fimmtudagur, 29. mars 2012

Atriði sem gott er að hafa í huga þegar klippt er

Grein af vef um garðyrkju eftir Karl Guðjónsson, garðyrkjustjóra Kirkjugarða Reykjavíkur (islandia.is//kalli/). Afrit af vefnum er aðgengilegt á archive.org.

Nota skal beitt verkfæri, góðar klippur og sög.

Athuga vel vaxtarlag plöntunnar, hver trjátegund og hver einstaklingur er sérstakur, og þarf að klippast með tilliti til hvernig vaxtarlagið er, og með tilliti til þess hvað hægt er að ná út úr honum.

Leitast skal við að klippa plöntuna á sem eðlilegastan hátt. Skilja aldrei eftir greinastubb þegar grein hefur verið tekin burtu, það þýðir það að klippa og eða saga alltaf inn að næstu grein.
Öll sár eftir klippingu skulu vera hrein og slétt, þá á sárið mun auðveldar með að gróa.

Klipping getur ekki rétt alla hugsanlega galla á tré eða runna, t.d. við skakka staðsetnigu, þar sem plönturnar hefur ekki nægilegt pláss til að vaxa eðlilega.

Þegar um er að ræða tré eða runna, sem skulu hafa eðlilegt vaxtarlag, skal leitast við að útfæra klippinguna þannig að sem minnst sjáist að klippt hafi verið.

Með klippingu er hægt að hafa áhrif á stærð, lögun, og blómgun trjágróðurs, einnig er hægt með klippingu að yngja upp gamla runna, eða einfaldlega að hreinsa af og fjarlægja, dauðar, sárar eða sjúkar greinar.

Fólk í dag er farið að sjá fegurðina í eðlilegum vexti hjá trjágróðri, í þeim sérkennum sem hver tegund hefur þróað með sér, í greinaskipan, lögun trjábols og áferð barkar.

Góð klipping er þannig gerð að sem allra minnst sjáist að tréð hafi verið klippt. En að sjálfsögðu koma fram tilfelli þar sem klipping er sýnileg, t.d. þegar um er að ræða klippingu á gömlum og hirðulausum runnum og trjákrónum, og við klippingu limgerða og runna í form.
Afleiðing mikillar klippingar er að það myndast mikið af nýjum greinum, þannig að maður hefur kannski skapað sér mikla grisjunarvinnu næstu árin.

Venjuleg trjágrein hefur bæði endabrum og hliðarbrum. Við klippingu á ársvexti eru það aðalega sýnilegu hliðarbrumin sem munu vaxa fram og mynda nýjar greinar.
þegar tré eru ekki klippt, vilja venjulega öll endabrumin vaxa fram, en aðeins hluti af hliðarbrumunum. Þau hliðarbrum sem ekki vaxa fram eru samt lifandi áfram, og við mikla klippingu munu þau fara að vaxa fram og mynda nýjar greinar. Það eru þessi brum sem við treystum á að fari að vaxa út og myndi nýjar greinar við mikla klippingu.

En þessi mikla greinamyndun sem oft verður við mikla klippingu, orsaka einnig önnur brum, brum sem myndast þegar klipping eða meiðsli hafa átt sér stað. Þessi brum myndast í vaxtarvefnum, sem er undir berkinum. Þau geta myndast hvar sem er hvort heldur er á greinum eða frá rótinni. Mest koma þau samt fram í kringum sárastaðinn, jafnvel svo mikið að það krest nýrrar grisjunar fljótt. Við mikla klippingu eru það þessi "sofandi brum" sem við treystum á að vaxi út og myndi nýjar greinar.

Plöntur hafa ólíka eiginleika til að mynda þessi brum, og það þýðir það að vissu leiti, að ekki öll tré þola mikla klippingu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli