mánudagur, 14. október 2013

Vakalág

Útdráttur úr grein Sigurðar H. Magnússonar og Borgþórs Magnússonar, Áhrif víðis á landnám birkis á skóglausu svæði, Náttúrufræðingurinn 1992, 61. árg. 1991, 2. tbl., bls. 96.


STAÐHÆTTIR OG AÐFERÐIR
Tilraunasvæðið er á hálfgrónum mel, um 6 km suðsuðvestur af Gunnarsholti,í svokallaðri Vakalág (1. mynd). Melurinn er fremur fínkorna og liggur í um 45 m hæð yfir sjó. Jarðvegur er dálítið moldarblandinn en allþéttur og eru stærstu steinar á yfirborði 3-4 cm í þvermál. Yfirborð er slétt og hallar örlítið til vesturs. Heildargróðurþekja var um 20% við upphaf tilraunar. Ríkjandi tegundir á melnum, taldar upp eftir minnkandi vægi í þekju, voru: melagambri (Racomitrium ericoides) (íslenskt heiti mosans samkvæmt tillögum Bergþórs Jóhannssonar, munnlegar upplýsingar), túnvingull (Festuca richardssonii), skriðlíngresi (Agrostis stolonifera) og axhæra (Luzula spicata). Aðrar áberandi tegundir voru krækilyng (Empetrum nigrum), geldingahnappur (Armeria maritima) og melablóm (Cardaminopsis petraea). Einnig voru á melnum allmargar stakar víðiplöntur, einkum af grávíði (Salix callicarpaea) og grasvíði (Salix herbacea). Birki var hvergi að finna á melnum eða í nágrenni hans og nær fullvíst er að allar þær birkiplöntur sem fundust eftir að tilraunin hófst hafi komið upp af því fræi sem sáð var. Svæðið hefur að mestu verið friðað fyrir beit frá því um 1950 og alfriðað frá 1980 (Sveinn Runólfsson, munnlegar upplýsingar).

Tilraunin var skipulögð sem blokkatilraun með þremur endurtekningum. Í hverri blokk voru 4 mismunandi meðferðir, sem voru: a) haustsáning, b) haustsáning og áborið á næsta vori, c) vorsáning, d) vorsáning, húðað fræ. Reitastærð var 1,2 x 10,0 m og var bil milli reita 1,2 m. Notað var hreinsað fræ sem safnað hafði verið á Kvískerjum í Öræfum dagana 15.-25. október 1987. Sáð var í reitina 11. október 1988 (haustsáning) og 24. maí 1989 (vorsáning). Af óhúðuðu fræi var sáðmagn 0,5 g/m2 (=1027 fræ/m2) en af húðuðu fræi 2,5 g/m2 («1115 fræ/m2). Til að auðvelda sáningu var fræinu blandað saman við dautt hundasúrufræ og því síðan handsáð yfir reitina. Áburði var handdreift 24. maí 1989 og var áburðargjöf 50 kg/ha af N, P, og K miðað við hrein efni.
[...]


Tilvitnanir í fyrirlestur Sigurðar H. á ráðstefnu um birkiskóga (frásögn úr Tímanum, 80. tbl., 27. apríl 1996, bls. 18):
  • Í ljós kom að haustsáning skilar betri árangri en vorsáning.
  • Fræið spíraði að langmestu leyti snemma á næsta vori.
  • Húðun birkifræs hafði í flestum tilfellum lítil áhrif á spírun. Og áburðargjöf seinkaði spírun verulega.
  • Jarðvegsyfirborð reyndist hafa úrslitaáhrif. Birkifræ spírar langbest sé því sáð á ógróna tiltölulega raka jörð. Spírun getur líka verið veruleg á grónu landi ef það er rakt (mýrar). 
  • Á algrónum tiltölulega þurrum svæðum, þar sem svörður er meira en 1 cm, reyndist spírun hins vegar lítil sem engin, nema þá ef landið var nauðbitið, og heldur ekki þegar sáð var í laust og þurrt yfirborð, t.d. sendinn jarðveg. 
  • Á grónu landi er auðvelt að auka spírun ef svörður er fjarlægður fyrir sáningu.
  • Afföll voru misjöfn eftir svæðum og meðal annars háð stærð plantnanna. Lífslíkur þeirra voru þeim mun meiri sem þær voru stærri á fyrsta hausti.
  • Áburðargjöf dró verulega úr afföllum á lítt grónu og rýru landi en hafði lítil áhrif á algrónu rýru landi. 
  • Í gróðurlausum setum voru mikil afföll að vetri til einkum vegna frostlyftingar.

Hvar er Vakalág? Morgunblaðið, 139. tbl. 23. maí 2006, bls. 38:
Land til leigu til skógræktar og bindingar kolefnis 
Landgræðsla ríkisins auglýsir til leigu tvær landspildur. Spildurnar eru einungis leigðar til skógræktar og bindingar kolefnis, og að hámarki til 50 ára. Annars vegar er um að ræða 190 ha landspildu á Geitasandi, norðan þjóðvegar 1 og vestan Rangárvallavegar (nr. 264). Hins vegar er um að ræða 70 ha landspildu við svonefnda Vakalág, ofan Gilsbakka og vestur að merkjum milli Grafar og Helluvaðs. [...]

Engin ummæli:

Skrifa ummæli