mánudagur, 24. mars 2014

Moltumars - gropinn jarðvegur

Moltumars 2014

Sigurbjörn Einarsson jarðvegslíffræðingur: Nokkur orð um ræktunarmold. Skógræktarritið 1986.
Inngangur 
Það hefur vakið forundran margra sem standa utan innsta hrings ræktunarmanna hér á landi hvers vegna sækja þurfi mold langan veg um Atlantsála breiða til Skandinavíu til að rækta í ýmsar af nytjaplöntum okkar, svo sem trjáplöntur. Er ekki þar verið að sækja vatnið yfir lækinn, hugsar margur með sér. Í þessu greinarkorni er fjallað um mikilsverðustu eiginleika mýrarmoldarinnar og hugleiddir möguleikar á nýtingu íslensks hráefnis til moldarframleiðslu. [...] 
Vatnsdrægni - mikilvægur eiginleiki  
Þó að á seinni árum hafi komið til sögunnar tilreidd efni, svo sem steinull, til að rækta í nytjaplöntur, þá er mýrarmoldin mest notuð víðast hvar og ætla má að svo verði um nánustu framtíð. Mikilvægustu eiginleikar hennar er hve vatnsdræg og létt í meðförum hún er. Mun eftirfarandi umfjöllun miðast við mold af slíkum uppruna. Til einföldunar skal það undirstrikað að meginefnisþættir moldarinnar eru fast efni, loft og vatn. Gerð fasta hlutans ákvarðast af plöntuleifunum sem mynda mýrina sem moldin er tekin úr. Einkennistegundir mýra hér á landi eru starir og ýmsar mosategundir, fífur og heilgrös í minna mæli. Vatnsdrægni moldar, sem mynduð er úr framangreindum plöntutegundum, er nokkuð mismunandi eins og eftirfarandi þýskar niðurstöður gefa til kynna (Penningsfeld og Kurzmann 1966): 
Tafla 1. Vatnsdrægni 100 g af lítið ummyndaðri mold af mismunandi uppruna
Barnamosamold* 1000 - 1500 g vatns
Starmýrarmold 700 - 800 g vatns
Fífumýrarmold 500 - 600 g vatns
Grasmýrarmold 400 - 500 g vatns
* Sphagnum (Bergþór Jóhannsson 1985) 
Vatnsdrægnin ákvarðast af stærð holrúmanna, eftirleiðis nefnd gropur, sem eru hið innra með moldinni. Þótt heildar-gropuhluti moldarinnar ráði miklu um eiginleika hennar, þá er stærðardreifing þeirra ekki síður mikilvæg, en hún er breytileg eftir rotnunarstigi plöntuleifanna. Í lítið ummyndaðri mold eru flestar gropurnar stórar, en með aukinni rotnun eykst hlutur þeirra smáu. Þegar moldin er vökvuð ræður hlutfall stórra og smárra gropa um að hve miklum hluta þær fyllast vatni. Ef gropurnar eru margar og smáar fyllist stærstur hluti þeirra vatni fyrir tilverknað hár-pípukraftsins og hlutur lofts fer minnkandi. Þessu má líkja við það þegar lopapeysa þófnar. Þeir sem gengið hafa í þæfðri ullarpeysu í rigningarúða hafa orðið þess varir að hún ver einkar vel gegn regnvatninu, en þyngd hennar getur orðið ótrúlega mikil. Við það að peysan þófnar þéttist hún og gropurnar í lopanum minnka. Þegar regnvatnið fellur á hana, binst vatnið í gropunum, en hripar ekki í gegn. Sé lopapeysan ekki þæfð, hripar vatnið fremur í gegnum hana vegna þess hve hún er gisin. Sama máli gegnir um lítið ummyndaða mýrarmold. Í henni er hluti gropanna það stór að vatnið staðnæmist þar ekki, heldur hripar í gegnum þær. 
Stærð gropanna hefur ekki aðeins áhrif á hve mikið vatn er í moldinni, heldur einnig hve fast það er bundið, vegna þess að því smærri sem þær eru, því fastar binda þær vatnið. Þeir sem hafa þvegið þvott í nútímalegri þvottavél, þar sem þvotturinn er undinn í þeytivindu, hafa orðið þess varir að sum plöggin eru mun þyngri en önnur þó stærð þeirra sé áþekk. Því veldur að þau eru misþétt ofin og gropurnar í þeim því misstórar. Við fáum þannig hugmynd um stærð gropanna og hve miklum raka þau halda í sér eftir að sama krafti hefur verið beitt til að vinda hann úr. [..] 
Súrefnisskortur veldur rótardauða trjáplantna uppeldi ungplantna  
Í skógrækt fer nú að mestu fram í s.k. fjölpottabrettum. Í þeirri ræktun er notuð innflutt barnamosamold. algengast er að plönturnar séu hafðar eitt ár í húsi og eitt ár úti áður en þeim er plantað út. Til þess að plöntunum farnist vel á þeim tíma í svo litlu rótarými sem er í bökkunum er nauðsynlegt að eiginleikar moldarinnar varðveitist að því er varðar hlutfall loftfylltra og vatnsfylltra gropa. Eitt af því nauðsynlegasta fyrir þrif plantnanna er að rótunum berist nægilegt súrefni vegna öndunar þeirra, ella geta þær drepist. Skertur lífsþróttur þeirra af þessum völdum tærir viðnámsþróttinn gagnvart sýkingum og getur það magnað og hraðað rótadauða, sé hans tekið að gæta á annað borð. Þol gagnvart súrefnisskorti getur verið tegundabundið. Ef um þollitlar tegundir er að ræða, getur verið skammt á milli viðunandi niðurstöðu og stóráfalls.
Greinina má finna óstytta á slóðinni http://skog.is/skjol/skogrit1986/ bls. 61 (síða 65 í skjalinu).


Engin ummæli:

Skrifa ummæli