föstudagur, 24. janúar 2014

Skogur.is - Skógurinn á Kirkjubæjarklaustri - hæsta tréð á Íslandi

Úr frétt á vef Skógræktar ríkisins, skogur.is:
Almennt um skóginn 
Á Kirkjubæjarklaustri er alllöng hefð fyrir skógrækt og eru skógarlundir sitt hvorum megin við Systrafoss. Í skóginum vaxa aðallega birki og sitkagreni og var stofnað til hans af fjölskyldunni á Klaustri og er skógurinn í eign Klausturbænda. Á seinni árum hefur ýmsum trjátegundum verið bætt við, stígar gerðir í gegnum skóginn og borðbekkir settir upp.
[...]
Saga skógarins 
Upphaf skógarins má rekja til þess að heimafólk á Klaustri girti af brekkurnar ofan við bæinn og gróðursetti þar 60.000 birkiplöntur [árið 1946]. Áttu hjónin Helgi Lárusson og Sigurlaug Helgadóttir stóran þátt í því að til skógarins var stofnað. Á næstu árum var bætt inn sitkagreni, lerki og furutrjám. Um 1964 var gerður samningur við Skógrækt ríkisins um viðhald girðinga og umsjón með skóginum. Hefur Skógræktin á síðustu árum bætt aðgengi að skóginum auk þess að bæta við sjaldgæfum trjátegunum.
Trjárækt í skóginum 
Mest er af birki og sitkagreni í skóginum. Á seinni árum hefur ýmsum tegundum verið bætt við, t.d. hlyni, álmi, reynitegundum, aski, þöll og lífviði.
Annað áhugavert í skóginum 
Eitt hæsta sitkagrenitré landsins er að finna í reitnum við Kirkjubæjarklaustur [gróðursett 1949] og mældist það 25,3 m á hæð árið 2012. Raunar er ekki vitað um hærri tré á Íslandi.
Umfjöllunina í heild sinni ásamt myndum má finna hér: http://www.skogur.is/thjodskogarnir/sudurland/nr/10
---
Systrafoss 2012. Mynd af gonguleidir.is.
Í færslu sem er horfin af skogur.is en aðgengileg á vefsafn.is má finna fleiri upplýsingar um skóginn:
Upphaf skógarins á Kirkjubæjarklaustri má rekja til þess að árið 1945 keyptu Helgi Lárusson og Sigurlaug Helgadóttir 60.000 birkiplöntur frá Skógræktarstöð Hermanns [forsætisráðherra Jónassonar] í Fossvogi. 
Voru plönturnar áframræktaðar fyrsta árið í matjurtagarðinum að Klaustri sem nú er trjágarður við gamla bæinn. 1946 voru birkitrén svo gróðursett í brekkurnar við Systrafoss, þar sem allt heimafólk hjálpaðist að. Við tók mikið þolinmæðis verk hjá Sigurlaugu við að reyta gras frá plöntunum, vökva þær og reka út kindur sem sóttu í brekkurnar og hoppuðu yfir girðingarnar. Krakkarnir voru líka virkjaðir í þetta þegar hægt var. 
Í kringum 1950 gróðursetti Sigurlaug nokkrar lerkihríslur, furur og grenitré sem voru keypt hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur í Fossvogi [áður Skógræktarstöð Hermanns]. Síðar hefur Skógrækt ríkisins bætt við trjátegundum og gróðursett í skriður sem voru teknar að gróa upp. Skógrækt ríkisins hefur haft umsjón með skóginum síðustu áratugina, haldið við girðingum, gert stíg og grisjað skóginn. Söguleg samantekt er byggð á upplýsingum frá Elínu Frigg.

Systrafoss 2008. Mynd af palove.kadeco.sk.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli