miðvikudagur, 28. mars 2012

Jarðvegur (moltumars)

Af vef Fossvogsstöðvarinnar (centrum.is/fossvogsstodin), sem hætti rekstri árið 2000. Afrit af vef stöðvarinnar er aðgengilegt á archive.org.

Jarðvegur
Þorsteinn Úlfar Björnsson, (höfundur bókarinnar Villigarðurinn), 18. júní 1998.

Fæstir vita nógu vel hvað jarðvegur er og halda að hann sé bara eitthvað sem kemur á skóna og undir neglurnar þegar unnið er í garðinum. En jarðvegur er meira en efni til miðlunar á næringu eða eitthvað sem plöntur nota til að festa ræturnar í. Jarðvegur er ekki efni sem hægt er að ráðskast með og bæta í hinum og þessum áburði til að fóðra plönturnar. Jarðvegurinn er lifandi! Hann er lífkerfi, fullt af lifandi verum með ákveðna eiginleika og efnaskipti sem stuðla að þrifnaði og heilbrigði hans og plantnanna.

Af öllum samverkandi þáttum ræktunar er jarðvegurinn sá mikilvægasti. Í moldinni vaxa plönturnar og þar fá þær stærstan hluta af næringu sinni. En hvað er þá mold? Mold er flókið, náttúrlegt efni með efna-, líffræði-, steindarfræði- og áferðarfræðilegum eiginleikum. Hún verður til fyrir áhrif veðurfars, lífvera og fleiri þátta á löngum tíma. Hún er lengur að verða til í köldu loftslagi eins og hér en þar sem heitara er. Þar af leiðandi er hún öllu dýrmætari hér en í heitari löndum. Þess vegna er það svo sárgrætilegt að horfa á tonn eftir tonn af dýrmætri mold fjúka á haf út. Aldur moldar hefur bein áhrif á suma eiginleika hennar og þess vegna er hún mismunandi eftir því hversu djúpt hún liggur. Yfirborðslagið er nýjast og oftast með mest af rotnandi jurta- eða dýraleifum og því frjósamast að öllu jöfnu. Segja mætti að jarðvegur væri blanda af sandi (kornastærð 0.05-2 mm), mélu (kornastærð 0.002-0.05 mm), lífrænu efni, leir (kornastærð minni en 0.002 mm), vatni og lofti.

Vatns- og loftheldni jarðvegsins ákvarðast að verulegu leyti af því hversu grófur hann er. Góður jarðvegur á að vera frá fjörutíu til sextíu prósent vatn og loft. Lífræni hlutinn er sá hluti sem hefur mest áhrif á köfnunarefnisframleiðslu moldarinnar. Þessi hluti er einn mikilvægasti þáttur jarðvegsins vegna þeirra milljóna örvera sem eru öllu plöntulífi nauðsynlegar. Auk þess geymir jarðvegurinn vatn, kolsýru og fleiri efni sem örverurnar framleiða. Rotnunargerlar lifa í efsta lagi jarðvegsins svo að þegar þú rakar ofan af beðunum ertu í raun og veru að fjarlægja endurvinnslukerfi garðsins. Og það sem þú stingur gafflinum í þegar þú ert að stinga upp beðin eru meltingarfæri garðsins. Svo að ef þú hvorki rakar né stingur upp, þarftu ekki heldur að gefa áburð. Það er nefnilega þannig að plöntur eru betur færar um að viðhalda, og reyndar bæta, frjósemi jarðvegsins en ég og þú. Við þetta njóta þær aðstoðar ýmissa lífvera. Stórvirkasta lífveran sem hjálpar þeim er gamli góði ánamaðkurinn. Það eru reyndar til ellefu tegundir ánamaðka hér á landi. En ánamaðkurinn er svo stórvirkur að það sem þú gerir með gaffli eru smámunir hjá því sem hann gerir. Í fyrsta lagi fer hann miklu dýpra en þú getur farið. Hann fer niður fyrir frost og hefur fundist á næstum fimm metra dýpi. Maðkar eru svo margir að undrum sætir. Þar sem land er frjósamt og gróður er nægur getur samanlagður þungi ánamaðkanna undir yfirborðinu orðið meiri en sem nemur þyngd dýranna á yfirborðinu. Ánamaðkar og þráðormar, sem eru enn fleiri, loftræsa jarðveginn, þ.e. hleypa súrefni inn og kolsýru út. Þeir stuðla að jafnari vökvun þar sem vatn á greiða leið um göng þeirra. Og þeir brjóta niður lífræn efni eins og sölnað lauf og gras. Það gerir einnig fjöldinn allur af öðrum lífverum sem við verðum ekki vör við

Það hefur komið á daginn að ýmis efni sem áður var haldið að eyddust og brotnuðu niður í jarðveginum, haga sér öðruvísi en menn áttu von á. Meira að segja efni sem áður var talið að væru mjög skammlíf eins og Ethylene dibromide. Auk þess verða sum skordýraeitur, einkum þau sem skyld eru Parathion, miklu eitraðri og langlífari þegar þau brotna niður og bindast öðrum efnum. Og þau geta safnast saman í jarðvegi á löngum tíma. Þegar slíkt gerist geta þau staðið gróðri fyrir þrifum og verið beinlínis hættuleg heilsu manna og dýra. Þetta á sérstaklega við um skordýralyf og blýmengun frá útblæstri ökutækja eins og jarðvegssýnið sem tekið var á eplabúgarði í New Yorkfylki í Bandaríkjunum. Það innihélt slíkt magn arseniks, blýs og skordýraeiturs að jarðvegurinn var lagalega skilgreindur sem hættulegur úrgangur!

Fátt er það sem hjálpar jarðveginum eins mikið til að viðhalda réttu sýrustigi og moltan. Hún virðist hafa þann eiginleika að geta jafnað út og leiðrétt of hátt og of lágt sýrustig. Þessvegna er mjög nauðsynlegt að auka lífrænt innihald jarðvegsins og þar með gerlagróður. Það hefur einnig sýnt sig að ýmis eiturefni sem geta verið hættuleg bindast motunni og eyðast. Það er því ekki rétt sem margir trúa að betra sé að dauðhreinsa moldina þegar sáð er. Í raun og veru er þessu öfugt farið. Rannsóknir hafa sýnt að smáplöntur sem ræktaðar eru í moltublandaðri mold eru heilbrigðari en þær sem ræktaðar eru í dauðhreinsaðri mold. Lífverur sem lifa á sveppum drepast og sveppagró eru allstaðar. Þau lenda í moldinni og vaxa ef skilyrðin eru rétt,. Auk þess hefur hiti áhrif á ýmis næringarefni svo það getur komið upp misvægi í næringarefnupptöku ungplantnanna. Útbúðu þér því safnhaug og framleiddu þína eigin moltu. Betri áburð er ekki hægt að fá.

Bókina mun vera hægt að nálgast
hjá höfundi bókarinnar: steini[att]vortex.is

Engin ummæli:

Skrifa ummæli