föstudagur, 4. janúar 2013

Sáning - Kristinn H. Þorsteinsson í Mbl. 1999

Kristinn H. Þorsteinsson, formaður Garðyrkjufélags Íslands segir að í öllum aðalatriðum gildi sömu reglur, hvort sem um er að ræða sumarblóm, fjölæringa eða tré. [...]
Hér er tekið dæmi um sáningar á birki
Moldin
Sáðmold er hægt að kaupa tilbúna í verslunum, hún er myldin og í henni er hæfilegt magn næringarefna og því því heppileg til sáningar. Ekki er nauðsynlegt að sá í sérstaka sáðbakka, heldur má notast við nær hvaða ílát sem er, til dæmis undan ís eða skyri, svo framarlega sem stungin eru göt í botninn og framræsla tryggð. Bakkinn er fylltur að þremur fjórðu hlutum og þjappað létt á moldina. Sé þjappað of fast fer súrefni úr moldinni og spírun gengur verr, en sé moldin ekki þjöppuð er hætta á að fræ liggi laus ofan á moldinni og nái síður tengslum við jarðveginn. Fræi er sáldrað yfir moldina. Hæfilegt er að gera ráð fyrir um 100 spíruðum fræjum í bakka sem er 20x30 sentímetrar, en sú stærð hentar vel í venjulega gluggakistu. Sé spírunarhlutfall 50% sem oft er hjá birki má hæglega sá 200 fræjum í bakka af þeirri stærð en í einu grammi af birkifræi eru hátt í 900 fræ. Sé spírunarhlutfall hærra en 50% er rétt að fækka sáðum fræjum sem því nemur.

Um 1-2 millimetra þykku lagi af vikri eða sandi er sáldrað yfir fræin, en sáldrið heldur raka að moldinni. Stærri fræ t.d. greni þarf að hylja meira eða sem nemur 3-5 sinnum þvermáli fræsins. Raki er eitt af lykilatriðum til að spírun takist.

Vökvað neðan frá
Að svo búnu er moldin vökvuð og er best að vökva neðan frá í gegnum göt á sáðbakkanum. Sé vatni hellt yfir bakkann, þéttist moldin og súrefni í henni minnkar auk þess sem fræin geta skolast til ef ekki er farið varlega að. Best er að leggja bakkann í eldhúsvask með volgu vatni og láta hann standa þar í 10-15 mínútur, eða þar til sáldrið hefur dökknað.

Þá er sáðbakkanum komið fyrir í gluggakistu, helst í vesturglugga og hvítt plast lagt yfir. Það heldur raka að moldinni. Einu sinni á dag er gott að lofta um moldina og taka plastið af í nokkrar mínútur. Moldin má aldrei verða þurr né of blaut en vökvun krefst mikillar umhyggju og er eitthvert vandasamasta verkið í uppeldinu. Ef um er að ræða fræ sem spírar í myrkri þarf að leggja t.d. svart past yfir sáðbakkann og er þá betra að hann standi ekki í glugga meðan hann spírar því mikill hiti getur myndast undir plastinu

Árangur sést eftir um það bil tvær vikur
Misjafnt er hversu langan tíma tekur fyrir fræ að spíra það fer eftir tegundum en ekki er óalgengt að það taki 7-14 daga. Þegar megnið af fræjunum hefur spírað er plast tekið ofan af bakkanum og þá fer birta að skipta plönturnar mestu máli. Þær teygja sig í átt að ljósi og því er mikilvægt að láta þær standa þar sem þær fá sem mesta birtu. Markmiðið er ekki að fá langar spírur, heldur þétta og laufgaða plöntu. Nýspíruð fræ mega ekki standa í sterku sólarljósi og sé sáðbakki til dæmis hafður í suðurglugga er nauðsynlegt að skyggja örlítð á hinar viðkvæmu plöntur. Það má t.d. gera með því að setja festa dagblað á glerið á glugganum og draga þannig úr mestu birtunni. Best er að plönturnar séu í vesturglugga. Austurgluggi er næstbesti kostur og suðurgluggi er í þriðja sæti. Illt er að þurfa að notast við norðurglugga, því birta inn um hann er mjög takmörkuð.

Fljótlega eftir spírun myndast tvö lítil laufblöð, sem nefnd eru kímblöð. Í kjölfarið stækka smáplönturnar og laufblöðum fjölgar. Þá þarf að dreifplanta, til að auka vaxtarrými hverrar plöntu.

Vaxtarými aukið
Á þessu stigi má notast við venjulega gróðurmold. Stærri sáðbakki er fylltur að - hlutum af henni. Einnig má lítinn 4-6 sentímetra pott fyrir hverja plöntu. Gerð er hola í moldina, til dæmis með blýanti. Síðan er hver planta tekin varlega upp úr sáðbakkanum og henni komið varlega ofan í nýja pottinn sinn. Ekki minnkar þörf fyrir birtu, en á þessu stigi hafa plöntunar gott af ögn lægri hita ef mögulegt er. Annars geta þær orðið linar og þróttlítilar. Þegar hætta á næturfrosti er liðin hjá má fara út með smáplönturnar og venja þær smám saman við loftslagið sem þær koma til með að búa við næstu árin. Æskilegt getur verið að hylja plönturnar með trefjadúk (akríldúk) eða plasti fyrstu næturnar, en síðan er þeim komið fyrri á skjólgóðum stað í garðinum t.d. í vermireiti til næsta vors, jafnvel lengur eða þar til þær eru gróðursettar.

Birtist í Mbl. 22. maí 1999

Engin ummæli:

Skrifa ummæli