miðvikudagur, 28. mars 2012

Elri á Íslandi - reynsla og möguleikar


Rit Mógilsár Rannsóknastöðvar skógræktar nr. 26/2012, bls. 8
Gráelri (Alnus incana).
Mynd af rettarholl.is

Elri á Íslandi – reynsla og möguleikar 
Halldór Sverrisson.
Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá; Landbúnaðarháskóla Íslands
Útdráttur erindis á Fagráðstefnu skógræktar, Húsavík 27.-29. mars 2012.

Elriættkvíslin (Alnus Miller) er af bjarkarætt (Betulaceae). Tegundir ættkvíslarinnar eru útbreiddar um norðurhvel jarðar. Þrátt fyrir að elri líkist birki um margt er þó einn afgerandi munur á ættkvíslunum; elri lifir í samlífi með bakteríum (Frankia-geislasveppum) sem tillífa nitur úr andrúmsloftinu líkt og belgjurtir. Þessi hæfileiki elris til þess að afla sér niturs gerir því fært að vaxa vel í mögrum jarðvegi. Elritegundir eru oft frumherjar á röskuðu landi og hverfa síðan vegna samkeppni frá hærri trjám, en sums staðar á norðlægum slóðum er elri ríkjandi í varanlegum kjarrskógum.

Á Íslandi hefur elri ekki vaxið á síðustu hlýskeiðum ísaldar. Enginn vafi er hins vegar á því að hefðu einhverjar elritegundir borist hingað eftir lok síðasta ísaldarskeiðs, hefðu skilyrði hér verið mjög ákjósanleg fyrir t.d. gráöl eða grænöl.

Þrátt fyrir að menn hafi lengi vitað um gagnlega eiginleika elris, og hafi snemma flutt inn gráöl frá Norðurlöndunum og síðar sitkaöl frá Ameríku og grænöl (kjarröl) frá Alpafjöllum, hafa þessar tegundir ekki verið mikið notaðar í skógrækt og landgræðslu lengst af. Undir lok síðustu aldar óx þó áhugi á að nýta elri í landgræðslu og voru flutt inn mörg kvæmi af sitkaöl, grænöl og blæöl sem safnað var í Alaska og Kanada haustið 1985. Plantað var í 26 kvæmatilraunir með alls 50 kvæmum af þessum tegundum víðs vegar um landið 1988. Tilraunirnar voru teknar út á árunum eftir útplöntun, og vann Hreinn Óskarsson úr þeim úttektum og birti í BS-ritgerð sinni við Landbúnaðarháskólann í Danmörku árið 1995. Síðan hefur engin skipuleg úttekt farið fram á þessum tilraunum. Vegna þess hvernig tilraunirnar voru settar upp og vegna mikilla affalla reyndist einungis unnt að meta hversu vel eða illa ólíkar landgerðir hentuðu til elriræktunar.

Árið 1989 var safnað hrísöl og hæruöl í Magadan í Austur-Síberíu og árið 1993 á Kamtsjatka. Þessi efniviður fór á nokkra staði en hefur ekki verið skoðaður skipulega síðan.

Þær elritegundir sem hugsanlega gætu nýst til viðarframleiðslu eru gráölur, blæölur, rauðölur (svartölur) og hugsanlega ryðölur (rauðölur). Engar kvæmatilraunir hafa verið gerðar með þessar tegundir, sem er mjög bagalegt. Mest er reynslan af gráöl, sem víða hefur vaxið vel og áfallalaust. Vaxtarformið er hins vegar ekki gott, en mætti vafalaust bæta með kynbótum. Gráölur hentar mjög vel í skjólbelti.

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar með smitun elris með mismunandi stofnum af Frankia. Niðurstöður leiddu í ljós að töluverður munur var á smitunarhæfni stofnanna. Einnig voru gerðar tilraunir með svepprótarsveppi ásamt geislasveppnum í einni af þessum tilraunum.

Nauðsynlegt er að stofna sem fyrst til kvæmatilrauna með þeim tegundum sem henta í skógrækt.
Gráelri, mynd af plantetorvet.dk
Gráelri, mynd af Natthagi.is
-----------------------------
Umræður um svartölri  / svartelri á facebook 18. mars 2012:

Aðalsteinn Sigurgeirsson: Ef ætlunin er að rækta tré á jarðvegi sem er sendinn og blautur, væri svartölur (Alnus glutinosa) áhugaverður valkostur. 
Sigurður Arnarson: Gráölur hefur líka verið reyndur á svona svæðum en skv. minni reynslu hentar þetta honum ekki. Hann þarf ferskan jarðraka þ.e. vatnið þarf að vera á hreyfingu. Svartelrið er sennilega betri kostur. 
Hafsteinn Hafliðason: Svartölur (sem áður var kallaður rauðelri - en ég hef tilhneigingu í að kalla límelri - eftir sænskunnar klibbal!) vex meðfram vatnsfarvegum og ætti að þola frost og leysingar. Samt kemur það oft fyrir í heimkynnum hans að trjánum er rykkt upp af vatnavöxtum á vorin - og í sumarstórveðrum eins og farin eru að gera sig þar heimakomin á síðustu árum. 
Aðalsteinn Sigurgeirsson: Víða í Evrópu vex svartölur í mýrarfenjum þar sem grunnvatnsstaðan er há og vatnið kyrrstætt og súrefnissnautt, eins og myndin frá Þýskalandi hér að ofan sýnir glögglega. Lítil sem engin reynsla er (mér vitanlega) af því hér á landi að rækta svartöl á óframræsti mýri.
Gráelri (að ég tel) í Kópavogsdal, smellið til að stækka.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli