Síðsumars hafa borist fregnir af stikilsberjarunnum og rifsberjarunnum sem étnir hafa verið upp til agna, öll lauf horfin og berin standa (allsber) eftir á greinunum. Skaðinn hefur verið slíkur að yglur hvers konar blikna í samanburðinum.
|
Þessa mynd setti Kristín Gísladóttir á
fb-vefinn Ræktaðu garðinn þinn 16. ágúst 2012. |
Sökin hefur verið rakin til rifsþélu (d. Stor stikkelsbærbladhveps, e. Gooseberry sawfly), þ.e. lirfur hennar, sem leggst aðallega á stikilsberjarunna en einnig á annað rifs, þ.á m. rauðrifs (rifsberjarunna). Myndir af lirfunum má skoða með því að leita að Nematus ribesii.
Eftirfarandi stendur skrifað um kvikindið á vef Náttúrufræðistofunar Íslands (Erling Ólafsson):
Rifsþéla - Nematus ribesii (Scopoli, 1763)
Fylking: Arthropoda Flokkur: Insecta Ættbálkur: Hymenoptera Ætt: Tenthredinidae
|
Rifsþéla, kvendýr. 7 mm. ©EÓ
|
|
[Smellið á myndir til að stækka]
|
Útbreiðsla
Gjörvöll Evrópa, N-Ameríka. Upplýsingar liggja ekki fyrir um nákvæmari útbreiðslu.
Ísland
Reykjavík, Mosfellsbær; e.t.v. Hveragerði en óstaðfest (eintök liggja ekki fyrir).
Lífshættir
Rifsþéla er blaðvespa sem sérhæfir sig á rifstegundir (
Ribes). Stikilsber (
R. uva-crispa) er fyrsti valkostur en rauðberjarifs (
R. rubrum) er einnig á matseðlinum og e.t.v. fleiri tegundir ættkvíslarinnar. Í ljós hefur komið að fullorðin dýr skríða úr púpum á haustin, frá september og fram í nóvember, svo gera má ráð fyrir að tegundi
n liggi vetrardvalann á fullorðinsstigi. Síðan fara þélurnar á kreik á vorin til að makast og verpa. Annars hefur rifsþélu enn ekki orðið vart snemma sumars enda skammt síðan hún kom til sögu. Vitneskja um lífshættina er því enn afar takmörkuð.
Almennt
Rifsþéla er mjög nýlegur landnemi hér á landi. Það hefur ekki verið skráð hvenær hennar varð fyrst vart, en fyrstu fullorðnu eintökin í safni Náttúrufræðistofnunar eru frá sumrinu 2010. Tveim til þrem árum áður fór að berast til eyrna hvittur um afkastamikla meinsemd á rauðberjarifsi og ennfrekar á stikilsberjum. Runnar nær aflaufguðust síðsumars og voru þar að verki ókunnuglegar lirfur. Náttúrufræðistofnun bárust slíkar lirfur til athugunar í ágúst 2010. Þær náðu að púpa sig og klekjast tiltölulega skömmu síðar. Allt benti þá til að um N. ribesii væri að ræða, en því miður eru vandfundnar ritaðar heimildir til að fara eftir við greiningu. Þessi niðurstaða er þó kynnt hér en kann að verða endurskoðuð síðar.
Rifsþélu virðist fara fjölgandi í görðum, skv. lýsingum sem heyrast. Hverju fram vindur er þó erfitt að segja til um. Það fer eftir því hversu vel aðrar rifstegundir en stikilsber duga rifsþélunni til framdráttar, en stikilsber er mun fágætari tegund í ræktun í görðum okkar en t.d. rauðberjarifs og sólberjarifs (R. nigrum). Ekki fer á milli mála að lirfur rifsþélu eru mikil átvögl sem geta gengið afar hart að runnunum. Nýbúa þessum verður því seint fagnað.
Rifsþéla er áþekk öðrum blaðvespum hvað stærð og heildarútlit varðar en hún er verulega frábrugðin þeim hinum á lit, einkum kvendýrin. Bæði kyn eru með dökkan haus að undanskilinni gulri vör (ofan við kjálkana) og gulum baug yfir augum (meira áberandi á kerlum). Á karlinum er frambolur dökkur nema framhornin gul, afturbolur dökkur að ofan og ljós að neðan, en breytilegt er hve hátt upp með hliðunum guli liturinn teygir sig. Á kerlunni er frambolur gulur nema bakplötur og kviðplötur dökkar, afturbolur hins vegar algulur. Fætur gulir á báðum kynjum. Lirfan er ljósgulgræn, alsett dökkum dílum hver með einum dökkum, sterkum bursta. Haus svartur, einnig fætur, gangvörtur greinilegar á afturbol.
Heimildir
©Erling Ólafsson, 6. júlí 2011