þriðjudagur, 10. apríl 2012

Meira af elri

Laufblaðið, 2. tbl. 1. árgangs Laufblaðsins, nóvember 1992:

Öflugar trjátegundir sem vekja vonir 
    Þegar starf að verkefni um Landgræðsluskóga hófst 1990, var ákveðið að gera tilraunir með tegundir, sem ekki höfðu verið reyndar áður við erfið jarðvegsskilyrði. Meðal annars var ákveðið að reyna öl (elri), en nokkrar vísbendingar benda til þess að hann geti verið öflug uppgræðsluplanta. 
    Mjög lítið reyndist vera til af honum, en fyrir velvilja fengust í gróðrarstöð Skógræktar ríkisins á Tumastöðum um 5000 plöntur af sitkaöl, Alnus viridis, ssp. sinuata (frá Alaska) og evrópugrænöl, A. viridis, ssp. viridis (frá Davos í Sviss, 1500 m y.s.). 
    Á landgræðsluskógarsvæðinu í Breiðdal var elrið áberandi öflugasta plantan þegar svæðið var skoðað í sumar. 
    Sömu sögu er að segja af svæði við Vík í Mýrdal sem kannað var nýlega. Þar höfðu verið gróðursettar um 40 plöntur og voru þær allar lifandi og þær fallegustu um 30 cm.  
    Á söndunum og hrauninu fyrir ofan Þorlákshöfn er landgræðsluskógarsvæði, þar sem lögð var út tilraun Skógræktar ríkisins og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins 1989 (með efnivið frá Alaska úr ferð Óla Vals og félaga frá 1985) en þar er vöxtur á einstaka elrisklónum mjög góður. Af víðitegundunum, sem reyndar hafa verið við Þorlákshöfn, virðist jörfavíðir S-4 gefa besta raun. 
    Ofangreindur árangur gefur vissulega vísbendingu um að ölur henti vel til uppgræðslu á mörgum svæðum við suðurströndina, en þar hefur trjárækt eða skógrækt víða átt erfitt uppdráttar. Árangurinn ætti að vera hvatning til frekari dáða og jafnframt leiðarvísir um áherslur í tegundavali á næstu árum.

-----

Skogur.is, 28. júlí 2009:

Gráelri nær nýjum hæðum

Í Haukadalsskógi var gróðursett gráelri sem ættað er frá Noregi árið 1961 við læki í Austmannabrekku. Hafa þessi tré sáð sér niður með lækjum og sprottið upp í háum greniskógum. Skógræktarmenn voru á ferð í Haukadalsskógi og mældu nokkur af þessum trjám og eru þau hæstu þeirra um 15 m há og setja þau afar skemmtilegan svip á greniskóginn þar sem þau teygja sig upp í ljósið milli grenitrjánna.

Mynd: Hreinn Óskarsson

Engin ummæli:

Skrifa ummæli