laugardagur, 24. júlí 2021

Skarlatbikar

"Askhirzlur eru fremur sjaldséðar, en þær eru skærrauðar á litinn [...]" (floraislands.is). Þetta eintak skartaði hirslum sínum í uppsveitum Árnessýslu núna í lok júlí.


sunnudagur, 18. október 2020

Litlu gróðrarstöðvarnar

Þessar gróðrarstöðvar, sem kalla sig reyndar sumar gróðurstöð eða garðplöntustöð, gleymast stundum í umræðunni.

1) Gróðurstöðin Hæðarenda. Háagerði, Grímsnesi
Ekið er upp afleggjara sem merktur er Búrfell frá Biskupstungnabraut við Seyðishóla. Stöðin er smá í sniðum og úrvalið af trjáplöntum takmarkað við nokkrar vel valdar tegundir. Einnig er þar selt útiræktað grænmeti.




2) Gróðrarstöðin Þorgautsstöðum 2 í Hvítarsíðu Borgarfirði
Síðuhaldari á eftir að heimsækja stöðina.

3) Garðaþjónusta Gylfa, garðplöntustöð
Gylfi rekur garðaþjónustu að Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð, 861 Hvolsvelli. Stöðin var ekki opin þegar síðuhaldari kom þar við en aðkoman var heimilisleg.

4) Ölur, Sólheimum
Á Sólheimum er rekin skógræktarstöð með algengustu trjám og runnum. Viðhaldi hefur verið mjög ábótavant undanfarin ár og stöðin er ekki sérlega snyrtileg en vörurnar standa ágætlega fyrir sínu.



5) Hvammur II, Flúðum.
Auðvelt er að finna Hvamm II þegar komið er á Flúðir, einfaldlega beygt inn á Hvammsveg af veginum sem liggur í gegnum bæinn. Þarna má finna ágætlega fjölbreytt úrval og verðið er með því besta sem þekkist.
Útisvæði, Hvammur II.
Gróðurhús, Hvammur II.


sunnudagur, 12. ágúst 2018

Öspin við Hagavatn

Af netinu í dag, myndin er af Gönguskála FÍ undir Einifelli við Hagavatn.


Hér er eldri mynd frá Kristni Vilhelmssyni:

fimmtudagur, 12. júlí 2018

Lerki er frábært á Norður- og Austurlandi

Myndin er af fb, frá skógarbónda í Bárðardal.

Sjá einnig flottar myndir Skógræktarinnar af lerki í grýttum með á Hólasandi.

þriðjudagur, 21. mars 2017

Landgræðsluskógar - Laufblaðið 1. tbl. 2017


Smellið á mynd til að stækka hana
eða hér til að skoða tölublaðið í heild.

mánudagur, 8. febrúar 2016

Vel til fundin ályktun Náttúruverndarsamtaka Íslands, Skógræktarfélags Íslands og Landverndar

5. feb. 2016.

Eftirfarandi er hluti ályktunar  frá 5. febrúar 2016 sem send var landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, formanni og framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands og  formanni og framkvæmdastjóra Landssamtaka sauðfjárbænda. Myndirnar eru ekki hluti af ályktuninni en tengjast efni hennar.

Mynd: Sigurður Arnarson, Vatnsskarð 2012 (af síðunni áhugafólk um landgræðslu).
Síðustu mánuði hafa fulltrúar bænda og ríkisins setið við samningaborðið vegna nýrra búvörusamninga, m.a. um starfsskilyrði sauðfjárframleiðslu á Íslandi. Rætt er um tíu ára samninga og þar með að skuldbinda ríkissjóð til a.m.k. 50 milljarða króna greiðslu til sauðfjárræktar á tímabilinu sé tekið mið af árlegum beinum stuðningi um þessar mundir. 
Undirrituð samtök hafa fullan skilning á því að styðja þurfi við hinar dreifðu byggðir landsins til þess m.a. að tryggja byggð í sveitum þar sem sauðfjárrækt hefur verið undirstaða búsetu, varðveita fornnorrænt sauðfjárkyn og tryggja framboð á lambakjöti fyrir innanlandsmarkað. Samtökin leggja hinsvegar ríka áherslu á að skilyrða verði slíkan stuðning við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og tryggja framfylgd slíkrar stefnu. Algert lykilatriði er að gerður sé greinarmunur á landi sem er í góðu ástandi til beitar og landi sem þolir ekki beit.
[...] 
2. Stuðningur við sauðfjárrækt verði skilyrtur við sjálfbæra nýtingu 
Frumskilyrði fyrir ríkisstuðningi til sauðfjárræktar og annarra búgreina þarf að vera sjálfbær nýting gróður- og jarðvegsauðlindarinnar. Beit tíðkast því miður enn  á auðnum, rofsvæðum og illa förnum hálendissvæðum á gosbeltinu, og víðar um land, þrátt fyrir gæðastýringarkerfi í sauðfjárrækt. Bæði Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) og fagaðilar hér heima hafa ítrekað bent á þessa alvarlegu staðreynd. Beit á örfoka landi er ósjálfbær og ekki forsvaranlegt að hún njóti ríkisstuðnings. Fé fjölgar nú aftur í landinu og þótt loftslag sé hagfelldara nú en fyrir 30 árum eru stór landsvæði sem standa ekki undir núverandi beit, hvað þá fjölgun. 
3. Löggjöf  
Landbúnaðurinn og ríkisfagstofnanir á sviði skógræktar og landgræðslu, landeigendur og raunar landsmenn allir búa við úrelta löggjöf sem ekki virðir stjórnarskrárvarinn eignarrétt og getur með engum hætti brugðist við eða komið í veg fyrir ósjálfbæra nýtingu. Um það ber skýrt vitni m.a. úrskurður ítölunefndar sem leyfði beit á örfoka landi á Almenningum ofan Þórsmerkur. Lög sem móta réttindi og skyldur sauðfjáreigenda veita þeim réttindi umfram aðra landeigendur og borgara sem vilja nýta landið með öðrum hætti. Breyta þarf lögum á þann hátt að vörsluskylda búfjár verði meginregla en lausaganga undantekning, líkt og í öllum þeim löndum sem Íslendingar vilja bera sig saman við. Búfjáreigendur ættu í öllum tilfellum að bera ábyrgð á sínu búfé á því landi sem þeir nýta. Eignarréttur landeigenda sem kæra sig ekki um að gróðurlendi þeirra séu beitt af búsmala annarra skal virtur til jafns við annan eignarrétt. Undirrituð samtök telja afar brýnt að breyta löggjöfinni þannig að hið opinbera geti gripið inn í með afgerandi hætti og stöðvað lausagöngu og beit á örfoka landi.

4. Lausaganga 
Lausaganga búfjár hefur í för með sér kostnað sem lendir á öðrum landnotendum. Þeir sem ekki halda sauðfé þurfa að verja land sitt vegna lausagöngu sauðfjár. Sauðfjárgirðingar eru miklu dýrari en girðingar um hross og kýr. Samt þarf að verja tún, skógræktarreiti, sumarhús, akra, skjólbelti, uppgræðslulönd, bæjarfélög o.fl. með sauðfjárgirðingum. Eðlilegra væri að þessi kostnaður yrði til hjá þeim sem halda sauðfé en hinum sem þurfa að verja sig fyrir ágangi þess. Því má telja eðlilegt að hluti styrkja til sauðfjárræktar renni til þeirra sem halda vilja fé sitt í afgirtum, vel grónum hólfum. Aukin vörsluskylda auðveldar öðrum landnotendum að nýta land sitt á þann hátt sem þeir kjósa og stuðlar að gróskumeiri byggðum og nýsköpun. 
5. Verst förnu afréttirnir og efling gæðastýringar  
Góður árangur hefur náðst sums staðar hvað varðar landnýtingarþátt gæðastýringar í sauðfjárrækt. Þannig hefur t.d. dregið úr beit á sumum verst förnu afréttum landsins þar sem bændur hafa friðað stór svæði auðna með beitarstýringu. Því miður dugar það ekki til, sumir þessara afrétta eru að mati fagaðila einfaldlega ekki beitarhæfir. Sátt þarf að nást um algera friðun verst förnu afréttanna og styrkjakerfið verður að tryggja hana. Gera verður þá kröfu til gæðastýringar að hún komi í veg fyrir ósjálfbæra beit og sé beitt sem virku stjórntæki til að verðlauna þá sem vel gera en aftengi stuðning við aðila sem stunda ósjálfbæra nýtingu beitilanda. Þá þarf gæðastýringin að tryggja að eftirlitsaðilar geti framfylgt ákvæðum um sjálfbæra landnýtingu og tryggt að þau svæði sem flokkast sem óbeitarhæft land séu í reynd ekki beitt.
[...]

Skaði af völdum sauðfjárbeitar í óleyfi.



föstudagur, 16. október 2015

Hugmyndir um verndun jarðvegshnignunar í Dalvík

Óvenju vönduð umfjöllun um landgræðslu rataði í leiðara Fbl. í gær þar sem tilefnið var umræða innan stjórnsýslu Dalvíkurbyggðar um notkun eiturefna til að sporna gegn uppgræðslu og gróðurframvindu. Í leiðaranum er m.a. vitnað í grein Þrastar Eysteinssonar hjá Skógrækt ríkisins, í Skógræktarritinu 2011:
[...] „Það tókst að bjarga Bæjarstaðaskógi frá eyðingu og enginn vafi leikur á að þar gegndi lúpínan lykilhlutverki,“ segir í greininni og sagt ljóst að þeir sem haldi því fram að lúpína hopi seint eða ekki og skilji eftir sig „sviðna jörð“ fari með rangt mál.
„Lúpínan er hlekkur í gróðurframvindu sem endar í öflugri gróði en var fyrir á viðkomandi stað.“ 
Spurningin um ágæti lúpínunnar snýst því um hvort fólk vilji fá öflugri gróður, eða hvort halda eigi í fábreytt útlit gróðursnauðra mela. Á láglendi er berjalyng merki um hnignun jarðvegar, því það er harðger hálendisgróður sem vex þar sem aðrar plöntur þrífast ekki.  
Mögulega ætti Dalvíkurbyggð að endurhugsa áætlanir sínar um verndun jarðvegshnignunar og velta fyrir sér hvort öflugri gróður myndi ekki sóma sér betur.
Það getur verið skiljanlegt að vilja standa vörð um landslag og gróðurfar, jafnvel gróðurleysi, sem maður hefur alist upp við og vanist. En margir virðast telja að slíkt landslag sé "upprunalegt" og samsetning ríkjandi plöntutegunda sé á einhvern hátt náttúrulegt. Svo er ekki, eins og lýst er ágætlega á vef Reykjavíkurborgar í umfjöllun um gróðurfar Elliðaárdals:
Við landám breyttist gróðurfar til muna, plöntutegundir sem ekki þoldu beit létu undan síga en beitarþolnar tegundir eins og grös, starir og lyngtegundir urðu ríkjandi. Skógar eyddust og uppblástur hófst á hæðum og ásum. 
Lúpína græðir upp mel í Hafnarfirði. Myndin er tekin í lok júlí 2015.
Hún var ekki hluti af umfjöllun Fbl.