miðvikudagur, 21. ágúst 2013

Staurabor, ruddasláttuvél o.fl. á Vesturlandi

Ársrit Skógræktar ríkisins fyrir 2012 er komið út. Hér er gripið niður í greinargerð Valdimars Reynissonar, skógarvarðar á Vesturlandi, á bls. 32 (bls. 17 í pdf skjalinu).
Árið 1990 gaf Elísabet Ólafsdóttir Skógrækt ríkisins landspilduna Laxaborg í Haukadal til minningar um mann sinn, Guðbrand Jörundsson. Tilgangur gjafarinnar var að viðhalda þeirri ræktun sem er þar og auka hana.
[...] 
Í gömlu túnin voru settar alaskaaspir (Populus tricocarpha) sem verið höfðu á beði á Vöglum í einhver ár. Það voru því miklar lengjur sem komu að norðan (allt að 4 m) og alls komu 1.350 aspir að norðan í þetta skiptið. Þeim var plantað með 3 x 3 m millibili í gömlu túnin. Mikill grasvöxtur er í gömlu túnunum og var Guðmundur Geirsson í Geirshlíð fenginn til að slá þau með ruddasláttuvél áður en hafist var handa. Hann boraði einnig fyrir plöntunum með staurabor aftan á dráttarvél og notaði haugsugu til að vökva plönturnar.
Guðbrandur, sem lést árið 1980, var oft nefndur Dala-Brandur samkvæmt grein í Mbl. 1982. Skóginn mætti því nefna Dala-Brandsskóg.

Frá gjöf Ingríðar Elísabetar Ólafsdóttur er sagt í Mbl. 1991 (fréttatilkynning frá Skógrækt ríkisins):
[...] 
Gjöfn er gefin til minningar um eiginmann hennar, Guðbrand Jörundsson frá Vatni í Haukadal, og einnig í þeim tilgangi að varðveita og auka þá ræktun, sem í Laxaborg er. 
[...]  
Guðbrandur keypti árið 1943 þann hluta Þorsteinsstaða, fremri, sem er milli þjóðvegarins og Haukadalsár. Fljótlega reistu þau hjónin sér sumarhús þarna, sem síðan hefur gengið undir nafninu Laxaborg. Þau hófu fljótlega umfangsmikla trjárækt, og nú er þar vaxinn upp myndarlegur skógarreitur. Mun drýgstur hluti tómstunda þeirra hjóna hafa verið nýttur til þess að hlúa að gróðrinum í Laxaborg. 
Lengst af hefur landareignin, sem er um 50 ha að stærð, verið friðuð. Þar hefur mikil gróðurbreyting átt sér stað, eins og athugulir vegfarendur taka eftir, og gefur hún vísbendingu um það, hvernig, gróðurfari hefur verið háttað í árdaga Íslandsbyggðar. 
Ákveðið hefur verið að hefjast handa í Laxaborg, strax á vori komanda með því að lagfæra girðingu þá, sem umlykur landareignina og gróðursetja þar skjólbelti.
Gjöf þessi er einhver sú veglegasta, sem Skógrækt ríkisins hefur verið gefin. Arður jarðeignarinnar mun geta staðið undir verulegri skógrækt, og getur því Laxaborg orðið miðstöð skógræktar í Dölum þegar fram líða stundir, og staðið sem minnisvarði um skógræktarframtak þeirra Ingríðar Elísabetar og Guðbrands um aldur og ævi.
Séð inn Haukadal, Laxaborg neðst til vintstri.
Ljósmynd: Mats Wibe Lund. 
Samtals pungaði LV út fyrir 15.000 plöntum á jörðinni samkvæmt samningi árið 2011. Á móti telur fyrirtækið kolefnisbindinguna sér til tekna í kolefnisbókhaldi sínu.

Samkvæmt ársskýrslu skógarvarðarins á Vesturlandi var auk aspanna um að ræða 7.236 stafafurur (Pinus contorta) af Skagway kvæmi og 6.700 birki (Betula pubescens) af Bolholtskvæmi. Í skýrslunni segir að árið 2013 hafi verið áætlað að planta 2.200 sitkagreniplöntu og 1.061 stafafuru og meira af ösp 2014.

Í nýtingaráætlun fyrir svæðið er gert ráð fyrir að allt í allt verði plantað hartnær 32 þús. plöntum á hektarana 15 sem eru gróðursetningarhæfir, en í heildina er jarðparturinn um 47 hektarar og allur afgirtur.

Ruddasláttuvél er til að slá á grófu yfirborði og slá sinu af túnum, fyrir þá sem ekki vita.

Í júní 2012 birti SR myndir af gróðursetningu í Laxaborg, sem liggur meðfram Haukadalsá og er sem fyrr segir í Haukadal (Dalabyggð). Í byrjun júní 2015 birtust svo fregnir á vef SR um að lokagróðursetning væri í gangi í Laxaborg og með henni teldist landið fullplantað.

Í greinargerð skógarvarðarins sem nefnd er að framan kemur einnig fram að geitur hafi komist inn í skógræktina haustið 2011 og hreinsað börkinn af um 70 ca. 4 m háum öspum og drepið þær. Svæðið væri hins vegar orðið "fjárlaust og geitafrítt" eftir að 1 km kafla af ónýtri gaddavírsgirðingu var skipt út vorið 2012.

Á sínum tíma var hreppsnefnd Haukadalshrepps mótfallin gjöfinni og vildi nýta forkaupsrétt sinn að jörðinni. Taldi nefndin að gjöfin þjónaði ekki hagsmunum sveitarfélagsins og að Skógræktin "hefði ekki skilgreint hvernig hún hygðist notfæra sér hana". Til allrar lukku var ekki fallist á þessar umleitanir.
Ljósari og stærri útgáfa af myndinni fyrir ofan,
úr Skógræktarritinu 1991.
Smellið til að stækka.
Sjá nánar: http://www.skogur.is/um-skograekt-rikisins/fasteignir/vesturland/laxaborg/

mánudagur, 19. ágúst 2013

Ertuygla leggst á skógartré, ágúst 2004

Meðfylgjandi texti er úr frétt á skogur.is frá 20. ágúst 2004. Til að nálgast myndirnar með fréttinni þarf hins vegar að notast við vefsafnið. Hér eru myndir og texti saman.

20.08.2004

Ertuygla leggst á skógartré

Ertuygla hefur etið upp stórar lúpínubreiður á Suðurlandi í sumar. Þegar lúpína er uppétin fer yglan yfir á aðrar jurtir í lúpínubreiðunum. Á Markarfljótsaurum hafa ýmsar trjátegundir verið gróðursettar í tilraunaskyni í gamlar lúpínubreiður. Yfirleitt vaxa þessar trjátegundir vel og er það þakkað niturbindingu lúpínunnar. Nú gjalda trjáplönturnar þess hins vegar að búa í nábýli við lúpínurnar eins og meðfylgjandi myndir sýna. Þrátt fyrir að bragðast frekar illa fá grenitré flest eru frekar smá (50-100 cm) ekki frið fyrir svöngum yglunum. Ekki er vitað hvort þessi ygluplága hefur varanleg áhrif á lúpínurnar eða trén sem í henni vaxa.





Myndir: "ho".