miðvikudagur, 3. apríl 2013

Mosi í grasflöt

Árbæjarblaðið 7. tbl. 5. árg. 2007 - Guðmundur Vernharðsson, garðyrkjufræðingur í gróðrastöðinni Mörk

[Vökvun]
Mikilvægt er að vökva vel þegar vökvað er þannig að jarðvegurinn blotni vel niður í að minnsta kosti 20 sentimetra dýpi. Ekki er heppilegt að vökva mörgum sinnum á dag pínulítið í einu þannig að jarðvegurinn blotni jafnvel bara rétt í yfirborðinu. Það dregur úr vexti plantnanna að vera sífellt að baða þær í köldu vatni í góðu hlýju veðri þegar þær eiga að vera í fullum vexti. Plöntu sem plantað er niður í jörð er nóg að vökva einu sinni á dag ef rétt og vel er vökvað. Plöntur sem eru í pottum geta þurft vökvun tvisvar á dag í miklum þurrki. Þurrkur er mestur þegar hlýtt er og vindur. Látið ekki smáskúr blekkja ykkur. Ef skúrin er ekki nægilega mikil til þess að bleyta þessa 20 sentimetra ofan í jörðina þá getið þig samt þurf að vökva ef útlit er fyrir áframhaldandi þurrk, til dæmis daginn eftir, segir Guðmundur.

Og þá er það mosinn.
Merkilegt með mosann sem virtist eiga alla grasflötina eins og hún lagði sig. Það er eins og hann hafi hörfað. En skýringin er venjulegast sú að það er grasið sem er orðið meira áberandi. Til að eiga von um að geta gert eitthvað varanlegt gegn mosanum þá þarf að skilja mosann. Hvað líkar honum og hvað líkar honum ekki? Til þess að fá fallegan grasblett þarf á sama hátt að skilja hvað grasinu líkar og hvað grasinu líkar ekki. Þetta spilar reyndar ótrúlega vel saman. Það sem grasinu líkar það mislíkar mosanum og öfugt.

Loft ofan í jarðveginn.
Grasið vill hafa loftríkan jarðveg. Það er jarðveg sem er hvorki samanklesstur né blautur. Rætur grassins þrífast illa ef ekki er til staðar súrefni ofan í jarðveginum. Súrefnið minnkar eða hverfur ef jarðvegur er klesstur eða of blautur. Einnig er blautur jarðvegur kaldur og dregur þannig úr vexti. Mosinn vill hafa jarðveginn rakan. Þannig að þéttur og blautur jarðvegur hentar honum vel. Hvernig fæst loft ofan í jarðveginn? Ef jarðvegur er mjög blautur þá getur þurft að ræsa hann fram með þar til gerðum framræsisskurðum (drenskurðum). Mjög er til bóta að hafa mikið sandinnihald í jarðvegi undir grasi. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að setja hreint sandlag í allt að 10 sentimetra undir þökur og reynst vel. En þá þarf að gæta mun betur að vökvun á þökunum á meðan þær róta sig niður úr sandlaginu. Í gömlum þéttum grasflötum hefur reynst vel að sandstrá með allt að 3 sentimetra sandlagi sem þurrkar yfirborðið til ógagns fyrir mosann. Einnig er gott að fara út með stungugaffal og stinga lárétt ofan í flötinn og ýta gaflinum fram og til baka þannig að eftir sitja göt í jarðveginum. Þessi göt hleypa súrefni ofan í jarðveginn. Það spilar mjög vel saman með götun að setja sand sem fyllir í holurnar og heldur þeim þannig lengur virkum. Grasið vill fá nóg að borða en mosanum er sama um mat. Grasið vill fá sinn áburð en mosinn þrífst mjög vel án allrar áburðargjafar. Hér þarf líka að gæta hófs vegna þess að meiri áburður þýðir meiri garðslátt. Gæta þarf þess í allri meðhöndlun á tilbúnum áburði að hann fari jafnt á yfirborðið. Gras getur mjög auðveldlega sviðið og jafnvel drepist undan ójafnri áburðargjöf.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli