mánudagur, 9. apríl 2012

Auðnutittlingar og grenilýs

(Laufblaðið 2003/2, bls. 3).

    Auðnutittlingar eru smáfuglar, að mestu ljósgráir og yrjóttir með rautt enni. Þeir eru af finkuætt og hafa dæmigerðan gogg sérhæfðan að fræáti. Auðnutittlingar halda sig mest í trjám og tíðast í birki og eru afar fimir en setjast einnig á jörðina, sérstaklega í moldarflög og arfastóð til að tína fræ. Á sumrin éta þeir töluvert af skordýrum og lirfum þeirra. 
    Aðalvetrarfæða auðnutittlinga eru birkifræ en einnig fræ annarra plantna, t.d. fjalldrapa, reynis og ýmissa blóma og grasa. Brum sumra runna eru einnig á matseðlinum á vorin. Í seinni tíð hefur einnig mátt sjá þá hangandi á grenikönglum að tína úr þeim fræið. Auðnutittlinga er hægt að venja á fuglafóður ef þeim er gefið smágert finku- eða páfagaukafræ og verða þessir spöku fuglar þá daglegir gestir yfir köldustu mánuðina. 
    Sá grunur læddist að mér að auðnutittlingar væru að éta grenilýs þegar ég var staddur í Vífilsstaðahlíð að vorlagi fyrir tveimur árum og fylgdist með auðnutittlingum sem flögruðu um í grenitrjám en það getur verið erfitt að staðfesta slíkt. Þetta atferli hef ég svo séð nokkrum sinnum síðan. Það var svo nú á vormánuðum, í byrjun mars að ég fylgdist með 35 fugla hópi á stuttu færi í lágvöxnum (3-5 m) sitkagrenitrjám í Laugardalsgarðinum að ég gat staðfest hvað var hér að gerast. Fuglarnir flögruðu um og voru mest á innanverðum sprotunum (2-3 ára) og voru greinilega af tína af barrnálunum. Þegar ég skoðaði sprotana þar sem fuglarnir voru mest á ferðinni mátti sjá töluvert af grenilúsum. Síðan hef ég séð þetta lúsaát auðnutittlinganna oft. 
    Aðrir fuglar sem éta mikið af grenilúsum eru hinir nýju íbúar landsins, glókollarnir ásamt þeim gamalkunna birkiskógafugli, músarrindlinum. Ljóst er að allar þessar tegundir fugla njóta góðs af lúsunum. Þeim fer fjölgandi hér á landi og setjast þeir fljótlega að í ræktuðum nýskógum eða trjálundum. Þessar fuglategundir éta líka fleiri skaðleg skordýr, eins og t.d. blaðlýs og fiðrildalirfur, og eru þar með mikilvægur þáttur í vistkerfi skóganna. 

Viðauki 
Síðan þessi grein var skrifuð hefur bæst á listann yfir þá fugla sem tína grenilýs en bæði stari og þúfutittlingur hafa sést stunda þá iðju. En enn vantar þó maríuerlu í hópinn og jafnvel skógarþröst.

Einar Þorleifsson, Fuglaverndarfélaginu


Engin ummæli:

Skrifa ummæli