Ýmis atriði um
ræktun sitkagrenis. Úr grein Hákons Bjarnasonar um sitkagreni, í
Skógræktarritinu 1970.
Sá eiginleiki fylgir sitkagreni, að ef það veit vel við sól og birtu, myndar það nýjar en litlar greinar inn á milli þeirra, sem fyrir eru. Af þeim ástæðum verður krónan mjög þétt, og því er það allra grenitrjáa best í skjólbelti. [-]
Þá skal þess og getið, að eftir köld og stutt sumur hefur stundum borið á vaxtartregðu á sitkagreni, sem áður hafði vaxið vel. Ýmsar ástæður geta auðvitað legið til slíks afturkipps, en í þessu tilviki virtist samt auðsætt að hér sé um skort á köfnunarefni að ræða. Komið hefur í ljós, að með því að gefa trjánum nokkurn skammt af kjarna, hreinu ammóníumnítrati[*], taka trén vaxtarkipp á ný. Allar líkur eru fyrir því, að rotnunin í jarðveginum sé svo hæg í köldum sumrum, að hún leysi ekki nægilega mikið köfnunarefni úr læðingi handa trjánum. Þessa verður líka vart hjá rauðgreni og jafnvel svo mjög, að trén eru með gulleitum blæ langt fram á sumar. Hinsvegar ber ekki eins á þessu hjá furutegundunum eða lerki. [-]
Að endingu skal þess getið, að sitkagreni hefur iðulega borið þroskað fræ á ýmsum stöðum hér á landi allt frá því að trén hafa verið um tuttugu ára. Með því er það að öðlast borgararétt í hinu íslenska gróðurríki, og er fagnaðarefni því að sitkagrenið þolir storma og saltahafvinda öllum gróðri betur, og þar sem jarðvegur er við þess hæfi með frískum jarðraka má búast við góðum árangri af ræktun þess.
* Salt úr
ammóníaki og saltpéturssýru, með efnaformúluna NH4NO3, uppistaðan í köfnunarefnisáburðinum
Kjarna sem einnig innihélt kalíum og fosfat. Kjarni var framleiddur af Áburðarverksmiðjunni
(nú Fóðurblöndunni). Í dag er hægt að kaupa köfnunarefnisáburð með kalki sem vegur
á móti sýrandi áhrifum köfnunarefnisins.
Sitkagreni til sölu, mynd af vef gróðrarstövðarinnar Kjarrs í Ölfusi, kjarr.is. |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli