auka læsi landeigandans á auðlind sína – landið sjálft.

Sauðfjárbeit úthagavistkerfa

Líklega eru fáir eins meðvitaðir um gildi landgræðslu/vistheimtar eins og sauðfjárbændur og natni þeirra og elja við uppgræðslustörf einstök. Það er engu að síður umhugsunarvert að sú þekking virðist ekki hafa veigamikil áhrif hvernig þeir beita fé sínu að sumri. Þrátt fyrir góða viðleitni til markvissari beitarstýringar í gegnum landnýtingarþátt gæðastýringar í sauðfjárrækt þá hefur ekki tekist sem skyldi. Enn skortir heildstæða áætlun fyrir skipulag sauðfjárbeitar að sumarlagi. Flestir sauðfjárbændur beita enn afrétti og upprekstarheimalönd samkvæmt gömlum hefðum. Í einhverjum tilfellum er sauðfé eingöngu beitt á afgirt heimaland viðkomandi bújarðar, en þau dæmi eru fá.

Þó talsvert af sumarbeitilandi sauðfjár sé vistfræðilega í ágætu ásigkomulagi þá er í of mörgum tilfellum enn verið að beita fé á illa farið land og auðnir. Í öðrum tilfellum er beitarálag á afmörkuðum svæðum of mikið og hætta á landhnignun. Ágangur á eignarland annarra er þáttur sem þarf líka að taka á. Heildstætt beitarskipulag myndi gera okkur kleyft að vinna staðbundið að úrlausnum og aðlaga þær að hverju tilfelli fyrir sig.

Þörfin eftir heildstæðu nýtingarskipulagi úthagavistkerfa tengist ekki eingöngu beitarstýringu. Hún kemur líka til vegna búháttabreytinga til sveita sem og stóraukins fjölda ferðamanna. Það eru margir hagsmunahópar sem vilja nýta úthagavistkerfi í almannaeign til annars en sauðfjárbeitar og þeirra rétt þarf líka að virða.

Sauðfjárbændur og heildstætt beitarskipulag

Misgott ástand úthagavistkerfa er eitt af stærstu umhverfismálum Íslands – eitthvað sem við getum ekki látið reka á reiðanum lengur. Það er löngu tímabært að taka á nýtingu þeirra af mun meiri festu en hingað til hefur tíðkast. Endurheimt raskaðra vistkerfa, bætt beitarskipulag og markviss vöktun á vistfræðilegu ástandi úthagavistkerfa eru forgangsatriði til að efla og viðhalda þessari auðlind sem er undirstaða sauðfjárbúskapar eins og hann er stundaður í dag. Þar þarf þó að hafa í huga að mikill breytileiki er á ástandi og gerð lands eftir landssvæðum. Beitarskipulag þarf því að vinna svæðisbundið útfrá vistfræðilegum og landfræðilegum forsendum hverju sinni. Það þarf sömuleiðis að vinna í nánu samstarfi allra hlutaðeigandi aðila og í sem mestri sátt.

Þó vistfræðilegt ástand úthagavistkerfa sé sameiginlegt hagsmunamál þjóðarinnar eru fáir hagsmunahópar betur fallnir til að leiða gerð heildstæðs nýtingar- og beitarskipulags en sauðfjárbændur sjálfir. Ég hvet þá því til að taka þetta mál upp á sína arma hið fyrsta og kalla eftir aðstoð stjórnvalda til að koma á svæðisbundnum þverfaglegum vinnuhópum til að móta öflugt beitarstýringar- og vistfræðilegt vöktunarkerfi í hverjum landsfjórðungi fyrir sig. Það yrði okkar allra hagur.

---


Engin ummæli:

Skrifa ummæli