föstudagur, 16. október 2015

Hugmyndir um verndun jarðvegshnignunar í Dalvík

Óvenju vönduð umfjöllun um landgræðslu rataði í leiðara Fbl. í gær þar sem tilefnið var umræða innan stjórnsýslu Dalvíkurbyggðar um notkun eiturefna til að sporna gegn uppgræðslu og gróðurframvindu. Í leiðaranum er m.a. vitnað í grein Þrastar Eysteinssonar hjá Skógrækt ríkisins, í Skógræktarritinu 2011:
[...] „Það tókst að bjarga Bæjarstaðaskógi frá eyðingu og enginn vafi leikur á að þar gegndi lúpínan lykilhlutverki,“ segir í greininni og sagt ljóst að þeir sem haldi því fram að lúpína hopi seint eða ekki og skilji eftir sig „sviðna jörð“ fari með rangt mál.
„Lúpínan er hlekkur í gróðurframvindu sem endar í öflugri gróði en var fyrir á viðkomandi stað.“ 
Spurningin um ágæti lúpínunnar snýst því um hvort fólk vilji fá öflugri gróður, eða hvort halda eigi í fábreytt útlit gróðursnauðra mela. Á láglendi er berjalyng merki um hnignun jarðvegar, því það er harðger hálendisgróður sem vex þar sem aðrar plöntur þrífast ekki.  
Mögulega ætti Dalvíkurbyggð að endurhugsa áætlanir sínar um verndun jarðvegshnignunar og velta fyrir sér hvort öflugri gróður myndi ekki sóma sér betur.
Það getur verið skiljanlegt að vilja standa vörð um landslag og gróðurfar, jafnvel gróðurleysi, sem maður hefur alist upp við og vanist. En margir virðast telja að slíkt landslag sé "upprunalegt" og samsetning ríkjandi plöntutegunda sé á einhvern hátt náttúrulegt. Svo er ekki, eins og lýst er ágætlega á vef Reykjavíkurborgar í umfjöllun um gróðurfar Elliðaárdals:
Við landám breyttist gróðurfar til muna, plöntutegundir sem ekki þoldu beit létu undan síga en beitarþolnar tegundir eins og grös, starir og lyngtegundir urðu ríkjandi. Skógar eyddust og uppblástur hófst á hæðum og ásum. 
Lúpína græðir upp mel í Hafnarfirði. Myndin er tekin í lok júlí 2015.
Hún var ekki hluti af umfjöllun Fbl.