miðvikudagur, 28. mars 2012

Gróðursetning

Eftirfarandi er af vef Fossvogsstöðvarinnar (centrum.is/fossvogsstodin), sem hætti rekstri árið 2000. Afrit af vef stöðvarinnar er aðgengilegt á archive.org.

Gróðursetning
Besti tíminn til að gróðursetja tré og runna er á vorin, áður en plöntur hefja vöxt, en harðgerðar plöntur úr pottum má gróðursetja nærri hvenær sem er, ef rétt er á haldið. Á haustin, eða þegar sumarvöxtur er fullþroskaður, má einnig gróðursetja. Það getur verið hentugt þar sem frost er lengi í jörðu á vorin, t.d. í graslendi kringum sumarbústaði. Ef ekki á að gróðursetja strax, skal vökva potta- og bakkaplöntur en annars konar plöntur skal setja í mold til bráðabirgða og vökva. Forðast skal að sól skíni á plönturætur og rétt er að vinna aðeins með eina plöntu í einu.



Potta- og hnausplöntur
Ef gróðursetja á plöntu úr potti eða með rótarhnaus þarf holan að vera 10 - 30 sm víðari og dýpri en rótarkökkurinn og í kringum hann er þá fyllt með mold sem er ríflega blönduð búfjáráburði. Ef gróðursett er planta úr beði og lítil mold fylgir rótunum þarf svo rúma holu að hægt sé að greiða úr rótum þannig að þær liggi jafn eðlilega og áður. Það er betra að stytta rætur en að kuðla þeim saman. Milli rótanna er fyllt með áburðarblandaðri mold og þess gætt að öll holrúm fyllist.
Holan er fyllt að mestu og vökvað vel. Þegar vatn er sigið er hún fyllt alveg og moldin þjöppuð dálítið. Plantan á að standa lóðrétt og þola nokkurt átak án þess að losna. Trjáplöntur eru yfirleitt settar jafndjúpt og þær stóðu áður nema ösp og víðir sem planta má dýpra. Kringum plöntuna má ekki vaxa gras eða illgresi fyrstu árin því samkeppnin um raka, hita og næringu dregur úr vexti og þrifum. Þegar plöntur eru gróðursettar á berangri getur verið nauðsynlegt að skýla þeim fyrstu árin. Er þá hægt að notast við skjólgirðingar eða trjáhlífar sem settar eru utan um hverja plöntu.

---------------

Úr DV, 14. maí 1983.

GRÓÐURSETNING 

Takið plönturnar úr umbúðum sem fyrst. Ef ekki á að gróðursetja strax eru þær settar í mold til bráðabirgða og vökvaðar. Forðist að gróðursetja í sólskini og vinnið aðeins með eina plöntu í einu.

Hafið holurnar svo stórar að hægt sé að greiða vel úr rótum.

Notið hálfrotinn búfjáráburð. — Setjið lag af honum neðst í holu og einangrið með mold. Til- búinn áburð er varasamt að nota nema afar lít- ið. — Milli rótanna er fyllt með blöndu af fún- um áburði og bestu moldinni og plantan hreyfð varlega svo að öll holrúm fyllist.

Holan er fyllt að mestu og vökvað vel. — Þegar vatnið er sigið er hún fyllt alveg og moldin þjöppuð vel með fótunum. — Plantan á að standa lóðrétt og þola nokkurt átak án þess að losna. — Trjáplöntur eru yfirleitt settar jafndjúpt og þær stóðu áður [...].

Ýmis stór tré þarf að styðja meðan þau eru að festa rætur og er stoðin þá sett í holuna á undan trénu svo að ræturnar skemmist ekki.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli