föstudagur, 5. apríl 2013

Aprílhretið mikla

Af facebook síðu SÍ:

Senn verður hálf öld liðin frá aprílhretinu mikla. Af því tilefni birtum við þessa klausu eftir Hákon Bjarnason skógræktarstjóra sem birtist í Ársriti Skógræktarfélags Íslands árið 1964.

,,Árið 1963 varð þungt í skauti fyrir trjárækt og skógrækt um suðvestanvert landið. Hin miklu hlýindi í febrúar, mars og fyrstu dagana í apríl ollu því, að ýmis tré og runnar höfðu vaknað af vetrardvalanum, og þegar hitabrigðin urðu með afbrigðum snögg síðari hluta dags hinn 9. apríl hlaut að fara svo, að margt fallegt tréð missti lífið eða yrði fyrir skemmdum. Ofan á þetta bættist svo kalt og votviðrasamt vor og óvenju kalt sumar um allt land.
Skaðarnir urðu mestir á tveim trjátegundum, sitkagreni og Alaskaösp, en það eru þær tegundir, sem mest hafa verið ræktaðar hér sunnanlands um nokku ár, ekki síst í görðum manna. Skaðarnir eru mestir frá norðurstönd Hvalfjarðar suður um Reykjanes og í lágsveitum sunnanlands austur að Vík í Mýrdal. Utan þessara marka gætir þeirra lítið og ekki neitt um norðan- og austanvert land.
. . . . . . . . .
Aðalorsökina til þessara skemmda má telja þá, að Skógrækt ríkisins hefur um nokkur ár, einkum á tímabilinu frá 1945 til 1955, látið safna fræi og græðlingum á stöðum, þar sem tré springa út við lágan vorhita. 
Þrátt fyrir þessa skaða, er ekki minnsta ástæða til þess að örvænta eða efast um möguleika til skógræktar á Íslandi. Reynslan hefur sýnt okkur að hávaðinn af þeim trjátegundum, sem í ræktun eru nú, geta staðist jafn hörð áhlaup og þetta. Enn fremur hefur hún kennt okkur, að ekki hæfir að sækja fræ til of norðlægra staða fremur en til of suðlægra. Slíkt áfall og þetta hefði mátt koma nokkrum árum fyrr, því að þá hefði verið unnt að stemma á nær ósi."

- Hákon Bjarnason, ,,Starf Skógræktar ríkisins 1963“ (Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1964)


Um eftirstöðvar hretsins má m.a. lesa í skýrslunni Kálfamói frá 2008:
Nokkrar alaskaaspir voru gróðursettar vorið 1955 neðst í [Ytrilaut] þar sem jarðvegur var álitinn frjósamastur. Þær kól allar alveg niður að jörðu í aprílhretinu mikla, en upp af rótunum hafa vaxið teinungar sem urðu að myndarlegum trjám. Það hæsta er nú sautján metra hátt og annað af tveimur hæstu trjánum á öllu rannsóknarsvæðinu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli