föstudagur, 13. júlí 2012

Lækur þornar upp eftir jarðskjálfta
Bæjarlækurinn hjá Óla í Nátthagi þornaði upp eftir skjálftann í Ingólfsfjalli

Ólafur Sturla Njálsson, garðyrkjubóndi á Nátthagi í Ölfusi segir að eitthvað mikið hafi gerst varðandi vatnsrennsli á svæðinu eftir jarðskjálftann í Ingólfsfjalli upp á 3,1 richter síðasta sunnudag.
"Skjálftann fundum við sem eitt kröftugt högg.  Skömmu eftir skjálftann bað ég aðstoðarkonu mína um að fara út í læk og ná í vatn í garðkönnuna og vökva nokkrar plöntur sem bíða gróðursetningar heima við hús mitt.  Styst var að sækja vatnið í lækinn þar.   Í læknum er hylur, þannig að þó lítið vatn sé í honum vegna þurrka undanfarið, er alltaf vatn í þessum hyl nógu djúpt til að dýfa garðkönnu í og fylla hana.   Daginn eftir áundir kvöld  átti ég leið fram hjá læknum á þessum stað og snarstoppa.  Allur lækjarfarvegurinn var þornaður upp eftir jarðskjálftann.   
Ekki er nú ábætandi eftir alla þurrkana hugsaði ég.  Djúpagrafningslækur sem rennur í gegnum allt land Nátthaga hefur aðeins einu sinni áður náð að þorna alveg, en það var í hitunum í ágúst 2004, þegar mældist upp í 28 stiga hiti fjóra daga í röð. Lækurinn hefur ekki þornað upp síðan, þrátt fyrir fimm undangengin þurrkasumur og svo þetta þurrkasumar líka.  Mér sýnist sem skjálftinn hafi haft þessi áhrif, hvað svo sem það táknar síðar meir?  Kaldavatnsborholan mín gefur ennþá vatn.  Skjálftinn hefur því ekki haft áhrif á rennslið í hana. 
Tilfinning mín er sú að þessi skjálfti sé undanfari stærri skjálfta í Ingólfsfjalli, eins og það sé ekki allt búið sem byrjaði í Ölfusinu í maí 2008.  Maður leiðir bara svona hjá sér alveg eins og væntanlegt gos í Kötlu, Heklu, Öskju. Vatnsleysið fer nú örugglega að hrjá fleiri en mig úr þessu á Suður- og Vesturlandi", sagði Ólafur Sturla í samtali við DFS

Engin ummæli:

Skrifa ummæli