miðvikudagur, 3. desember 2014

Stofnar falla - óveðrið 30. nóvember 2014

Vonskuveðrið sem reið yfir 30. nóvember 2014 hafði mun minni trjáskaða í för með sér en búast mátti við miðað við veðurspár. Hér eru þó dæmi um slíkt úr þremur fréttum.

"Rúmlega  60 ára gömul ösp rifnaði upp með rótum í Dalvíkurbyggð um klukkan hálfeitt í nótt. Öspin stóð milli tveggja húsa á Goðabraut." Svo sagði á fréttavefnum mbl.is síðdegis 1. des. 2014 og birtist myndin hér að neðan með fréttinni.

 Hér er svo skjáskot úr frétt RÚV um þakplötur og tré sem fóru á hliðina.
Smellið til að stækka.
Öllu meiri skaði varð í nokkrum skógum á vegum Skógræktar ríkisins sem nýlega höfðu verið grisjaðir. Eftirfarandi er brot úr frétt stofnunarinnar sem birtist 3. desember 2014:
Við [grisjun] opnast skógarnir, trén sem eftir standa fá aukið vaxtarrými, botngróðurinn eflist og aðgengi til útivistar batnar, sem er allt af hinu góða. Á móti kemur að trén eru berskjaldaðri fyrir vindi fyrst um sinn, eða þar til þau hafa fengið tækifæri til að gildna svolítið, sem tekur nokkur ár.
Mestur getur skaðinn orðið í miklu hvassviðri strax í kjölfar grisjunar og er hann einkum tvenns konar:
  • Há og tiltölulega mjóstofna tré sveiflast í vindinum, rifna upp með rótum og leggjast á hliðina
  • Krónumikil tré brotna, oftast þar sem einhver veikleiki er í stofninum.
Veðrið sem gerði sunnudagskvöldið 30. nóvember olli nokkrum skógarskaða. Óheppilegt var að nánast hvergi var frost í jörð, auk þess sem jarðvegur var víða mjög blautur. Við þær aðstæður þarf ekki endilega mikinn vind til að tré rifni upp, sérstaklega ekki í nýgrisjuðum skógum. 



Upprunalegur myndatexti: Í þessum nýgrisjaða reit í Vaglaskógi
hafa stafafurutré bæði rifnað upp með rótum og brotnað.

Upprunalegur myndatexti:
Hér hefur óveðrið fellt mörg á hliðina í Norðtunguskógi.


Ágæt skýrsla er í frétt S.r. um skaða í Norðtunguskógi í Borgarfirði, Stálpastaðaskógi í Skorradal og í Vaglaskógi í Fnjóskadal. Texti með fréttinni eftir Þröst Eysteinsson og myndir eftir Valdimar Reynisson og Rúnar Ísleifsson.

Til samanburðar eru hér nokkrar myndir af óveðrinu sem heimsótti landið í nóvember 2012.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli