Þann 28. febrúar sl. var starfsfólk Héraðs- og Austurlandsskóga að mæla skóga til grisjunar þegar þau rákust á lerkitré með svo þrútin brum að farið var að sjást í grænt. Í framhaldinu var athugað hversu útbreitt það væri að lerki væri sprungið út. Það reyndist ekki algengt en brum voru þrútin á velflestum rússalerkitrjám sem skoðuð voru og farið að sjást í grænt á stöku tré. Þá er heggur um það bil að laufgast og alaskavíðir kominn með verulega þroskuð blómbrum eins og myndirnar bera með sér.
Á árum áður grænkaði lerki oft í maí eða jafnvel ekki fyrr en í júní, en á Héraði muna menn vart eftir því hvenær það gerðist síðast. Á undanförnum árum hefur oftast borið á töluverðum grænum lit í marsmánuði og lerki orðið algrænt í apríl. Sum árin hefur það haft slæmar afleiðingar fyrir lerkið að hefja vöxt svo snemma, en þrisvar á sl. tíu árum hafa nálar lerkis orðið fyrir miklum skemmdum í maíhretum með tilheyrandi vaxtartapi trjánna.
Vegna hlýindanna í febrúar er vöxtur lerkis og fleiri tegunda trjáa og runna óvenjusnemma á ferðinni, jafnvel miðað við undanfarin ár. Ef hlýindin halda áfram má ætla að lerkið verði orðið býsna grænt í lok mars.
Myndirnar sem hér fylgja eru teknar á Héraði 1. mars 2012.
Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson
Source:http://www.skogur.is/um-skograekt-rikisins/frettir/nr/1694
Powered by Reader2Blogger
Engin ummæli:
Skrifa ummæli