föstudagur, 28. nóvember 2014

Stórvirki á 7-8 þúsund hekturum - frásögn í þremur hlutum af landgræðslu, beitarstýringu og (beitar)skógrækt á Daðastöðum.

Inngangur
Daðastaðir er bær í Núpasveit við Öxarfjörð, N-Þingeyjarsýslu, Norðurþingi. Þar búa Gunnar Einarsson og Guðrún Sigríður Kristjánsdóttir og hafa þau getið sér mjög gott orð fyrir landbætur á Daðastöðum.

Síðuhaldari tók sér bessaleyfi til að afrita brot af því sem Gunnar hefur skrifað til að birta hér í fræðsluskyni, auk fjögurra mynda af vef búsins, dadastadir.is/.


I. hluti. Texti eftir Gunnar sem birtist í janúar 2003 á landbunadur.is

Við keyptum Daðastaðina seinnipart vetrar 1982 og fluttum þangað um vorið. Daðastaðir eru í Öxarfjarðarhreppi, Norður Þingeyjarsýslu. Það hafði verið vel byggt upp á Daðastöðum. Hús fyrir 1000 fjár og tvö íbúðarhús. Landið sem við höfum, Daðastaðir, Arnarstaðir og Arnarhóll, eru sneið sem er 4–5 km á breidd með sjó og 20 km inn í land. Það er ekki langt frá að okkar land sé þrisvar sinnum stærra en Heiðmörk. Við höfum haft svipað bú í mörg ár. Höfum núna 600 ær plús ásetningsgimbrar, smálömb og hrúta, allt í allt um 800 fjár, 13 nautgripi og níu hross. Landið er frá allt því að vera í mjög góðu ásigkomulagi yfir í að vera í mjög slæmu ásigkomulagi. Hinir frómustu menn höfðu lýst landi þessara jarða sem alveg einstöku landi til sauðfjárræktar. Þar að auki var altalað að á Norð-Austurlandi væri alls engin ofbeit. Þegar tók að vora og snjóa leysti kom það í ljós að mun meira var um örfoka land en ég átti von á. Það sem var þó jafnvel enn verra var að landið var mikið beitt. Það mikið beitt að á haustin var allt gras upp nagað. Fallþungi var heldur ekki viðunandi.

[...]

LANDBÆTUR Á DAÐASTÖÐUM
Við byrjuðum strax að að rækta upp þá mela sem voru næst bænum og höfum síðan fikrað okkur sífellt lengra. Fyrst sjálf og síðar í samvinnu við Landgræðsluna í verkefninu „Bændur rækta landið“. Við berum á fimm tonn af áburði á ári, mest á mela sem við erum að rækta upp. Við höfum borið fræ á flesta mela sem við höfum ræktað og skít og moð á þá alla, flesta oftar en einu sinni. Við höfum ræktað nokkra tugi hektara á þennan hátt.

Við girtum í áföngum af neðri hluta landsins, ca. 700 hektara, í viðbót við ca. 150 hektara sem voru innan gömlu túngirðinganna og lukum því fyrir átta árum. Innan þessarar girðingar er eitt stórt hólf og þrjú minni hólf sem við erum að rækta upp með lúpínu. Það hólf sem við girtum fyrst er ca. 15–20 hektarar, var hreinn melur.

Næsta var ca. 80 hektarar, í bland melar og móar, meira gróið en ógróið. Þriðja hólfið var ca. 35 hektarar, að hálfu gróið. Við girtum þessi hólf, en Landgræðslan sáði fyrir okkur lúpínu í tvö fyrstu hólfin og útvegaði okkur fræ í það síðasta. Melarnir í síðasttalda hólfinu eru mjög grófir. Ég sáði í þá með kastdreifara. Ég blandaði fræinu í sand til að magnið yrði hæfilegt.

Við sáðum fyrstu lúpínunni fyrir 10 árum og má segja að þeir melar séu mikið til grónir. Við erum farin að beita þá, mest þó á haustin. Lúpínan er þegar farin að hopa og þó nokkuð gras komið í elstu sáninguna. Stærsta hólfið notum við til beitar lítillega á vorin, en fyrst og fremst á haustin. Frá október til desember. Við höfum þó nokkuð gert af því, bæði innan og utan girðinga, að láta jarðýtu ryðja niður börð og sá í þau og hefur það gengið í heildina vel. Um 4 km frá bænum var mjög illa farið land sem girt var af síðastliðið sumar. Þetta er 11 km girðing utan um 600 hektara lands. Þessi girðing er girt með stuðningi frá Pokasjóði, Framleiðnisjóði og Landgræðslunni. Við vonum að klára mikið til að sá lúpínu í þetta land næsta sumar. Landið þarna er frá rúmlega 100 metrum upp í 250 metra hæð yfir sjávarmáli. Það er mikið eftir af melum á landinu okkar sem þarf að rækta upp, en það fer eftir hvernig gengur að rækta upp þetta hólf hvernig framhaldið verður. Á svæðinu frá heimagirðingunni að þessari nýju girðingu eru melar, um 20–30 hektarar, sem ég vonast líka til að geta ræktað upp með fræi og áburði á næstu tveim til þrem árum.

ÁÆTLUNIN
Ég hef gert áætlun sem við höfum unnið eftir, bæði til langs og stutts tíma. Í sinni einföldustu mynd hefur hún gengið út á að girða af tímabundið það land þar sem verst er farið og sá lúpínu í það, en nota fræ skít og áburð á mela sem ekki er gott að girða af.

HVERNIG LÍT ÉG Á LAND?
Skoðanir mínar um beit og landbætur hafa mótast af ýmsu sem ég hef lesið, ferðalögum og af því að ræða við aðra. En ég tel að ég hafi lært mest af því sem í dag er kallað að lesa landið. Margt sem ég trúði og hélt hér áður fyrr hef ég orðið að endurskoða eftir því sem náttúran kennir mér meira. Ég tel að frjósemi jarðvegs sé atriði sem of lítið sé rætt um. Mínar skoðanir og viðhorf eru nátengd þessu atriði. Það ræðst mikið af frjósemi jarðvegs hvað vex í honum, sé frjósemin lítil sem engin vex lítið. Það sést ef til vill ein og ein planta. Væri sturtað frjósömum jarðvegi í hrúgu á mel eða í rofabarð þyrfti yfirleitt ekki að sá í hrúguna, hún gréri fljótt upp. Mér sýnist líka að ef frjósemi jarðvegs er hrunin getur það eitt og sér leitt til uppblásturs. Þegar frjósemi melanna eykst fara að vaxa mosar og beitilyng. Krækiberjalyng fer líka að sjást. Þegar frjósemin eykst meira fer að koma bláberjalyng og eitthvað af grasi fer að sjást. Ef ég ber skít í eitt ár á lyngmóa breytist gróðurfarið, gras fer að verða ráðandi. Hér er gamall túnblettur sem unnin var úr mólendi fyrir 30–40 árum. Það hefur ekki verið borið á þetta tún í fjölda ára. Frjósemi hans er að minnka og lyngið farið að taka við af grasinu. Það sama er að gerast á melum sem við ræktuðum upp fyrir nokkrum árum og erum hætt að bera á.

Þegar við erum búin að rækta upp mela, hvort sem það er með skít og áburði eða með lúpínu, fara melarnir að gefa af sér áburð. Kindurnar beita sér og flytja til frjósemina. Meðan melarnir eru gróðurlausir taka þeir frá móunum. Það er greinilegt að móarnir fara að batna hraðar þegar melarnir gróa upp. Meira gras kemur í þá.

Það er þó nokkuð kjarr hér á jörðinni og meðal annars samfelldur um 15–20 hektara skógur og kjarr út frá þessum skógi. Utan við skóginn er sum staðar rýr mói, hann er að vísu skárri en hann var fyrir 20 árum, en engu að síður mjög lélegur víða. Mosi, beitilyng og krækiberjalyng ráðandi. Skógurinn sækir út á þessa móa. Það eru stakar birkiplöntur þarna um allt, fleiri eftir því sem nær dregur skóginum. Enn nær skóginum eru runnar með opnu landi á milli. Þarna er allt annar gróður, bláberjalyng og gras. Krækiberjalyng og beitilyng hefur vikið. Þegar komið er inn í skóginn er gras og blágresi ráðandi.

Niðurstaða mín er sú að það eru ekki bara landnotin sem hafa leitt til uppblásturs, það hefur ekki síður verið hrun í frjósemi, sem hefur leitt til þess að gróðurfarið er aðeins rústir þess sem áður var. Landið getur gjörbreyst og uppskeran margfaldast. Mitt hlutverk er að ýta undir og flýta fyrir að það gerist.

BIRKIÐ OG SAUÐKINDIN
Ég trúði því hér áður að sauðfé og birki ættu illa saman. Meðal annars hafði ég séð myndir þar sem birkið óð upp innan við girðingu en ekkert var utan við. Ég hafði líka gengið meðfram svona girðingu. Ég hafði séð hvernig birki kom upp á landi sem hafði verið friðað. En þetta er ekki svona einfalt. Kindur vilja hafa aðgang að mismunandi gróðri. Ef kindur eru á rúmu og hóflega beittu landi éta þær eitthvað, en aðeins lítið af birki. Ef komið er kjarr í landið ver það litlu plöntunnar. Þetta sést skýrt hjá okkur. Þarna eru litlar plöntur sem ég fylgist með. Um leið og við erum komin hundrað eða nokkuð hundruð metra frá kjarri gætu þær haldið birkinu niðri. Maður sér það sama með lúpínuna að ef það er stök planta sem vex langt frá öðrum lúpínum eru þær oft bitnar niður, en plöntur nær eða í útjöðrum eru lítið bitnar. Þetta segir mér í fyrsta lagi, að girðingar geta beinlínis komið í veg fyrir að birki dreifi úr sér. Í öðru lagi, til að ná hámarks uppskeru á landi eins og okkar, og miklu víðar á landinu, er best að landið sé með birkikjarri. Ég reikna með að 1/3 væri mjög gott. Það er oft nauðsynlegt að friða land tímabundið til að fá gróðurinn á skrið. Síðan má beita landið og meðan það heldur áfram að batna erum við hér og sjáum til þess að í landið veljist gróður sem þolir beit.

BÚSKAPUR OG ÚTIVIST
Takið eftir, það er svona land sem er best til útiveru. Miklu skemmtilegra land heldur en land sem er þéttvaxið birki. Til lengri tíma er miklu heppilegra fyrir útivistar fólk að það sé búið í landinu og það beitt. Hugsið ykkur heilu héruðin gróin birkikjarri sem er nærri ófært yfirferðar. Birkifrumskógur er ekkert sérstaklega útivistar vænn, það höfum við reynt hér. Það er líka ljóst að það verður mikið verk að halda landinu opnu. Það eru til tæki í þetta og verða án efa enn betri tæki til. Þegar of mikið birki fer að verða stórt vandamál væri hægt að grípa til þeirra. Þannig gróðurfar er ekki eins og var á Íslandi við landnám, en það er keimlíkt.

MÓAR ERU OFT LÉLEGT BEITILAND
Ég er í dag farin að líta sérstaklega lélega móa svipuðum augum og ég leit mela hér áður. Þeir eru ekki að gefa nema brot af þeirri uppskeru sem þeir ættu að gefa. Það er alveg ljóst að við aðstæður eins og hjá okkur er algjörlega óviðunandi að tala um að landið haldist svipað. Það verður að stór lagast, þó það sé notað til beitar.

Hófleg sumarbeit og friðun, munu þegar tímar líða, gjörbreyta gróðurfari á Íslandi. Einhverjum mun þykja eftirsjá í melum með lambagrasi og holtasóley og móum með krækiberjalyngi. Staðreyndin er sú að að þessi gróður verður áfram til, en hann verður dæmdur til að hverfa af stórum svæðum. Ef til dæmis Reykvíkingum er umhugað að hafa land í Öskjuhlíðinni ófrjósamt og gróið lyngi með berjum fyrir börnin, gætu þeir níðst á landinu með beit allt árið. Best væri að láta fjármenn halda fénu á beit. Ef þeir kvarta undan kulda þá er bara að rétta þeim aðra peysu. Bændur hafa aflagt þessa búskaparhætti, en tæknin er en þekkt.

LÚPÍNAN OG LANDBÆTUR
Við hjónin vorum að klára að slá 20 hektara tún hér í sumar. Aðrir tíu hektarar lágu flatir í brekkunni fyrir ofan. Ég fór út að tína upp plast sem borist hafði út á tún. Ósköp var maður lítill þarna í miðri slægjunni og ég hugsaði til þess að ef við hefðum þurft að snúa þessu öllu með hrífu og hirða allt með gamla laginu. Innan við þrem sólahringum seinna voru þessir þrjátíu hektarar komnir í plast. Tæknin sem notuð er verður að vera í takt við vandann. Mér leist strax mjög vel á lúpínu sem landbótajurt, þegar ég kynntist henni sem unglingur fyrir ofan Hafnafjörð. Áður en ég varð bóndi fékk ég fjölskylduna með mér til að týna lúpínufræ, sem ég svo sáði með góðum árangi. Ég sá líka, að eftir að við fluttum hingað norður, að lúpínan gæti gert okkur mögulegt að rækta melana margfalt hraðar upp. Þrátt fyrir góðan ásetning fórum við ekki að nota lúpínu til ræktunar fyrr en við gátum fengið fræ frá landgræðslunni. Ræktunin með lúpínunni hefur verið töfrum líkust. Það er geysilega gaman að sjá lúpínuna breyta öllu þessu landi, sem áður voru ófrjósamir melar, í gott beitiland.

Hér er ég komin að því sem ég tel lykilatriði, landbætur eru tæknilegt vandamál. Við höfum þegar tækni sem er ágæt, eins og að rækta upp með fræi, áburði og lúpínu þar sem hún á við. Það er líka hægt að planta trjám. En það þarf að þróa fleiri aðferðir sem duga bónda með vandamál af þeirri stærðargráðu sem við höfum á Daðastöðum. Númer eitt er að fá smárafræ eða aðra tækni sem er til og koma smára í beitilandið. Það er margt tæknilegs eðlis sem mér hefur dottið í hug, en ekki komið í verk að gera. Ég er þeirrar skoðunar að það ætti að eyða meira í tæknilegar lausnir og minna í margt annað.

[...]


II. hluti. Texti eftir Gunnar sem birtist í desember 2013 á facebook.com – vinir lúpínunnar

[...] ef við ætlum að halda áfram og efla sauðfjárrækt þá verðum við að gera landið upp. Þar hlýtur lúpínan að vera í einu af aðalhlutverkunum. Tökum dæmi: fyrir 20 árum girtum við af 80 hektara (Þjófsstaðahólfið). Þetta var mjög illa farið land, helmingurinn melar. Hinn helmingurinn var gróðurtorfur sem flestar voru afmarkaðar af rofabörðum. Vatnsrof og flagmóar voru algengir. Það voru þarna líka fallegar lautir. Það var hægt að standa í þessum lautum og sjá ekkert annað en fallegt gróið land en heildarmyndin var allt önnur. Landið var varla beitarhæft. Við girtum svæðið og létum ryðja niður mörgum kílómetrum af rofabörðum. Landgræðslan sáði fyrir okkur lúpínu í hluta melana og síðan sáðum við sjálf í hluta. Lúpínan hefur síðan dreift sé yfir flesta þá mela sem ekki var sáð í. Við friðuðum svæðið í 4-5 ár, það hefur verið beitt síðan en lítið yfir hásumarið.

Það er þannig með sauðkindina að hún smakkar á öllu. Ef það er lítið af lúpínu klárar hún hana en þegar það eru komnar breiður af henni er uppskeran margföld miðað við það litla sem sauðkindin étur af henni. Ef lúpína er í girðingu nær hún ekki að hefja landnám utan hennar ef það er beit þar. Ef girðing, sem er meira en eitthvert frímerki, er opnuð og beit er hófleg, getur lúpínan dreift úr sér þrátt fyrir beit. Það sama á við um birki og víði.

Í Þjófsstaðahólfinu, þar sem áður voru berir melar, er í dag gott beitiland með grasi og lúpínu í bland. Lúpínan er bæði að gefa eftir og í sókn á síðustu melana. Það er kjarr þarna sem er í sókn en það þyrfti að vera meira af því. Við hefðum átt að sá eða planta birki jafnvel setja eitthvað af lerki á sínum tíma. Það er ekkert því til fyrirstöðu tæknilega að koma kjarri og skógi í þetta land á komandi árum. Lúpínan ein og sér tryggir ekki hámarksuppskeru. Til þess þarf kjarr. Lúpínan er líkari grunnmálningu þegar ryðgaður bíll er gerður upp. Grunnurinn er nauðsynlegur til að ná endanlegu markmiði. Hefðum við notað fræ og áburð hefði þurft túnaskammt af áburði í mörg ár til að ná þeirri frjósemi sem nú er í melunum. Áburðurinn 500kgx40hx10ár = 200 tonn, dreifingin + flutningurinn með skipum og bílum hefðu ekki aðeins kostað fjársjóð heldur líka kostað mikla olíunotkun.

Séð í samhengi er Þjófsstaðagirðingin 1% af landinu sem við höfum. Það eru 1000 hektarar af melum hérna og aðrir 1000 af illa grónu landi. Ef við framreiknum hvað það kostaði að ná góðri frjósemi í þetta land með fræi og áburði gæti dæmið litið út einhvern veginn svona: 1600 hektarar x 0,5 tonn x 10 ár x 90.000 krónur per tonn áburður með dreifingu = 720.000.000 krónur.

Lúpínan er þannig raunhæf, ódýr, vistvæn leið til að gera upp land. Við erum núna með 750 hektara girðingu sem við erum að sá lúpínu í (Grjótfjallagirðingin). Við höfum líka aðra lúpínuakra og ræktum líka mikið með fræi og áburði. Ræktun með fræi og áburði getur vel gengið en samanburður á þessum aðferðum í yfir 30 ár hefur sannfært mig um að uppgræðsla með lúpínu er sú aðferð sem við ættum að einbeita okkur að sem fyrsta grunni.

Landið sem við höfum er rúmlega 7000 hektarar. Bæði mjög gott og mjög vont land. Í dag er hér beit fyrir 800 ær. Eftir að búið væri að gera alla jörðina upp væri vel hægt að hafa hér 2500 ær. Þá væri landið líka gott fyrir nautgripi eins og Ísland var á fyrstu öldum Íslands byggðar. Hvernig þetta land verður notað eftir 100 ár veit enginn, en verðum við ekki að vona og reikna með að komandi kynslóðir vilji frekar gott en vont land?

Heimildir: Gróður og gróðurfar á Daðastöðum, Arnarstöðum og Arnarhól.


III. hluti. Texti eftir Gunnar sem birtist í september 2014 á facebook.com – áhugafólk um landgræðslu

Áhrif beitar eru oft einfölduð svo mikið að sannleikurinn týnist. Til lengri tíma er málefnaleg umræða miklu líklegri til að gagnast gróðurfarinu en einhliða áróður. Ég er sammála því að sauðkindin hafi átt drjúgan þátt í að valda mikilli landeyðingu og hnignun gróðurs. Einnig að sauðkindin geti tafið og/eða hindrað framgang gróðurs. En áhrif beitar eru ekki eins einföld eins og margir virðast halda. Ef einhver efast um það sem ég held hér fram þá er sá hinn sami velkominn hingað á Daðastaði þar sem eftirfarandi blasir við.

Í fyrsta lagi getur land sem er beitt gróið upp og þá ekki sem einhver undantekning heldur sem algengt stef. Þetta gerist oft þannig að mosi byrjar að nema land síðan fylgir krækiberjalyng, beitilyng, fjalldrapi og fleira gott. Þetta er að gerast hér á stórum svæðum þrátt fyrir verulega beit. 

Í öðru lagi gerist oft ekkert á ógrónum melum áratugum saman þó þeir séu friðaðir. 

Í þriðja lagi er birkið. Það er greinilegt að sauðkindin getur hindrað að birki breiði úr sér. Ég trúði því einu sinni að birki dreifði aðeins úr sér á friðuðu land En þetta er heldur ekki svona einfalt. Sauðkindin velur sér fjölbreyttan gróður. Sumur gróður, til dæmis margar blómjurtir og gras, eru í uppáhaldi. Ýmis annar gróður er étinn, en samt síður. Sumar jurtir eru aðeins lítið bitnar og þá meira eins og krydd eða, eins og haldið hefur verið fram, að þær velji þær til að bæta heilsuna. 

Til að skýra málið nánar er gott að taka lúpínu sem dæmi um áhrif beitar. Svipaðar reglur gilda um beit á til dæmis birki og víði. Ef við reynum að sá lúpínu á mel sem er beittur, jafnvel lítið beittur, er hún étin upp til agna. Ef við friðum melinn og sáum í hann, nær lúpínan sér á strik og vex að girðingunni. Hver einasta planta sem vex utan við girðinguna er étin. Ef við opnum nú girðinguna (gefum okkur að melurinn sé nokkrir hektarar og beitin hófleg) þá éta nú kindurnar af lúpínuskóginum og ýmsan annan gróður sem komin er í lúpínubreiðuna og láta litlu lúpínuplönturnar mikið til eiga sig þannig að lúpínan dreifir nú úr sér á beittu landi. Girðingin, sem upphaflega var forsenda þess að lúpínan náði sér á strik, fer að hindra útbreiðslu hennar. Kindur éta þó nokkuð af lúpínu. Ég sé til dæmis oft plöntur sem standa einhvern spöl frá lúpínubreiðunni sem eru mikið bitnar þó þær drepist sjaldnast ef þær hafa náð þroska. 

Hér á Daðastöðum sé ég kindur stundum éta birki, sérstaklega þegar þær hafa ekki fengið birki einhvern tíma eins og þegar við látum þær út af túnunum á vorin. Ég sé samt nánast aldrei birkiplöntur sem hafa verið bitnar þannig að það skaði þær að ráði. Birkið er hér mjög víða í mikilli sókn. Ekkert síður á því landi sem er beitt. Það má þó vel vera að það séu svæði hér sem hafa það fáar birkiplöntur að beitin hindri framgang þess. Gulvíðir, sem kindur vilja miklu frekar en birki, er á síðari árum í mikilli sókn. Loðvíðir er í mestu uppáhaldi hjá sauðkindinni af þessum runnum. Á þeim svæðum sem lítið var af honum hefur friðun greinilega þau áhrif að hann nær sér á strik. 

Til að skýra enn frekar hvað ég á við þá förum við niður að þjóðvegi á sléttlendi sem þar er, en þar er mikið af loðvíði á beittu landi. Kindurnar éta verulega af honum en samt ekki meira en svo að hann stækkar og dreifir úr sér. Á næstu jörð er samskonar land og þar er engin loðvíðir nema meðfram veginum þar sem þær ná ekki til hans. Þetta er ekki vegna þess að það sé endilega eitthvað meira beitt Núpsmegin en hér hjá mér heldur vegna þess að loðvíðirinn hefur aldrei náð sér á strik þar. 

Á þessu svæði hér ætti birki- og sauðfjárrækt að vera samofin hluti af þrennunni. Vegna þess að birkið margfaldar sjálfbæra uppskeru. Þegar komið er vel af birki á eitthvert svæði hérna hefur sumarbeit engin áhrif á frekari útbreiðslu þess.

Það er jafn sjálfsagt að friða land eins og að beita það. Það er eðlilegur hluti af búskap. 
Við erum með 10% af okkar landi friðað. 20% væri enn betra. Það er aftur á móti ekki gerlegt að friða allt illa farið land í einu. Þótt við hefðum 20% af landinu friðað og værum þar fyrir utan að rækta mela í stórum stíl væri enginn vandi að finna óbeitarhæft land sem við beittum hérna, mynda það síðan og skrifa undir eitthvað ljótt um sauðkindina. Það er mín reynsla að það sé ekki nóg að friða land, það verður líka að gera eitthvað til að laga landið. Það sem skiptir megin máli er hvort búskapur flýtir fyrir eða hvort hann tefji fyrir því að landið grói. 

Tökum dæmi það var talað um það hér á síðunni (eða lúpínusíðunni) að Leirhöfn á Sléttu væri auglýst til ábúðar og að af myndum mætti ráða að landið væri þarna illa farið. Það er alveg rétt að Leirhafnarfjöllin eru illa farin, þó er birki víða í sókn í þeim. Helgi og Lína í Hjarðarási eru búin að girða af syðri hluta Leirhafnarfjallana og eru að laga þann part. Sléttan er stór og vel gróin. Þar mættu vera fleiri kindur en eru þar í dag. Það sem þyrfti væri duglegur bóndi í Leirhöfn sem byggi stóru sauðfjárbúi bónda og girti af restina af Leirhafnarfjöllunum og sáði í þau lúpínu. Þannig flýtti búskapurinn fyrir landbótum, útbreiðslu birkis og við fengjum land, land með mannlífi. Án íhlutunar verða þessi fjöll ógróin langt inn í framtíðina.

Við megum ekki gleyma því hvað við erum heppin að í heimi þar sem ástand gróðurlenda stefnir víða norður og niður, getum við hér á Íslandi gert við þetta mjög svo illa farna land og gert það að góðu landi til landbúnaðar.
Smellið til að stækka.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli