þriðjudagur, 11. mars 2014

Hvaða trjátegundir eru "innlendar"?

Úr greininni Hjartardýr í Vopnfirskum skógarlundum. Sunnudagsblað Mbl. 15. október 2000:
[...], það er erfitt að sjá fyrir sér Ísland í dag annars vegar með sínum gróðursnauðu holtum, rjúpum og heimskautarefum og hins vegar Ísland í árdaga vafið barr- og laufskógum með beyki í öndvegi meðal lauftrjáa og vínviður óx í Arnarfirði, en smá hjartadýr tipluðu í lautum og stígum. En þannig var Ísland í árdaga. 15 milljón ár er eru stuttur tími í jarðsögunni, næstum eins og lítil flís í planka. 
Elsta berg á Íslandi er austast og vestast og stafar það af landrekinu, bergið verður yngra þegar nær miðjunni dregur. Gróðurleifar finnast bæði austanlands og vestan, en þær fallegustu eru í surtarbrandi á Vestfjörðum, en þar hafa á nokkrum stöðum varðveist laufblöð, eða för eftir þau. Þau elstu eru sem fyrr segir 15 milljón ára gömul frá míósenskeiði tertiertímabilsins. Laufblöð af beyki, vínvið, furu, risafuru, álmi, lind og valhnotu hafa fundist, að ógleymdum kínarauðviði sem talið var að væri útdauður, uns hann fannst fyrir tilviljun í afskekktum dal í miðju Kínaveldi árið 1941, að sögn Leifs Símonarsonar, [...]

Úr greininni Íslandsskógar. Lesbók Mbl. 11. desember 1999:
[...]
Íslandsskógar fyrir milljónum áraÁ seinni hluta tertíertímabilsins í jarðsögunni, fyrir 10-15 milljónum ára, ríkti heittemprað loftslag á þeim eyjum í Norður-Atlantshafi sem mynduðu landgrunn Íslands. Hér óx skógur í líkingu við þann sem nú er í suðausturhluta Bandaríkjanna. Fundist hafa steingervingar af um 50 ættkvíslum plantna frá þessum tíma, einkum trjáa. Af lauftrjám hafa hér verið magnolíutré, túlípantré, lárviður, valhnota, álmur, eik, hlynur, beyki, hesli, ölur og birki. Einnig hafa barrtré eins og stórviður, fenjatré, lerki, þinur, greni og fura vaxið hér á míósentímabilinu, sem lauk fyrir rúmum fimm milljónum ára. 
Síðari hluti tertíertímabilsins er nefndur plíósen og á því tímabili fór loftslag kólnandi. Veðurfar hér hefur á þeim tíma verið temprað og flóran lík því sem nú er um vestanverða Mið-Evrópu. Kaldasti mánuður ársins hefur haft meðalhita um eða yfir 0 C. Á því tímabili höfðu barrskógar yfirhöndina. 
Skógar á ísöldFyrir um þremur milljónum ára varð gagnger breyting á loftslagi og sjávarhita á norðurhveli jarðar. Ísöld tók við með sín jökulskeið og hlýskeið. Þá mynduðust í fyrsta sinn víðáttumiklir jöklar á Íslandi. Fæst tré þoldu loftslag jökulskeiðanna og skógarnir náðu ekki að rétta sig af á hlýskeiðum á einangraðri eyju eins og þeir gerðu á meginlöndunum. Steingervingar benda þó til þess að frá upphafi ísaldar og þar til fyrir rúmri einni milljón ára hafi fura, ölur, birki og víðir vaxið hér. En þá dó furan út og ölurinn fór sömu leið fyrir um 500.000 árum, á síðasta og kaldasta jökulskeiði ísaldarinnar.
Á síðustu tveimur hlýskeiðum ísaldar hefur gróður hér verið orðinn svipaður og nú er, með birki og víði sem eina trjágróðurinn. Þó er líklegt að bæði einir og reynir hafi lifað af ísöldina. 
[...] 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli