miðvikudagur, 8. janúar 2014

Eina tréð í Vatnsdal og lerkiblóm á Vöglum - skogarbondi.is

Það kennir ýmissa grasa á vefnum skogarbondi.is, sem haldið er úti af landshlutaverkefnunum í skógrækt og Landssamtökum skógareigenda. Hinn 8. janúar birtust tvær færslur frá Norðurlandsskógum á síðunni.

Í fyrsta lagi umfjöllun Bergsveins Þórssonar um skógrækt í Húnavatnssýslum. Hér er hluti af henni ásamt myndinni sem fylgdi.
Seinnipart 20 aldar töluðu heimamenn stundum um „tréð“ í Vatnsdalnum. Því á þeim tíma var varla um annað tré að ræða á í öllum Húnavatnssýslunum en eina reynihríslu sem óx hátt uppi í grjóturð í Vatnsdalsfjalli. Þessi reynir stendur þarna enn og svo illfært er að hríslunni að hvorki menn né kindur geta sótt í hana með góðu móti. Þegar kemur fram yfir aldamótin 1900 vaknar áhugi margra á að reyna við trjárækt. [...] 
Svo var það árið 2000 að bændur í Húnavatnssýslum gátu fengið styrk til skógræktar á jörðum sínum í gegnum Norðurlandsskóga sem er eitt af landshlutabundnu skógræktarverkefnanna. Nú hafa 27 jarðir í Húnavatnssýslum gert samning við Norðurlandsskóga og alls hafa um 1.900 ha verið teknir til skógræktar.  Búið er að gróðursetja í rúmlega helming þessa svæðis eða um 1000 ha. Allar helstu trjátegundir sem reynst hafa vel í skógrækt á Íslandi hafa verið gróðursettar en mest hefur verið plantað af lerki og birki.  Nú kann að vera að einhverjir sem ekki hafa kynnt sér kosti skógræktar telji að þarna sé verið að þrengja að hefðbundnum landbúnaði en svo er ekki. Húnavatnssýslurnar eru láglendar og vel grónar, land undir 400 hæð yfir sjávarmáli er alls um 304.000 ha svo þeir tæplega 2.000 ha sem er búið að taka undir skógrækt eru eins og pálmatré í Sahara, snjókorn á jökli, dropi í hafi, Íslendingur í Kína.
Myndatextinn sem fylgir á skogarbondi.is:
Bjarni E. Guðleifsson við reynihrísluna í Vatnsdalsfjalli 2003
http://www.skogarbondi.is/saga-skograektar-i-hunavatnssyslum-stadan-i-dag-og-framtidarmoguleikar/

Í öðru lagi þessi fallega mynd af kvenblómi lerkis (karlblómin eru gul). Myndin mun vera úr fræhúsinu á Vöglum og tekin 22. mars 2013. Líkur eru til þess að blómið hafi orðið að lerkiköngli nú í haust.
http://www.skogarbondi.is/lerki-blom/

Lerkifrægarður var stofnaður árið 2005 í fræhúsinu á Vöglum í Fnjóskadal, Þingeyjarsveit. Þessi mynd úr fræhúsinu birtist á skogarbondi.is vorið 2012:



Engin ummæli:

Skrifa ummæli