laugardagur, 17. mars 2012

Besta mold í heimi (moltumars)

Fróðleiksbásinn - Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur
Bændablaðið fimmtudagur 15. mars 2012, bls. 34

Garðyrkja & ræktun

Besta mold í heimi
Áhugi á jarðgerð eykst hratt og fjölmargir hafa komið sér upp safnkassa í þeim tilgangi að nýta lífrænan úrgang sem fellur til í eldhúsinu og garðinum. Góð safnhaugamold er besta mold sem hægt er að hugsa sér og fólk ætti hiklaust að stunda jarðgerð hafi það aðstöðu til. Ýmsar aðferðir eru þekktar þegar kemur að jarðgerð og mismunandi hver þeirra hentar á hverjum stað. Algengast er að garðeigendur komi sér upp einum eða fleiri kössum fyrir lífrænan úrgang og hann sé látinn jarðgerast í þeim. Hægt er að velja á milli þess að kassinn sé einfaldur að gerð eða flóknari, lokaður og einangraður. Jarðgerð í einföldum kassa kallast köld en heit í lokuðum og einangruðum kassa og gengur hún mun hraðar fyrir sig. Hvort sem um er að ræða kalda eða heita jarðgerð skal koma kassanum fyrir á þurrum og skjólgóðum stað þar sem auðvelt er að komast að honum. Kassinn þarf að standa á möl eða moldarjarðvegi og gott er að setja trjágreinar í botninn þannig að jarðvegsdýr eigi auðveldan aðgang upp í hann. [...]

Best að blanda öllu saman
Þegar lagt er í jarðgerð er gott að setja um 15 sentímetra lag af misgrófum greinum í botninn á kassanum og mikið af þurru efni, til dæmis heyi, í neðsta lagið. Best er að hafa úrganginn sem fer í kassann sem smágerðastan og hræra öllu vel saman. Ef ekki er hægt að hræra í kassanum skal fyllt á hann í þunnum lögum og gott er að setja mold eða þurran garðaúrgang á milli laga. Auka má loftstreymi í kassanum með því að stinga í eða hræra í innihaldinu með stungugaffli af og til. Til að flýta fyrir jarðgerðinni er gott að sáldra gamalli, fíngerðri mold eða þurrum búfjárskít á milli laga. Þumalfingursreglan segir að ef sett sé í kassann ein fata af grænmeti skuli setja með 1/3 úr fötu af þurru efni, til dæmis þurru laufi eða heyi. Komi sterk rotnunarlykt úr kassanum er efnið í honum líklega of blautt. Yfirleitt er nóg að blanda þurru heyi eða sagi í innihaldið til að kippa þessu í lag og minnka fnykinn. Við aðstæður sem þessar ætti jarðgerðin að taka 8 til 10 mánuði í lokuðum, einangruðum kassa en nokkrum mánuðum lengur í einföldum, óeinangruðum kassa eða tunnu.

Lífið í jarðgerðinni
Til þess að jarðgerðin heppnist þarf vatn, súrefni og hita. Örverurnar sem umbreyta efninu í kassanum í jarðveg þurfa vatn svo að lífsstarfsemi þeirra gangi eðlilega. Of mikið vatn getur aftur á móti hægt á starfseminni þar sem það dregur úr súrefni, en það er ekki síður nauðsynlegt svo að niðurbrot geti átt sér stað. [...]

Greinina í heild má lesa í Bændablaðinu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli