mánudagur, 25. nóvember 2013

Hörfar lúpína?

Lúpína hörfar, lúpína hopar, lúpína víkur fyrir öðrum tegundum þegar hún hefur skapað skilyrði sem eru öðrum tegundum að skapi. Lúpína er landnemaplanta, eða frumherjaplanta eins og algengara er að lýsa plöntum sem geta vaxið þar sem gróðurskilyrði eru óboðleg flestum öðrum plöntum. Lúpínan vinnur þannig á móti þeim manngerðu gróðurbreytingum sem orðið hafa á Íslandi frá landnámi.

Lúpínan er í sumum skilningi framandi, þ.e. hún barst hingað af mannavöldum, líkt og sauðkindin og fleiri tegundir. Hún telst ekki vera ágeng, enda hafa framandi ágengar plöntur og dýr "í för með sér verulegan kostnað fyrir þá atvinnuvegi sem reiða sig á hráefni og þjónustu sem háð eru heilbrigðum vistkerfum" líkt og segir á vefnum ni.is (6. nóv. 2013). Engum dylst að lúpína sparar mikla fjármuni og tíma sem ella færu í uppgræðslu á illa förnum gróðursamfélögum, þar sem gróðurþekja er lítil og jarðvegur rýr. Hún flýtir þannig fyrir endurheimtum fyrra gróðurfars landsins og gerir hvers konar hagkvæma landnýtingu mögulega. Ágengar tegundir koma í veg fyrir landnám annarra plantna, en lúpínan gerir slíkt landnám mögulegt með því að skapa forsendur fyrir heilbrigðum vistkerfum.

Af vef Hekluskóga.
Af vef Skógræktarfélags Íslands (ágúst 2010):
Lúpína er í eðli sínu frumherjaplanta. Hún nær helst á strik þar sem hefur orðið mikil röskun eða eyðing á gróðurþekju. Hér á landi má glöggt sjá þetta t.d. á Haukadalsheiði, einnig má benda á rofin holt og vegfláa austan Reykjavíkur. Í Heiðmörk hefur lúpínan verið hvað lengst og þar heldur hún sig innan rofsvæða og er farin að hörfa. Í rofflákum eins og á Haukadalsheiði og í Heiðmörk var gróður mjög takmarkaður nema á mótum gróins og rofins lands. Það er helst á melum sem strjáll holtagróður verður a.m.k. tímabundið undir í samkeppni við lúpínu.
[...]
Dæmi eru um að lúpína sé að hopa undan graslendi og blómlendi, þannig að þetta er ekki bara spurning um hæð, heldur líka þéttleika gróðurs (sbr. grasið), úrkomu, plágur (til eru yglur og fetar sem hafa bestu lyst á lúpínum), snefilefnaástand jarðvegs, beit o.m.fl. [...] 
Lúpína getur vissulega skyggt á smáplöntur víðis og birkis, sem getur tafið vöxt, en á endanum ná þær sér oftast upp úr. Hér í kringum höfuðborgarsvæðið m.a. má víða sjá sjálfsánar birki- og víðiplöntur stinga sér upp úr lúpínubreiðum.
Þá er rétt að benda á að land sem er friðað fyrir beit er í stöðugri framþróun og þegar næringarforði fer að hlaðast upp með tíð og tíma herðir á slíkri gróðurframvindu. Hluti mela og móa með sínum smágróðri mun með tíma breytast yfir í kjarr-, skóg-, gras- eða blómlendi, þótt lúpína komi þar hvergi nærri.
Af vefnum ni.is, færsla sem virðist vera frá apríl 2012.
Myndin að ofan er úr umfjöllun um rannsókn Borgþórs Magnússonar á gróðurframvindu í lúpínubreiðum frá 2011. Myndatexti:
Lúpína hörfar af landi á vikrunum í Þjórsárdal þar sem henni var dreift fyrst um 1970. 
Fyrirlestur um rannsókn Borgþórs má finna á YoutTube.
Af vefnum bjorgum.is, færsla 9. sept. 2013. 
Myndin að ofan er af vef bæjarins Bjarga í Húsavík, tekin í Bæjarfjalli (717 m). Björg (Bjargir) er ysti (og nyrsti) bærinn í Útkinn, Köldukinn. Myndatexti:
Greinilega má sjá að lúpínan er farin að hopa á vissum svæðum í bæjarfjallinu.
Í stað kröftugrar lúpínu, sem sums staðar nær í mittishæð, vex nú gras og annar gróður.
Þetta gefur von um að í stað gróðurlítilla mela, sem voru á þessu svæði áður en lúpínu var sáð, verði innan tíðar gróðurþekja með fjölbreyttum gróðri.
Af kortavef ja.is.
Á Íslandi er lítill hópur fólks sem telur lyng og fjalldrapa, berangur og uppblásið land, vera náttúrulegt ástand. Einhæft og einfalt. Jafnvel eru sumir sem vilja standa vörð um þessa hnignun. Fleiri horfa til þess hvað sé unnt að gera til þess að náttúran fái að þróast áfram og endurheimtur verði á skógum og annarri fjölbreyttari gróðurþekju. Í því skyni er skynsamlegast að horfa til þess hvernig tegundir hegða sér, kosti þeirra og galla, frekar en hvort þær bárust hingað hingað af sjálfsdáðum eða fengu til þess hjálp. Sakir fjarlægðar landsins er flóra þess fremur fátækleg, sérstaklega hefur það glatað mörgum þeirra trjátegunda sem hér uxu fyrir síðustu ísöld.

Í skýrslu nefndar um endurskoðun laga um landgræðslu frá júlí 2012 segir svo frá:
Líklegt er að um helmingur þeirrar gróðurhulu sem hér var um landnám hafi glatast. Mikil umskipti hafa einnig orðið í gróðurfari og hefur þekja birkiskóga minnkað úr a.m.k. 25% af flatarmáli landsins í um 1%. Samsetning þess gróðurs sem eftir stendur einkennist mjög af landhnignun, með mikilli útbreiðslu tegunda sem verjast vel búfjárbeit eða einkenna röskuð svæði. 
[-] 
Með hnignun jarðvegs og gróðurs hafa orðið miklar breytingar á lífríki og virkni vistkerfa. Frjó vistkerfi hafa víða orðið eyðingu að bráð og áhrif á tegundasamsetningu gróðurs, smádýra, örvera og fugla eru mikil. Ekki síst hefur orðið mikil skerðing á jarðvegslífi, en rannsóknir þar að lútandi eru litlar.
Eftirfarandi er brot úr grein Ásu L. Aradóttur, Ólafs Arnalds og Steve Archer: Hnignun gróðurs og jarðvegs (Árbók Landgræðslunnar 1992):
Við langvarandi eða þunga beit geta beitarfælnu tegundirnar smám saman orðið ríkjandi og er líklegt að algeng gróðurlendi hér á landi, svo sem lyngmóar og þursaskeggsmóar, séu afleiðing búsetu og beitar. Við þessa gróðurfarsbreytingu rýrnar beitargildi landsins og veldur það auknu álagi á góðar beitarplöntur sem eftir standa nema dregið sé úr beitinni.
Misjafnt hafast mennirnir að.
Náttúrufræðistofnun í faðmi náttúrunnar.
Mynd: Einar Gunnarsson 2012.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli