Haustið 1986 var ég staddur á Hallormsstað og greip þá með mér nokkra köngla sem höfðu fallið af lindifurunum sem þar standa. Úr þessum könglum fékk ég tæpan hálfan bolla af fræi, en lindifurufræ eru stórar hnetur sem um þessar mundir eru tískuvara í matargerð. Þessu fræi sáði ég þá um haustið í hálfgróinn lyngmóa. Sáningin virtist ekki ætla að bera neinn árangur enda eru furuhnetur ekki síður vinsælar hjá hagamúsum en stjörnukokkum.
Svo var það vorið 1994 að mér varð gengið þarna um móann og þegar ég var að virða fyrir mér snotra sjálfsáða birkiplöntu rak ég augun í litla furuplöntu sem var að gægjast upp úr mosanum rétt hjá birkinu. Þessi planta, sem hér fylgir mynd af, er nú orðin mannhæðar há, þ.e. 170 sm og hefur aldrei séð á henni þó að hún standi á berangri. Seinustu árin hefur meðal ársvöxturinn verið 23 sm.
Lindifurur eru með allra harðgerðustu trjám. Í Alpafjöllunum taka þær við þar sem rauðgreni og skógarfura hætta, í u.þ.b. 1700 metra hæð og vaxa í bland við lerkiskógana upp að skógarmörkum. Lindifururnar á Hallormsstað, sem fræið var af, munu vera ættaðar austan úr Síberíu. Sáð var til þeirra í byrjun 20. aldar og fóru þær að bera köngla og sá sér á 6. áratugnum. Það er mikils um vert að hafa sem fjölbreyttastan gróður í skógum og útivistarsvæðum framtíðarinnar og þá er um að gera að sniðganga ekki lindifuruna. Enda þótt hún sé kannski ekki með hraðvöxnustu trjátegundum er hún einstaklega falleg og hefur þegar sýnt að hún kann vel við sig hér á landi.
Reykjavík, 10. apríl 2005
Jóhann Pálsson
-----
Reykjavík, 10. apríl 2005
Jóhann Pálsson
-----
Um tilurð lindifurutrjánna í Hallormsstað skrifar Sigurður Blöndal í Skógræktarritið 1988 í greininni Fyrr og nú (bls. 100):
Engin ummæli:
Skrifa ummæli