miðvikudagur, 4. janúar 2012

Nýtingaráætlun: Ásbyrgi | Fréttir | Um SR

04.01.2012

Vinnu við nýtingaráætlun fyrir Ásbyrgi er nú lokið og mun hún birtast í heild sinni í Ásriti Skógræktar ríkisins sem kemur út í mars. Hér má sjá stutt yfirlit yfir helstu atriði ætlunarinnar.

Áætlunin nær til um 197 ha svæðis en þar af telst skóglendi vera um 128 ha. Heildarstærð umsjónarlands Skógræktar ríkisins í Ásbyrgi er hinsvegar um 416 ha. Meginhluti svæðisins er innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Árið 1928 eignaðist ríkissjóður jörðina Ásbyrgi, byrgið var friðað fyrir beit og Skógrækt ríkisins var falin umsjón með svæðinu.

Allri nýtingu á skóginum til eldiviðar hefur líklega verið hætt fyrir 1950. Eftir þann tíma hefur birkiskógurinn lítillega verið grisjaður og þá aðallega vegna undirbúnings skógarsvæða fyrir gróðursetningu. Elstu sáningar og gróðursetningar eru frá árinu 1942 og hófust af fullum krafti 1947. Seinast var gróðursett í Ásbyrgi 1977.

Samanlagt er búið að gróðursetja um 69 þúsund plöntur og nær gróðursettur skógur nú yfir tæplega 7 ha svæði.

Samkvæmt samantekt ná áætlaðar framkvæmdir á árunum 2011-2020 samtals yfir 9,4 ha svæði. Aðallega er þar um að ræða grisjun og bilun.

Aðstað fyrir ferðafólk er orðin nokkuð góð í innanverðu Ásbyrgi. Ekki er að svo stöddu gert ráð fyrir lagningu nýrra gögnustíga. Álagið á svæðinu er mikið enda er það mjög fjölsótt og líklegt að aðsóknin aukist á næstu árum. Því er mikilvægt að viðhald stíga, áningar- og útsýnistaða sé gott. Heildarlengd göngustíga innan svæðisins er samtals um 7,1 km.

Sumarið 2011 var hafist handa við opnun reiðleiðar frá skeiðvellinum og inn að gamla íþróttavellinum í innanverðu byrginu. Heildarlengd leiðarinnar verður samtals um 5,1 km þegar hún verður öll komin í notkun.


Mynd og texti: Rúnar Ísleifsson


Source:http://www.skogur.is/um-skograekt-rikisins/frettir/nr/1662
Powered by Reader2Blogger

Engin ummæli:

Skrifa ummæli